Forsetarnir fjórir höfðu hver um sig mikil áhrif á þróun og sögu Bandaríkjanna. George Washington var til dæmis fyrsti forseti Bandaríkjanna og var við völd á árunum 1789-1797. Thomas Jefferson var þriðji forseti Bandaríkjanna og ríkti á árunum 1801-1809. Hann var aðalhöfundur sjálfstæðisyfirlýsingar Bandaríkjanna sem var skrifuð árið 1776. Abraham Lincoln var 16. forseti Bandaríkjanna og var við völd á árunum 1861 til 1865. Hans er sérstaklega minnst fyrir það að hafa verið mótfallinn þrælahaldi og fyrirskipaði að það skyldi afnumið. Þetta olli mikilli óánægju í suðurríkjum Bandaríkjanna og leiddi að lokum til þess að þau sögðu sig úr alríkinu. Theodore Roosevelt varð forseti árið 1901 og sat í embætti til ársins 1909. Hann var 26. forseti Bandaríkjanna. Hann fylgdi heimsvaldastefnu í utanríkismálum og taldi til dæmis að Bandaríkin hefðu rétt til íhlutunar í Suður-Ameríku. Roosevelt hlaut friðarverðlaun Nóbels árið 1906 fyrir að hafa gerst milligöngumaður í friðarsamningum Rússa og Japana. Hafist var handa við að undirbúa verkið árið 1927 undir stjórn myndhöggvarans Gutzon Borglum. Ekki var þó byrjað á því að höggva andlitin í granítsteininn fyrr en árið 1935 og lauk verkinu sex árum síðar. Um tvær milljónir manna heimsækja fjallið á hverju ári. Heimildir
Britannica Online
Íslenska alfræðiorðabókin, Örn og Örlygur, 1990. Myndin er fengin á vefsetri Háskólans í Suður-Dakóta