Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvað ræður augnalit okkar? Hvort eru blá eða brún augu ríkjandi?

Þuríður Þorbjarnardóttir

Hér er einnig svar við spurningunni: Geta foreldrar sem bæði eru brúneygð átt bláeygt barn?

Gen sem við erfum frá foreldrum okkar ráða því hversu mikið litarefni myndast í lithimnu augans og þar með hvaða augnlit við erum með. Meira litarefni þýðir dekkri (brúnni) augu. Gen sem ráða þessu eru líklega mörg og samspil þeirra ræður þá augnlitnum, en til einföldunar er oft sagt að til séu gen fyrir brúnum augum annars vegar og bláum hins vegar.

Gen sem ræður brúnum augum er ríkjandi (dominant) yfir geni sem ræður bláum augum. Það þýðir að þeir sem eru með brún augu hafa annað hvort fengið gen sem ráða brúnum augum frá báðum foreldrum sínum og eru þá arfhreinir (e. homozygotic) með tillitil til brúns augnlitar, eða hafa fengið gen fyrir brúnum augnlit frá öðru foreldir en gen fyrir bláum augum frá hinu og er þá arfblendnir (heterozygotic). Þeir einstaklingar sem eru bláeygðir hafa erft genin fyrir bláum augum frá báðum foreldrum sínum og eru því arfhreinir með tilliti til blás augnlitar.

Vegna þess að gen fyrir blá augu er víkjandi (recessive) getur einstaklingur verið bláeygður þó að báðir foreldrar séu með brún augu. Það er vegna þess að báðir foreldrarnir kunna að vera arfblendnir, það er hafa í sér bæði gen fyrir brún og blá augu, og þá verður helmingur af kynfrumum hvors foreldris með gen fyrir blá augu. Ef svo vill til að kynfrumur sem hafa báðar þetta gen sameinast við frjóvgun verður barnið arfhreint um það og þar með bláeygt. Líkur á að slíkt gerist hjá foreldrum sem báðir eru arfblendnir eru 25%.

Ef báðir foreldrar eru aftur á móti arfhreinir um genið fyrir brún augu eða annað arfhreint og hitt arfblendið eru venjulega engar líkur á bláeygðu barni, þar sem engir möguleikar eru á að barnið erfi gen fyrir blá augu frá báðum foreldrum. Venjulega eru heldur engar líkur á að foreldrar sem báðir eru bláeygðir eigi barn með brún augu þar sem hvorugt þeirra hefur í sér gen sem ræður brúnum augnlit. Erfðafræðin er þó aðeins flóknari en þetta og stökkbreytingar geta ruglar þetta erfðamynstur eins og lesa má í svari Dags Snæs Sævarssonar við spurningunni Er mögulegt fyrir bláeygt par að eignast saman græneygt barn?

Rétt er að taka fram að hér er um einföldun að ræða sem felst meðal annars í því að við tölum hér eins og augun séu annaðhvort "blá" eða "brún", en í raun er augnlitur miklu fjölbreytilegri en svo. Þess vegna koma vafalítið mun fleiri gen við sögu til að ákvarða endanlegan augnlit hvers og eins.

Sjá einnig:

Höfundur

Útgáfudagur

21.5.2002

Spyrjandi

Arnþór Jónsson
Gunnar Friðriksson
Aina Másdóttir

Tilvísun

Þuríður Þorbjarnardóttir. „Hvað ræður augnalit okkar? Hvort eru blá eða brún augu ríkjandi?“ Vísindavefurinn, 21. maí 2002, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=2402.

Þuríður Þorbjarnardóttir. (2002, 21. maí). Hvað ræður augnalit okkar? Hvort eru blá eða brún augu ríkjandi? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=2402

Þuríður Þorbjarnardóttir. „Hvað ræður augnalit okkar? Hvort eru blá eða brún augu ríkjandi?“ Vísindavefurinn. 21. maí. 2002. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=2402>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvað ræður augnalit okkar? Hvort eru blá eða brún augu ríkjandi?
Hér er einnig svar við spurningunni: Geta foreldrar sem bæði eru brúneygð átt bláeygt barn?

Gen sem við erfum frá foreldrum okkar ráða því hversu mikið litarefni myndast í lithimnu augans og þar með hvaða augnlit við erum með. Meira litarefni þýðir dekkri (brúnni) augu. Gen sem ráða þessu eru líklega mörg og samspil þeirra ræður þá augnlitnum, en til einföldunar er oft sagt að til séu gen fyrir brúnum augum annars vegar og bláum hins vegar.

Gen sem ræður brúnum augum er ríkjandi (dominant) yfir geni sem ræður bláum augum. Það þýðir að þeir sem eru með brún augu hafa annað hvort fengið gen sem ráða brúnum augum frá báðum foreldrum sínum og eru þá arfhreinir (e. homozygotic) með tillitil til brúns augnlitar, eða hafa fengið gen fyrir brúnum augnlit frá öðru foreldir en gen fyrir bláum augum frá hinu og er þá arfblendnir (heterozygotic). Þeir einstaklingar sem eru bláeygðir hafa erft genin fyrir bláum augum frá báðum foreldrum sínum og eru því arfhreinir með tilliti til blás augnlitar.

Vegna þess að gen fyrir blá augu er víkjandi (recessive) getur einstaklingur verið bláeygður þó að báðir foreldrar séu með brún augu. Það er vegna þess að báðir foreldrarnir kunna að vera arfblendnir, það er hafa í sér bæði gen fyrir brún og blá augu, og þá verður helmingur af kynfrumum hvors foreldris með gen fyrir blá augu. Ef svo vill til að kynfrumur sem hafa báðar þetta gen sameinast við frjóvgun verður barnið arfhreint um það og þar með bláeygt. Líkur á að slíkt gerist hjá foreldrum sem báðir eru arfblendnir eru 25%.

Ef báðir foreldrar eru aftur á móti arfhreinir um genið fyrir brún augu eða annað arfhreint og hitt arfblendið eru venjulega engar líkur á bláeygðu barni, þar sem engir möguleikar eru á að barnið erfi gen fyrir blá augu frá báðum foreldrum. Venjulega eru heldur engar líkur á að foreldrar sem báðir eru bláeygðir eigi barn með brún augu þar sem hvorugt þeirra hefur í sér gen sem ræður brúnum augnlit. Erfðafræðin er þó aðeins flóknari en þetta og stökkbreytingar geta ruglar þetta erfðamynstur eins og lesa má í svari Dags Snæs Sævarssonar við spurningunni Er mögulegt fyrir bláeygt par að eignast saman græneygt barn?

Rétt er að taka fram að hér er um einföldun að ræða sem felst meðal annars í því að við tölum hér eins og augun séu annaðhvort "blá" eða "brún", en í raun er augnlitur miklu fjölbreytilegri en svo. Þess vegna koma vafalítið mun fleiri gen við sögu til að ákvarða endanlegan augnlit hvers og eins.

Sjá einnig:...