Það er ekki vitað til þess að pólskipti hafi orðið á sögulegum tíma, og ekki heldur frá lokum ísaldar fyrir um 12 þúsund árum. Það þekktasta af þeim mjög stuttu segulskeiðum sem nú er vitað um, fannst fyrst við mælingar á gosbergi í sunnanverðu Frakklandi 1967. Samkvæmt nýjustu niðurstöðum aldursgreininga stóð það skeið aðeins um eða innan við 2 þúsund ár fyrir um 40 þúsund árum. Óljósari gögn eru til um annað slíkt örstutt skeið fyrir um 32 þúsund árum. Hér á Íslandi hefur ekki mikið verið leitað að gosmyndunum frá þessum tímabilum, en líklegt er þó að nokkur fell á Reykjanesskaganum austan Grindavíkur hafi myndast í öflugri eldgosahrinu á því fyrrnefnda. Í þeim fellum, meðal annars Siglubergshálsi og Skálamælifelli sitt hvoru megin við bæinn Ísólfsskála, hefur fundist með mælingum að það segulskaut sem nú er við norðurheimskautið lá þá 10° sunnan við miðbaug. Mynd:
- Reversals of Earth's Magnetic Field Explained by Small Core Fluctuations, á vefsíðunni Physorg.com. Sótt 10.9.2009.