Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Heyrst hefur af fyrirtækjum sem auglýsa stjörnur himinsins til sölu. Fyrir um 4000 krónur eða svo, stundum meira eða minna, gefst manni kostur á að nefna eina stjörnu eftir sér, ástvini sínum eða einhverjum öðrum. Í kaupbæti er fallegt skírteini með nafninu sem þú valdir, stundum bók eða stjörnukort, einhverjir aðrir pappírar og upplýsingar um stjörnuna sem keypt var. Þetta væri vissulega falleg gjöf handa einhverjum sem maður elskar og gæti jafnvel opnað augu einhvers fyrir fegurð næturhiminsins. En er einhver fótur fyrir þessu?
Í stuttu máli er svarið nei. Þetta er einungis ein af mörgum goðsögnum sem til eru um stjörnurnar og stjarnvísindin. Skírteinið er aðeins til þess að láta kaupin líta vel út og bókin og stjörnukortið til að freista þín. Það er allt eins hægt að fara út á heiðskíru kvöldi, velja sér hvaða stjörnu sem er á himninum og nefna hana eftir hverjum sem er, algjörlega ókeypis. Ef einhver vill endilega fá skírteini í hendurnar, er tiltölulega auðvelt að búa slíkt til með frekar einföldum deilihugbúnaði sem kostar miklu minna en 4000 krónur, eða er ókeypis á veraldarvefnum.
Stjörnurnar sem eru til sölu eru alveg frá þeim björtustu til hinna daufustu í öllum stjörnumerkjum himinsins. En það á enginn stjörnur himinsins rétt eins og það á enginn lóðir á reikistjörnum eða tunglum sólkerfisins. Hvers vegna að kaupa stjörnu sem er svo fjarlæg að ekki er hægt að komast þangað, og svo dauf að hún sést ekki nema með stjörnusjónauka? Það er allt eins hægt að ganga að næsta manni, gefa honum nokkra þúsundkalla í leiðinni, og segjast ætla að ættleiða hval!
Reglurnar eru þær að öll stjarnfræðileg fyrirbæri fá heiti sitt frá Alþjóðasambandi stjarnfræðinga (IAU, International Astronomical Union), hvort sem um er að ræða kennileiti á reikistjörnum og tunglum eða sólstjörnur. Kennileiti á reikistjörnum og tunglum sólkerfisins fá oft heiti sín úr fornri goðafræði og eru stundum nefnd eftir frægum vísindamönnum eða einstaklingum úr sögunni. Til dæmis er gígurinn Tycho á tunglinu kenndur við frægan danskan stjörnufræðing á 16. öld og á Merkúríusi er að finna gíg sem heitir Snorri eftir Snorra Sturlusyni. Sólstjörnurnar eru skráðar í sérstakar stjörnuskrár eftir hnitum á himinhvelfingunni en þær björtustu hafa þó forn nöfn, oft arabísk eins og til dæmis Vega í Hörpumerkinu. Ef maður hins vegar uppgötvar halastjörnu, fær maður að nefna hana eftir sér eða hverjum sem er. Það er líka miklu meiri heiður heldur en að kaupa nafn sitt á einhverja stjörnu á himninum.
Nafngiftir stjarnanna eru því mun flóknari en svo að á himninum séu stjörnurnar Jón, Sandra, Sævar eða Karen. Til þess að fræðast meira um nafngiftir stjarnanna skal bent á svar höfundar við spurningunni: Hver skírði allar stjörnurnar og hvernig fór hann að, því að þær eru svo margar? Á vefsíðu Alþjóðasambands stjarnfræðinga má einnig lesa nánar um þetta efni.
Sævar Helgi Bragason. „Hafa leikmenn fengið að gefa stjörnum og öðrum fyrirbærum í geimnum nöfn?“ Vísindavefurinn, 29. apríl 2002, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=2344.
Sævar Helgi Bragason. (2002, 29. apríl). Hafa leikmenn fengið að gefa stjörnum og öðrum fyrirbærum í geimnum nöfn? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=2344
Sævar Helgi Bragason. „Hafa leikmenn fengið að gefa stjörnum og öðrum fyrirbærum í geimnum nöfn?“ Vísindavefurinn. 29. apr. 2002. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=2344>.