Tunglið ferðast mjög hratt, en á hverri sekúndu fer það 1,02 km á braut sinni umhverfis jörðina. Til samanburðar má nefna að jörðin ferðast 30 km á sekúndu á braut sinni umhverfis sólina, sem sjálf ferðast 250 km á sekúndu á hringferð sinni umhverfis miðju Vetrarbrautarinnar. Frá jörðu séð virðist tunglið færast í austurátt, í gegnum stjörnumerkin frá einum degi til annars. Dagleg færsla tunglsins í austurátt á himninum er að meðaltali 13,2° og fer það því einn hring um jörðina á 27,3 dögum, miðað við fastastjörnurnar. Á einni klukkustund færist tunglið lítið eitt meira en ½°, sem er aðeins meira en þvermál þess á himninum. Afleiðing þessarar færslu er að tunglris verður að meðaltali 50 mínútum síðar frá degi til dags. Heimild: Freedman, R. A. og Kaufmann, William. Universe. W. H. Freedman and Company, New York, 1998. 5. útgáfa.
Mynd: HB