Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Í aðalatriðum er minni munur á körlum og konum sem uppalendum en sá munur sem er á körlum innbyrðis og konum innbyrðis. Fólk elur börn sín upp með mismunandi hætti og sá mismunur fer eftir mörgu öðru frekar en kynferði foreldranna. Til dæmis tekur fólk með sér sem foreldrar mismunandi reynslu frá eigin uppeldi og mismunandi gildismat frá fjölskyldu sinni.
Diane Baumrind (1991) hefur leitt rök að því að agi og hlýja séu mikilvæg hugtök í uppeldi og þær uppeldisaðferðir sem innifela mikið af hvoru tveggja séu bestar (leiðandi foreldrar). Þessar uppeldisaðferðir eru ekki bundnar við kyn, svo að hægt er að vera leiðandi foreldri hvort sem um er að ræða föður eða móður.
Samkomulag foreldranna sín á milli hefur mikið að segja um það, hvernig uppeldið tekst. Ef faðirinn sýnir móðurinni stuðning meðan barnið er lítið, verða samskipti móður og barns innilegri en annars væri, og sömuleiðis hefur samband foreldranna áhrif á það, hversu mikil samskipti eru milli ungbarnsins og föðurins (Cox, Owen, Henderson og Margand, 1992).
Mismunurinn á foreldrunum sem uppalendum hefur fyrst og fremst komið fram í því hingað til, að mæðurnar hafa eytt meiri tíma með börnum sínum og borið aðalábyrgðina á uppeldi þeirra. Þetta hefur þó breyst hratt að undanförnu og gera má ráð fyrir því að feður láti enn meira til sín taka í barnauppeldinu með tilkomu nýlegra laga um foreldraorlof. Uppeldi ungra karla hefur ekki styrkt þá eins eindregið til að sinna barnauppeldi og uppeldi ungra kvenna. Því eru feðurnir oft óvissari en mæðurnar um getu sína til að sinna ungum börnum. Hins vegar vex þeim ásmegin við að reyna þetta og reynast oft ekki síður hæfir en mæðurnar.
Þegar bornir eru saman leikir feðra og mæðra við börn sín, kemur í ljós athyglisverður mismunur (Parke, 1995). Feðurnir leika oftar líkamlega leiki við börnin, bera þau á hestbaki, henda þeim upp í loft og svo framvegis. Mæðurnar lesa hins vegar oftar fyrir börnin og leika rólegri leiki. Feðurnir eru ófyrirsjáanlegri og börnum finnst oft meira fjör í leikjum við þá en við mæðurnar. Mæðurnar eru hins vegar næmari á vísbendingar barnanna um að þau vilji fá athygli og umönnun. Því leita börnin til foreldranna við mismunandi aðstæður. Þessi kynjamunur í leikjum er þó menningarbundinn. Hann er til dæmis meiri í Bandaríkjunum en í Svíþjóð.
Einnig er athyglisvert hvað foreldrarnir gera þegar þeir eru með börnunum. Feðurnir fara oftar í gönguferðir og styttri ferðalög, sýna börnunum eitthvað skemmtilegt en mæðurnar eyða meiri tíma í að sinna þeim inni við. Barnið mundi sennilega leita til föður síns til að gera með honum eitthvað skemmtilegt, en til móður sinnar til að uppfylla þarfir sínar. Einnig er athyglisvert að þegar faðirinn er einstæður, verða leikir hans og umönnun blanda af mynstri feðra og mæðra almennt, en þó nær mynstri mæðra.
Ljóst er að feðurnir geta eins vel sinnt um börnin og mæðurnar, sé þeim gefið tækifæri til þess. Rannsóknir sýna að það er börnunum mjög hollt að feður þeirra sinni þeim. Umönnun feðra tengist hærri greind barna, betri námsárangri, meiri félagsþroska og betri aðlögun en hjá börnum sem feðurnir sinntu lítið (Gottfried, Bathurst og Gottfried, 1994). Það er því til mikils að vinna að feður taki sér tíma til að sinna börnunum og að mæður geri þeim það kleift.
Heimildir
Baumrind, D. (1991). Effective parenting during the early adolescent transition. Í P.A. Cowan og M. Heatherington (ritstj.). Family transition. Hillsdale, NJ: Erlbaum.
Cox, M.J., Owen, M.T., Henderson, V.K. og Margand, N.A. (1992). Prediction of infant-father and infant-mother attachment. Developmental Psychology, 28, 474-483.
Gottfried, A.E., Bathurst, K., og Gottfried, A.W. (1994). Role of maternal and dual-earner employment status in children's development: A longitudinal study from infancy through early adolescence. Í A.E. Gottfried og A.W. Gottfried (ritstj.). Redefining families: Implications for children's development. New York: Plenum.
Parke, R.D. (1995). Fathers and families. Í M.H. Bornstein (ritstj.). Handbook of parenting (3. bindi, bls. 27-63). Mahwah, NJ: Erlbaum.
Sjáið einnig svar Sigrúnar Júlíusdóttur við spurningunni Af hverju eru sumir háðir foreldrum sínum en aðrir ekki?
Sigurlína Davíðsdóttir. „Er munur á körlum og konum sem uppalendum?“ Vísindavefurinn, 6. júní 2002, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=2463.
Sigurlína Davíðsdóttir. (2002, 6. júní). Er munur á körlum og konum sem uppalendum? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=2463
Sigurlína Davíðsdóttir. „Er munur á körlum og konum sem uppalendum?“ Vísindavefurinn. 6. jún. 2002. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=2463>.