Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Svar í hnotskurn: Tokkarísku málin tvö, sem yfirleitt eru táknuð “A” og “B” eða kölluð austur- og vesturtokkaríska, voru töluð af afkomendum indóevrópsks þjóðflokks í norðanverðri Tarim-lægð, sem er á sjálfstjórnarsvæðinu Sinkíang í Vestur-Kína. Tokkarísku málheimildirnar eru frá því um 500 til 900 eftir Krist. Tokkarísku málin dóu út, og því er ekkert tungumál komið af þeim.
Tokkaríska (þ. Tocharisch, fr. tokharien, e. Tocharian) tilheyrir indóevrópsku málaættinni líkt og germanska, keltneska, ítalíska, baltnesk-slavneska, gríska, indóíranska o. fl. Hún greinist í tvö tungumál, sem upphaflega voru táknuð “A” og “B”. Þessi táknun var ætluð til bráðabirgða, en þrátt fyrir seinni uppástungur festist hún og er almennt notuð enn í dag. Aðrar táknanir fyrir A eru: austurtokkaríska, agníska (fr. agnéen, e. Agnean), karasjaríska (fr. karacharien), túrfanska (fr. tourfanien, e. Turfanian); fyrir B: vesturtokkaríska, kútsjíska (þ. Kutschisch, fr. koutchéen, e. Kuchean).
Heimildir okkar um tokkarísku málin eru fjölmörg textabrot sem fundizt hafa í norðvesturhluta Austur-Túrkestans, nánar tiltekið á “sjálfstjórnarsvæðinu” Sinkíang (Xinjiang) í vestanverðu Kína. Málin voru töluð í norðanverðri Tarim-lægð (Tarim Pendi), sem er um 550 000 km2 að flatarmáli. Tokkaríska A er varðveitt í textum frá vinjasvæðunum Karasjar (Qarašahr, Agni á fornindversku, nú Yanqi á kínversku) og Túrfan. Þar hafa einnig fundizt leifar tokkarísku B, en flestir fundarstaðir B-textanna eru þó vestar eða í kringum Kútsja (Kučā, nú Kuqa).
Langflestir tokkarísku textanna eru þýðingar búddískra trúarrita er upphaflega voru skrifuð á “blandaðri sanskrít” (þ. gemischtes Sanskrit, e. Buddhist Hybrid Sanskrit), máli Mahāyāna-búddismans. Fáir þessara texta eru varðveittir í heilu líki. Sumir eru tvítyngdir, þ.e. bæði á sanskrít og tokkarísku. Þeir eru skrifaðir með afbrigði indverska brāhmī-stafrófsins. Líklegt má telja að þýðendur búddísku ritanna hafi einkum verið indverskir trúboðar. Svo virðist sem þeir hafi ekki ávallt þekkt til hlítar málfræði tokkarísku. Frumskrifaðir textar á tokkarísku eru aðeins til á B-málinu. Meðal þeirra má nefna mikinn fjölda klausturreikninga og bréfa, auk þess vegabréf fyrir kaupmannalestir, viðskiptabréf, brot af ástarkvæði, viðbætur uppskrifara handrita (kolofónar), nokkrar skriftar- og málfræðiæfingar, loks áletranir við veggjamyndir svo og einstakar leturristur.
Suma tokkarísku textanna er hægt að tímasetja nákvæmlega. Allmörg vegabréf á B-málinu hafa dagsetningu svipaða þeirri sem tíðkast nú á dögum: ár, mánuð og dag. Þessi vegabréf eru frá fyrri hluta 7. aldar eftir Krist. Megnið af tokkarísku málheimildunum er frá 6. til 8. aldar eftir Krist. Þær elztu eru frá því um 500, þær yngstu frá því um 900.
Nafnið “tokkaríska” skýrist á þessa lund: Í forntyrkneskri uppskrift af búddísku leikriti (Maitreyasamiti-Nātaka) er tekið fram að það hafi verið þýtt úr “twgry”. Þar sem þetta verk er annars aðeins þekkt á tokkaríska A-málinu, var eðlilegt að fræðimenn litu svo á að “twgry” samsvaraði tokkarísku A. Vegna hljóðfræðilegrar líkingar var “twgry” svo tengt við þjóðflokk þann sem í grískum heimildum er nefndur Tókharoi, í fornindverskum Tukhāra og í kínverskum Tuholo. Er hér um þjóðflokk að ræða sem á 2. öld fyrir Krist bjó í lægðinni við efri hluta Oxus-fljóts (nú Amu Darya) eða í Baktríu, sem nú er hluti af Afganistan, Úsbekistan og Tadsjikistan. Hann mun hafa verið hrakinn frá fyrri heimkynnum í Gansu-héraði, sem er fyrir austan Sinkíang. Menn hafa ekki verið á eitt sáttir um uppruna þessa þjóðflokks, en svo mikið er víst að yfirstétt hans notaði írönsku sem ritmál. Hallast nú flestir að því að hann hafi verið íranskur. Ef svo er, á hann ekkert skylt við þá sem töluðu “tokkarísku”. Þrátt fyrir að allt bendi til að nafnið “tokkaríska” sé sprottið af misskilningi, er komin hefð fyrir vísindalegri notkun þess og því tilgangslítið að reyna að breyta því.
Um forsögu þeirra sem töluðu “tokkarísku” (hér á eftir nefndir Tokkarar) er margt á huldu. Eins og tungumálið gefur til kynna eiga þeir rætur sínar að rekja til indóevrópsks þjóðflokks. Óvíst er hins vegar, hvenær þeir komu til þeirra svæða í Tarim-lægðinni sem síðar urðu heimkynni þeirra. Elztu öruggu heimildirnar um þá eru textar þeirra sjálfra, en hinir elztu þeirra eru – eins og áður greinir – frá því um 500 eftir Krist. Þar sem kínverskar söguheimildir bera ekki vott um neinar etnískar eða mállegar breytingar á svæðinu í sjö aldir fyrir þann tíma, má ætla að það ástand sem við höfum um 500 eftir Krist hafi varað a.m.k. frá því um 200 fyrir Krist.
Tokkarar stofnuðu tvö konungdæmi í Tarim-lægðinni. Annað var í Kútsja og var tokkaríska B töluð þar. Hitt var austar, nánar tiltekið í Karasjar, og tokkaríska A mál þess. Reyndar má draga í efa að á sögulegum tíma hafi það enn verið við lýði og tokkaríska A lifandi tungumál. Ástæðurnar fyrir því eru þessar: á svæðum tokkarísku A-textanna hafa einnig fundizt B-textar; A-textarnir eru eingöngu trúarlegs eðlis; fáeinir A-textar eru glósaðir á tokkarísku B og/eða úígúrgísku (máli tyrkneskra samtíðarmanna í Sinkíang-fylki). Skýringin á þessu er líklega sú að tokkaríska A hafi ekki lengur verið lifandi mál, heldur aðeins notuð í helgihaldi.
Konungdæmið í Kútsja er að öllum líkindum nefnt eftir þjóðarleiðtogum sem sjálfir hafa kallað sig *Kuci, en það merkir ‘hinir ljósu’. Í þessu sambandi má geta þess að frá árinu 78 eftir Krist var nafn konungsfjölskyldunnar í Kútsja Po ‘hvítur’ samkvæmt kínverskum heimildum, sbr. einnig kínverska nafnið Po chan ‘Hvítfell’ á fjallinu fyrir norðan Kútsja. Nafnið *Kuci er varðveitt í þessari mynd í textum á sanskrít, sbr. titilinn Kucimahārāja ‘stórkonungurinn í Kútsja’. Í tokkarísku B breyttist það síðar í *Kuśi, sbr. lýsingarorðið kuśiññe ‘kútsjískur’ (en einnig kemur það fyrir í myndinni kucaññe).
Með svipuðum hætti var orðið ārśi í tokkarísku A notað um hitt konungdæmið, íbúa þess og tungu. Sennilega merkir það ‘hvítur, gljáandi’, sbr. lýsingarorðið ārki, sem hefur þá merkingu, en sýnir aðra orðmyndun. Umrætt orð var tekið upp í kínversku, þar sem það breyttist í Yanqi, og er nú notað um landsvæðið, þar sem konungdæmið var forðum. Indverjar nefndu sama konungdæmi Agni, sem á þeirra máli merkir ‘eldur’. Ekki er ljóst, hvernig þessi ummyndun er til orðin, en líklega er hér um eins konar “lærða skýringu” að ræða.
Þess má geta að í hellum í Kútsja, sem gegndu hlutverki búddískra helgistaða, hafa varðveitzt myndir af Tokkörum. Þær sýna hávaxna menn, sem hafa rautt eða ljóst hár, blá eða græn augu, eru klæddir á svipaðan hátt og hinir persnesku Sassanídar og vopnaðir breiðsverðum.
Hin búddíska menning Tokkara, bæði bókmenntir og aðrar listir, hefur risið hæst á tímabilinu frá 5. til 7. aldar eftir Krist. En frá árinu 630 ná Kínverjar smám saman á sitt vald allri Tarim-lægðinni. Við það missa Tokkarar sjálfstæði sitt. Allt svæðið var gert að kínversku verndarríki og voru stjórnstöðvar þess fyrst í Túrfan, en síðar (eða frá 658) í Kútsja. Þetta hafði þó ekki skyndileg endalok tokkarískrar menningar í för með sér, því textar voru ritaðir bæði á A- og B-máli allt fram til um 900 eftir Krist. Árið 751 glötuðu Kínverjar yfirráðum sínum í Mið-Asíu, er þeir biðu ósigur gegn sameinuðum herjum Araba og Tyrkja. Um 800, eftir tímabil mikilla erfiðleika og árása hirðingjaþjóðflokka á Kínaveldi, tóku Úígúrar, stofnendur fyrsta stórveldis Tyrkja á steppum Mongólíu, að sækja inn í Tarim-lægðina og setjast að í næsta nágrenni við Tokkara. Þetta olli því að Tokkarar runnu saman við Tyrki, en endalok tokkarískrar menningar markast af útbreiðslu Múhameðstrúar á svæðinu á 10. öld eftir Krist.
Heimildir:
Adams, D. Q. – Mallory, J. P. 1997. Tocharian Languages. Í: Encyclopedia of Indo-European Culture (útg. J. P. Mallory og D. Q. Adams). Bls. 590-594. Fitzroy Dearborn publishers, London.
Gabain, Annemarie von. 1979. Einführung in die Zentralasienkunde. Wissenschaftliche Buchgesellschaft, Darmstadt.
Krause, Wolfgang – Thomas, Werner. 1960. Tocharisches Elementarbuch. Band 1: Grammatik. Carl Winter, Heidelberg.
Pinault, Georges-Jean. 1989. Introduction au tokharien. Í: LALIES, Actes des sessions de linguistique et de littérature, 7. Bls. 5-224. Presses de l’École normale supérieure, Paris.
Jón Axel Harðarson. „Hvar og hvenær var tokkaríska töluð og af hverjum? Er eitthvert tungumál komið af tokkarísku?“ Vísindavefurinn, 12. júní 2002, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=2484.
Jón Axel Harðarson. (2002, 12. júní). Hvar og hvenær var tokkaríska töluð og af hverjum? Er eitthvert tungumál komið af tokkarísku? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=2484
Jón Axel Harðarson. „Hvar og hvenær var tokkaríska töluð og af hverjum? Er eitthvert tungumál komið af tokkarísku?“ Vísindavefurinn. 12. jún. 2002. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=2484>.