Orðin holarktískt (holarctic), nearktískt (nearctic) og palearktískt (palearctic) eru notuð í líflandafræði og vísa til útbreiðslu lífvera. Viðfangsefni líflandafræðinnar er landfræðileg dreifing dýra og plantna og áhrif umhverfisþátta eins og veðurfars, landfræðilegra aðstæðna, jarðfræði og fleiri þátta á útbreiðslu lífvera. Í líflandafræðinni er jörðinni skipt upp í svæði eftir því hver samsetning tegunda dýra og plantna er. Holarktíska (samnorðurskauts) svæðið nær yfir allt norðurhvel jarðar. Yfirleitt er holarktíska svæðinu skipt upp í tvö svæði, nearktíska (nýnorðurskauts-) og palearktíska (fornnorðurskauts)svæðið. Nearktíska svæðið nær yfir Norður-Ameríku eða „nýja heiminn“ en palaearktíska svæðið vísar til gamla heimsins, það er að segja Evrópu og Asíu. Ísland tilheyrir palearktíska svæðinu í líflandafræði, þar sem flestar plöntur og dýr komu hingað til lands frá því svæði eftir að ísöld lauk. Þetta tengist því að Ísland er talið til Evrópu. Nokkrar tegundir eru þó með austurmörk útbreiðslu sinnar á Íslandi (til dæmis gulstör, straumönd, húsönd og himbrimi) og eru þær þá með nearktíska útbreiðslu. Einstaka tegundir svo sem krækilyng, sum skordýr, (til dæmis randavára) og fuglar (til dæmis hávella) finnast allt í kringum Norðurpólinn. Lesa má um líflandafræði á Britannica Online. Á heimasíðunni Nearctica.com er einnig að finna fróðleik um líflandafræði og sérstaklega um nearktíska svæðið.
Mynd: HB