Útlit minka er breytilegt milli árstíða. Stafar það af breytingum á feldinum og líkamsástandi dýranna. Kynjamunur er á stærð minka en að öðru leyti eru kynin lík í útliti. Minkar fara úr hárum tvisvar á ári og nýr feldur vex. Þeir fara í sumarbúning í apríl og vetrarbúning í september og október. Nokkur munur er á útliti búninganna, þótt báðir séu dökkbrúnir í fyrstu. Vetrarhárin eru nokkuð þéttari og lengri, sem veitir meiri einangrun og veldur því (ásamt þyngdaraukningu, sjá síðar) að minkar virðast stærri að vetrarlagi. Meiri gljái er á vetrarfeldinum en sumarfeldinum en þegar líður frá háraskiptum upplitast feldurinn vegna sólarljóss. Eðli málsins samkvæmt verður upplitunin meiri á sumrin, þegar sól er hæst á lofti, og getur feldurinn orðið ljósbrúnn á fullorðnum dýrum þegar líður að hausti. Upplitunin er oft meiri hjá minkum sem lifa við sjó því selta sjávar fer illa með feldinn. Í ágúst og september, þegar hvolpar sumarsins eru orðnir stálpaðir, má þekkja ung dýr frá fullorðnum á lit. Ungu dýrin eru þá nokkru dekkri en þau eldri, enda hefur sólin ekki lýst feldinn eins mikið. Mikill kynjamunur er á stærð hjá minkum. Læður eru að jafnaði rúmlega 600 grömm en steggir tvöfalt þyngri eða um 1.200 grömm. Að öðru leyti eru kynin lík í útliti utan kynfæra og spena. Líkamsástand minka breytist mikið eftir árstíma. Læður þyngjast á meðgöngu en geta lést mjög þegar líður á sumarið, enda þurfa þær þá að sjá hvolpum sínum fyrir fæðu, auk þess að veiða fyrir sig sjálfar. Í seinni hluta ágústmánaðar eru hvolparnir hins vegar orðnir sjálfbjarga og minnkar þá álagið á móðurina mikið. Þyngdarbreytingar steggja eru greinilegri. Þeir ná hámarksþyngd í janúar og febrúar, það er rétt fyrir upphaf fengitíma, sem stendur frá lokum febrúar til apríl. Á fengitímanum ferðast steggirnir mikið í leit að læðum til að makast við og léttast að jafnaði um fimmtung. Um sumarið taka þeir að þyngjast á ný og heldur sú þynging áfram fram að næsta fengitíma þegar ferlið endurtekur sig. Sjá einnig svar sama höfundar við spurningunni Hver er stofnstærð villiminks á Íslandi? Á hann sér einhverja náttúrulega óvini?
Mynd: Fjölskyldu og húsdýragarðurinn