
Hér skiptir öllu máli af hvaða ástæðu viðkomandi vill ekki veiða dýr eða slátra. Ef ástæðan er sú að hann telur það siðferðilega rangt að deyða dýr sér til matar virðist það vissulega fela í sér mótsögn að kaupa svo með glöðu geði kjöt í verslun. Að vísu má hugsa sér að viðkomandi gæti einhverra hluta vegna álitið að þótt rangt væri að deyða dýrin væri ekki rangt að kaupa af þeim kjötið en erfitt er að hugsa sér gildan rökstuðning að baki slíkri skoðun þar sem ljóst er að kjötkaup fela í sér stuðning við dýradráp. Eina leiðin til að komast hjá því virðist vera að kaupa kjöt af sjálfdauðum skepnum en yfirleitt er það ekki til sölu í verslunum (að minnsta kosti vonum við það). Ef við hugum að öðrum mögulegum ástæðum andstyggðar á dýradrápi flækist málið hins vegar. Mörgum þykir dýradráp ógeðfellt án þess að telja það siðferðilega rangt. Til er fjöldinn allur af verkum sem mörgum þykja ógeðfelld án þess að þeir hafi nokkuð á móti því að þau séu unnin. Fæst okkar hafa til dæmis gaman af að skúra gólf en flest viljum við hafa gólfin hrein. Væntanlega er ástæðan ekki sú að við teljum eitthvað siðferðilega athugavert við gólfþvotta. Þannig má hugsa sér að einhver gæti haft andstyggð á dýradrápi vegnar þess að það sé leiðindaverk án þess að hafa neitt við það að athuga frá siðferðilegum sjónarhóli. Ef viðkomandi kaupir svo kjöt í verslun er það ekkert mótsagnakenndara en þegar fólk sem ekki sinnir gólfþvotti gengur á hreinu gólfi eða jafnvel borgar öðrum fyrir að þvo gólf.

Mynd: France Hybrides