Sólin Sólin Rís 09:06 • sest 17:16 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 06:24 • Sest 16:46 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 05:17 • Síðdegis: 17:24 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 11:24 • Síðdegis: 23:36 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 09:06 • sest 17:16 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 06:24 • Sest 16:46 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 05:17 • Síðdegis: 17:24 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 11:24 • Síðdegis: 23:36 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvað er píslarvottur?

Jón Gunnar Þorsteinsson

Íslenska orðið píslarvottur samsvarar gríska orðinu martys eða martyr sem merkti upphaflega vitni eða vottur. Alþjóðaorðið nú á dögum um þetta er martyr. Í kristinni orðræðu er orðið fyrst notað um postulana sem voru vitni að lífi Jesú Krists og kenningu hans. Í fyrsta Pétursbréfi segist Pétur vera „vottur písla Krists“ (1Pt 5.1) og í Postulasögunni segir Jesús:
Þér munuð öðlast kraft, er heilagur andi kemur yfir yður, og þér munuð verða vottar mínir í Jerúsalem og allri Júdeu, í Samaríu og allt til endimarka jarðarinnar. (P 1.8)
Lærisveinar Krists voru þó engin venjuleg vitni líkt og þeir sem gefa vitnisburð fyrir rétti, enda voru þeir í sífelldri hættu vegna trúar sinnar. Fyrsti píslarvotturinn, heilagur Stefán, var grýttur til dauða. Orðið martys hlaut smám saman þá merkingu að píslarvottur væri sá sem þarf að þjást fyrir trú sína. Hugtak sem í fyrstu var notað um þá sem voru beinlínis vitni að lífi Krists, fer þess vegna að merkja alla þá sem, þrátt fyrir að hafa aldrei litið Jesú augum, eru svo sannfærðir um sannleik trúarinnar að þeir vilja frekar láta lífið en afneita honum.

Ekki er fyllilega ljóst hversu margir dóu píslarvættisdauða í árdaga kristninnar, en ofsóknir á hendur kristnum mönnum voru mestar á um 250 ára tímabili, frá því að Neró keisari hóf ofsóknir sínar árið 64 og þangað til Konstantínus mikli kom á varanlegum friði árið 313 og veitti kristnum mönnum trúfrelsi. Rómverski sagnaritarinn Tacitus segir að gríðarlegur fjöldi kristinna manna hafi verið tekinn af lífi á tímum Nerós, en Origenes kirkjufaðir skrifar um árið 249 að þeir sem þá hafi látið lífið fyrir trú sína séu ekki margir. Í einni píslarvottasögu segir að tvisvar hafi 10.000 píslarvottar verið líflátnir á einum og sama deginum. Í Nikódemíu þann 18. mars voru 10.000 manns hálshöggnir og þann 22. júní var sami fjöldi krossfestur á fjallinu Ararat.

Píslarvottasögur er í ströngum skilningi eingöngu að finna í opinberum skjölum af yfirheyrslum yfir píslarvottum. Þess háttar skýrslur eru fáar, Píslarsaga Cyprinanusar, sem var tekinn af lífi árið 258, er dæmi um slíka heimild. Aðrar heimildir geyma þó einnig sögur af píslarvottum, til að mynda af pílagrímsferðum kristinna manna. Dæmi um slíkan texta er saga Nikulásar frá Þverá en þar segir meðal annars af kirkju heilags Marteins þar sem handleggur Marteins biskups var geymdur. Í helgisagnaritum miðalda eru einnig frásagnir af píslavottum. Þekktasta rit þeirrar tegundar er verk erkibiskupsins Jakobs frá Voragine (um 1230 – um 1298) sem hét upphaflega „Legenda Sanctorum“ en varð síðar þekkt sem „Legenda Aurea“ eða Hinar gullnu sagnir, því að ritið þótti þyngdar sinnar virði í gulli. Það var fyrst prentað í Basel árið 1470.

Í íslamstrú er hugtakið shahid skylt kristna hugtakinu píslarvætti. Í svonefndum Hadith-textum, sem eru frásagnir af lífi Múhameðs spámanns og hvernig hann taldi rétt að lifa, er ýtarleg umfjöllun um hugtakið sem merkir bókstaflega 'sá sem vitnar um sannleikann'. Þar segir að píslarvottar fái rakleiðis inngöngu í himnaríki og muni standa næst hásæti Guðs.

Samkvæmt íslam verða allar syndir píslarvotta fyrirgefnar og þeir kvænast 72 meyjum. Sæla píslarvottsins er slík að hann mun þrá að rísa upp aftur til þess eins að láta lífið á ný sem píslarvottur, en þessa einu ósk fær hann ekki uppfyllta. Í íslamstrú verða þeir shahid sem láta lífið í jihad eða deyja óréttlátum dauða. Í jihad ber múslimum að gefa trúleysingjum tækifæri til að taka íslamstrú. Ef það tekst eru forsendur fyrir jihad ekki lengur fyrir hendi og þess vegna ekki hægt að deyja píslarvottadauða.

Heimildir

Á Vísindavefnum er hægt að lesa meira um jihad í grein Magnúsar Þorkels Bernharðssonar Af hverju hata þeir okkur? Jihad í nútímasögu íslam og Mið-Austurlanda.



Mynd: University of North Florida - Saints, Sainthood, and Society

Höfundur

Jón Gunnar Þorsteinsson

bókmenntafræðingur og ritstjóri Vísindavefsins

Útgáfudagur

30.4.2002

Spyrjandi

Harpa Vilbergsdóttir, fædd 1983

Tilvísun

Jón Gunnar Þorsteinsson. „Hvað er píslarvottur?“ Vísindavefurinn, 30. apríl 2002, sótt 30. október 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=2346.

Jón Gunnar Þorsteinsson. (2002, 30. apríl). Hvað er píslarvottur? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=2346

Jón Gunnar Þorsteinsson. „Hvað er píslarvottur?“ Vísindavefurinn. 30. apr. 2002. Vefsíða. 30. okt. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=2346>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvað er píslarvottur?
Íslenska orðið píslarvottur samsvarar gríska orðinu martys eða martyr sem merkti upphaflega vitni eða vottur. Alþjóðaorðið nú á dögum um þetta er martyr. Í kristinni orðræðu er orðið fyrst notað um postulana sem voru vitni að lífi Jesú Krists og kenningu hans. Í fyrsta Pétursbréfi segist Pétur vera „vottur písla Krists“ (1Pt 5.1) og í Postulasögunni segir Jesús:

Þér munuð öðlast kraft, er heilagur andi kemur yfir yður, og þér munuð verða vottar mínir í Jerúsalem og allri Júdeu, í Samaríu og allt til endimarka jarðarinnar. (P 1.8)
Lærisveinar Krists voru þó engin venjuleg vitni líkt og þeir sem gefa vitnisburð fyrir rétti, enda voru þeir í sífelldri hættu vegna trúar sinnar. Fyrsti píslarvotturinn, heilagur Stefán, var grýttur til dauða. Orðið martys hlaut smám saman þá merkingu að píslarvottur væri sá sem þarf að þjást fyrir trú sína. Hugtak sem í fyrstu var notað um þá sem voru beinlínis vitni að lífi Krists, fer þess vegna að merkja alla þá sem, þrátt fyrir að hafa aldrei litið Jesú augum, eru svo sannfærðir um sannleik trúarinnar að þeir vilja frekar láta lífið en afneita honum.

Ekki er fyllilega ljóst hversu margir dóu píslarvættisdauða í árdaga kristninnar, en ofsóknir á hendur kristnum mönnum voru mestar á um 250 ára tímabili, frá því að Neró keisari hóf ofsóknir sínar árið 64 og þangað til Konstantínus mikli kom á varanlegum friði árið 313 og veitti kristnum mönnum trúfrelsi. Rómverski sagnaritarinn Tacitus segir að gríðarlegur fjöldi kristinna manna hafi verið tekinn af lífi á tímum Nerós, en Origenes kirkjufaðir skrifar um árið 249 að þeir sem þá hafi látið lífið fyrir trú sína séu ekki margir. Í einni píslarvottasögu segir að tvisvar hafi 10.000 píslarvottar verið líflátnir á einum og sama deginum. Í Nikódemíu þann 18. mars voru 10.000 manns hálshöggnir og þann 22. júní var sami fjöldi krossfestur á fjallinu Ararat.

Píslarvottasögur er í ströngum skilningi eingöngu að finna í opinberum skjölum af yfirheyrslum yfir píslarvottum. Þess háttar skýrslur eru fáar, Píslarsaga Cyprinanusar, sem var tekinn af lífi árið 258, er dæmi um slíka heimild. Aðrar heimildir geyma þó einnig sögur af píslarvottum, til að mynda af pílagrímsferðum kristinna manna. Dæmi um slíkan texta er saga Nikulásar frá Þverá en þar segir meðal annars af kirkju heilags Marteins þar sem handleggur Marteins biskups var geymdur. Í helgisagnaritum miðalda eru einnig frásagnir af píslavottum. Þekktasta rit þeirrar tegundar er verk erkibiskupsins Jakobs frá Voragine (um 1230 – um 1298) sem hét upphaflega „Legenda Sanctorum“ en varð síðar þekkt sem „Legenda Aurea“ eða Hinar gullnu sagnir, því að ritið þótti þyngdar sinnar virði í gulli. Það var fyrst prentað í Basel árið 1470.

Í íslamstrú er hugtakið shahid skylt kristna hugtakinu píslarvætti. Í svonefndum Hadith-textum, sem eru frásagnir af lífi Múhameðs spámanns og hvernig hann taldi rétt að lifa, er ýtarleg umfjöllun um hugtakið sem merkir bókstaflega 'sá sem vitnar um sannleikann'. Þar segir að píslarvottar fái rakleiðis inngöngu í himnaríki og muni standa næst hásæti Guðs.

Samkvæmt íslam verða allar syndir píslarvotta fyrirgefnar og þeir kvænast 72 meyjum. Sæla píslarvottsins er slík að hann mun þrá að rísa upp aftur til þess eins að láta lífið á ný sem píslarvottur, en þessa einu ósk fær hann ekki uppfyllta. Í íslamstrú verða þeir shahid sem láta lífið í jihad eða deyja óréttlátum dauða. Í jihad ber múslimum að gefa trúleysingjum tækifæri til að taka íslamstrú. Ef það tekst eru forsendur fyrir jihad ekki lengur fyrir hendi og þess vegna ekki hægt að deyja píslarvottadauða.

Heimildir

Á Vísindavefnum er hægt að lesa meira um jihad í grein Magnúsar Þorkels Bernharðssonar Af hverju hata þeir okkur? Jihad í nútímasögu íslam og Mið-Austurlanda.



Mynd: University of North Florida - Saints, Sainthood, and Society...