Það var um fimmleytið aðfaranótt hins 9. desember árið 1997, að himinninn á suðurhluta Grænlands lýstist algjörlega upp. Menn telja líklegt að þarna hafi verið um nokkuð stóran loftstein að ræða sem hafi tvístrast yfir suðurrísbreiðunni við 61° norður og 44° vestur, um það bil miðja vegu milli Qaqortoq og höfuðborgarinnar Núk. Steinninn var mjög bjartur en á eftirlitsmyndavél í 600 km fjarlægð í Núk, sást bjart endurvarp frá hlið bíls í bílastæði. Meira en hundrað manns sáu loftsteininn koma inn í lofthjúpinn, tvístrast í um 15 til 20 km hæð og sáu svo leifarnar falla á jökulinn. Veðurtungl fundu merki um óvenjulegt ský yfir árekstrarsvæðinu, en síðar kom í ljós að það var ótengt. Á norskum jarðskjálftamælum mældist 10 sekúndna skjálti, um það bil frá þessu svæði. Skjálftinn mældist hins vegar nokkrum mínútum eftir áreksturinn og kemur það ekki heim og saman við tímann sem það tekur jarðskjálftabylgjur að berast þessa leið. Auk þess mældu jarðskjálftamælar á Grænlandi ekki neina markverða skjálfta. Árið 1998 gerðu danskir vísindamenn út leiðangur til svæðisins með það að markmiði að finna leifar frá árekstrinum. Mörgum sýnum var safnað frá svæðinu en það eina sem fannst voru örsmáir glerkúlusteinar sem hugsanlega gætu verið leifar steinsins. Þeir eru það eina sem hingað til hefur fundist og hefur það vitaskuld valdið miklum vonbrigðum. Snjórinn og ísinn er mjög þykkur á þessum slóðum og því gætu leifar árekstrarins þegar verið grafnar hundruð metra undir ísnum. Mönnum er vissulega mikið í mun um að komast því sem þarna gerðist og um það hefur umræðan að mestu snúist. En ástæðan fyrir því að umræðan hefur ekki verið eins lífleg og ætla mætti, er væntanlega sú að okkur skortir sönnunargögn til staðfestingar á árekstri. Um leið og leifarnar finnast má því búast við miklu líflegri umræðum.
- Myndin er eftir listamannin Don Davis og fengin á vefsíðu hans.
- Vefsíða Scientific American