Í eðlisfræði má setja aflfræðina fram þannig að ögn fer þá leið sem hefur minnstu verkun (eða verkunin fyrir þá leið er útgildi eða söðulpunktur). Ljósfræðina má skýra með því að sama gildi fyrir tíma. En er eitthvert sambærilegt lögmál sem við höfum fyrir rafsegulfræðina? [flókið svar óskast]Flókna svarið er: Já. En skoðum þetta aðeins nánar. Í bókinni Ljósið fjallar bandaríski eðlisfræðingurinn Richard Feynman einmitt um þetta í fyrstu köflunum, án þess þó að sýna jöfnurnar [1]. Hann er að lýsa rafsegulsviði í tómarúmi og leiðir þannig út niðurstöður sem við þekkjum betur undir heitinu ljósfræði, um speglun og öldubrot við yfirborð. Góð umfjöllun um þetta efni fyrir nemendur í háskólanámi er í bók Feynmans og Hibbs [2], og gaman er að líta í upprunalegu greinarnar sem Schwinger hefur safnað saman [3]. Almenn umfjöllun um hnikareikning (variational calculus) í afl- og skammtafræði er í bók Yourgraus og Mandelstams [4]. Í ljós kemur að verkunin (action) í rafsegulfræði tengist vigursviðinu A (vector potential) og rafstöðumættinu V (electrostatic scalar potential), báðum í senn. Þessar stærðir gegna svipuðu hlutverki og staðarhnit og skriðþungi (momentum) hafa í hnikareikningi í sígildri aflfræði. Rétt er að nefna að framsetning afl- og rafsegulfræði á þennan hátt er ekki einungis leikur eðlis- og stærðfræðinga með útsetningar og fágun, heldur eru mörg dæmi um að hnikunaraðferðir einfaldi tölulega reikninga eða greinireikninga. Glænýtt skemmtilegt dæmi er að finna á vefnum: Focus: Physical Review. Heimildir og frekara lesefni:
- Feynman, R. P., Ljósið. Hjörtur Jónsson íslenskaði. Hið íslenzka bókmenntafélag, Reykjavík (2000).
- Feynman, R. P., og A. R. Hibbs, Quantum Mechanics and Path Integrals. McGraw-Hill, New York (1965).
- Schwinger, J., (ritstj.) Selected Papers on Quantum Electrodynamics. Dover, New York (1958).
- Yourgrau, W., og S. Mandelstam, Variational Principles in Dynamics and Quantum Theory. Dover, New York (1968).
Mynd: Geek Times