Severn - reistu mig upp - ég er að dauða kominn - dauðinn verður mér léttur - ekki óttast - vertu duglegur og þakkaðu Guði fyrir að hann sé loksins kominn.Í sjö klukkutíma lá hann í örmum vinar síns og smám saman færðist mikil værð yfir hann. Aðeins einu sinni kom hann upp orði og var það eftir ákaft svitakast en þá sagði hann við vin sinn, málarann Joseph Severn: „Ekki anda á mig - þetta er eins og ís“. Hann kaus sem grafskrift sína orðin: „Hér hvílir sá sem letraði nafn sitt á vatnsflötinn“.

Faðir John Keats var umsjónarmaður hesthúsa og lést þegar Keats var enn á unga aldri. Móðir Keats dó úr berklum nokkrum árum síðar. Keats var um skeið lærlingur hjá lyfsala en ákvað árið 1816 að gerast skáld. Hann fékk óvægna gagnrýni fyrir skáldskap sinn í fyrstu og var ráðlagt að halda rakleiðis aftur inn í apótekið og selja „plástra, pillur og smyrsl“ í stað þess að yrkja. Kveðskapur Keats var sagður siðlaus, ungæðislegur, óheilnæmur og beinlínis viðbjóðslegur. Gagnrýnendur spyrtu Keats saman við svokallaðan Cockney-skóla, en orðið cockney er notað yfir 'lágstéttarensku' í austanverðum Lundúnum. Í eðli sínu var gagnrýni á Cockney-skáldin árásir hástéttarmanna á þá sem þeir töldu vera lágstéttarskáld. Í hausthefti tímaritsins Blackwood Magazine árið 1817 segir um Cockney-skáldin:
Þau eru hin viðurstyggilegasta óværa sem nokkru sinni hefur skriðið um á klæðafaldi hinnar ensku skáldskapargyðju.Aðrir Cockney-höfundar voru Charles Lamb (1775-1834), William Hazlitt (1778-1830) og Leigh Hunt (1784-1859). John Keats er meðal annars þekktur fyrir hugtakið 'neikvæð hæfni' (e. negative capability) sem hann skrifaði um í bréfi árið 1817. Í bréfinu segir hann:
Með neikvæðri hæfni á ég við þegar hægt er að sökkva sér í óvissu, launhelgar og efasemdir, án þess að þurfa að grípa í haldreipi staðreynda og röksemda.Að sögn Keats réð enska skáldið Shakespeare yfir þessum hæfileika. Fræðimenn hafa reynt að útskýra þetta hugtak á þann hátt að það vísi til ópersónulegs skálds andstætt huglægu skáldi sem reynir að koma eigin sjálfi að í skrifum sínum - höfundi sem reynir fyrst og fremst að sannfæra aðra um sínar persónulegu skoðanir.

- Abrams, M. H., A Glossary of Literary Terms (5. útg.), Holt, Rinehart and Winston, Fort Worth, 1985.
- Gittings, Robert, John Keats, Heinemann, London, 1968.
- Helgi Hálfdanarson, Erlend ljóð frá liðnum tímum, Mál og menning, Reykjavík, 1982.
- Holman, C. Hugh og Harmon, William, A Handbook to Literature (5. útg.), Macmillan, New York, 1986.
- Levinson, Marjorie, Keats´s Life of Allegory: The Origins of Style, Basil Blackwell, Oxford, 1988.
Myndir af helgrímu John Keats og teikningu Joseph Severns af Keats á dánarbeði eru fengnar af vefsetrinu English History