Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Messudagur Lúsíu er 13. desember. Sagt er að Lúsía hafi verið efnuð kristin jómfrú suður á Sikiley um þrjúhundruð árum eftir Krists burð. Af henni eru ýmsar helgisagnir en tvær eru þekktastar. Önnur greinir svo frá að maður nokkur vildi giftast henni til fjár. Hún vildi hins vegar að hann giftist sér af ást og gaf heimanfylgju sína fátæklingum. Það líkaði heitmanni hennar illa og kærði hana fyrir fjársvik. Reynt var að dæma hana í vændishús og til að brennast en hún bjargaðist fyrir kraftaverk. Að lokum tókst að hálshöggva hana. Hin sagan er á þá lund að ungur maður vildi einnig giftast henni til fjár en lét sem það væri vegna fegurðar augna hennar. Hún reif þá úr sér augun og sendi biðlinum þau í skál. Því sést hún oft á helgimyndum með augu sín á diski.
Dýrkun Lúsíu breiddist út um Evrópu en misjafnt var hvaða eiginleikum hennar var hampað á hverjum stað. Á Norðurlöndum varð dýrkun hennar ekki mjög mikil. Þar er ekki vitað um neinar kirkjur helgaðar henni nema tvær á Íslandi, á Melum í Borgarfirði og Reykjadal í Árnessýslu. Ástæðan kann að vera sú að nærtækari dýrlingur, Magnús Orkneyjajarl, fékk úthlutað sama messudegi í norrænum biskupadæmum. Stutt helgisaga Lúsíu er til á íslensku í handriti frá 14. öld.
Heilög Lúsía eftir ítalska málarann Domenico di Pace Beccafumi (1486–1551).
Á 18. öld skýtur Lúsía upp kollinum í vesturhluta Svíþjóðar og þá reyndar í tvenns konar gervi sem bæði tengjast nafni hennar og lengstu nótt ársins, sem vegna langvarandi skekkju í rómverska tímatalinu var öldum saman talin vera 13. desember. Nafn hennar merkir ´ljós´en sjálfur Fjandinn hét líka Lucifer eða ´ljósberi´áður en honum var útskúfað úr himnaríki.
Önnur mynd Lúsíu dregur því dám af hinum ystu myrkrum, hún var eins konar barnafæla eða grýla. Þannig þekktist hún einnig í Noregi undir nafninu ´Lussi‘. Í Ungverjalandi þekktist hún sem vond kerling og hér Luce. Ein sögn hefur gert hana að fyrstu konu Adams sem hefði ekki þolað hana vegna geðvonsku og rekið hana burt. Huldufólk átti að vera börn úr því hjónabandi.
Hin myndin tengist ljósinu sem lengir daginn. Það er ung stúlka með ljósakrónu á höfði sem færir fólki kaffi í rúmið að morgni Lúsíumessu. Í útliti minni hún talsvert á þýska jólaengilinn, en um þetta leyti höfðu þýskir iðnaðarmenn einmitt sest að á þessum slóðum og trúlega flutt þá hugmynd með sér. Aftur á móti færir hún börnum engar jólagjafir, enda kemur hún ekki á sjálfum jólunum eins og sú þýska hefðarfrú sem sumstaðar leysti heilagan Nikulás af hólmi.
Snemma á 19. öld tóku stúdentar í Lundi og Uppsölum að halda Lúsíuhátíð og fólst hún einkum í því að þamba hitaðan drykk sem kallaðist glögg. Orðið er dregið af sænska orðinu glödgad, hitað, og uppistaðan í honum var blanda af heitu koníaki og rauðvíni sem var blandað sykri og ýmislegu kryddi svo sem appelsínuberki, múskathnot, kanelberki og negulnöglum. Með þessum drykk voru borðaðar piparkökur. Þessi siður breiddist brátt út til annarra háskóla. Um miðja öldina flutti Glúntaskáldið Gunnar Wennerberg ítalskt dægurlag norður til Uppsala. Textinn fjallar reyndar um fiskimannaþorp í nánd við Napólí, sem bar nafn hinnar heilögu meyjar, en varð brátt helsti Lúsíusöngur Svía og fékk sænskan texta um aldamótin 1900.
Ung stúlka í gervi Lúsíu færir foreldrum sínum morgunmat í rúmið. Mynd eftir sænska málarann Carl Larsson (1853–1919).
Utan háskálanna byrjuðu vestursænsk átthagafélög að halda Lúsíusamkomur seint á 19. öld. Kringum 1920 vildi sænska bindindishreyfingin, Hjálpræðisherinn og fleiri uppbyggileg samtök reyna að siðbæta hátíðina og Lúsía fór jafnvel að birtast í kirkjum.
Árið 1927 skipulagið dagblað eitt í Stokkhólmi Lúsíuhátíð á götum höfuðborgarinnar. Það var ekki fyrr en eftir það sem fólk um alla Svíþjóð byrjaði að iðka hinn vestursænska sið að einhver stúlka í fjölskyldunni klæddi sig í Lúsíugervi og færði öðrum kökur og drykk í rúmið eldsnemma morguns. Um líkt leyti fór starfsfólk í fyrirtækjum og stofnunum að kæta sig með piparkökum og glögg þennan morgun og gleðin var ekki lengur bundin við heimili og fjölskyldu. Árið 1935 byrjaði sænska útvarpið að hafa Lúsíusönginn sem fastan lið að morgni 13. desember og árið 1960 hafði sænska sjónvarpið sína fyrstu morgunsendingu sama dag.
Á Íslandi var dagur Lúsíu reyndar nefndur í öllum almanökum eftir siðaskipti en engin dæmi finnast um neins konar tilhald fyrr en eftir 1930 þegar íslensk-sænsk vináttufélög og síðar Norræna félagið taka að halda Lúsíuhátíð þar sem hún sjálf kemur fram. Fólk sem menntast hafði í Svíþjóð átti það líka til að kynna þennan sið í skólum eða á öðrum starfsvettvangi.
Sænskir siðir urðu talsvert áberandi á Íslandi á ýmsum sviðum á áttunda og níunda áratug 20. aldar. Meðal annars tóku fyrirtæki og opinberar stofnanir að gera fólki sínu dagamun um þetta leyti. Sjaldnast var þetta þó að morgni 13. desember, heldur í lok vinnu í nánd við daginn, einkum ef helgi var fram undan. Þá voru boðnar piparkökur og glögg sem oft var þó blönduð af lítilli kunnáttu. Þessi tískubóla hélst þó ekki nema nokkur ár og varla nema fólk ætlaði sér að halda gleðskapnum áfram.
Lúsíuhátíðir eru víða haldnar í kirkjum í Svíþjóð.
Fyrsta þekkta dæmi þess að Lúsía birtist á íslensku einkaheimili er úr Breiðholtinu í Reykjavík árið 1974. Fólkið hafði búið nokkur ár í Svíþjóð. Klukkan hálf-níu að morgni 3. desember setti mamman fjögur logandi kerti á höfuð sér og sveipaði hvítu laki um sig og börnin sín tvö. Síðan svifu þau um stigaganginn, hringdu dyrabjöllum á öllum 49 íbúðunum og buðu í piparkökur. Þetta tók hálfan annan tíma, en milli 11 og 12 var íbúð þeirra opin og fullorðna fólkinu í blokkinni boðin glögg.
Næstu ár var tilhaldið endurtekið en þá tóku öll börn í blokkinni á aldrinum tveggja til tíu ára þátt í gamninu. Nú voru telpurnar í skósíðum kjólum með silfursveig um hár og gullband um sig miðja en drengirnir í öfugum hvítum skyrtum af feðrum sínum með háa pappahatta og silfurstjörnu. Og nú var ung stúlka í gervi Lúsíu.
Eftir þrjú ár birtu dagblöðin fregnir af þessu uppátæki og árið 1979 sýndi Sjónvarpið fréttastúf um það. Sama ár fékk Fellaskóli þetta atriði á ´litlu jólin´ hjá sér. Árið eftir fékk presturinn í Fella- og Hólasókn sama atriði á aðventukvöld hjá söfnuðinum og lánaði fermingarkyrtla fyrir athöfnina.
Lúsíuhátíðin í fyrrnefndri blokk mun hafa horfið úr sögunni þegar upphafsmennirnir uxu úr grasi eða fluttust í annað hverfi. Ekki er vitað til að hún hafi breiðst út í aðrar blokkir. Hún er hins vegar enn iðkuð bæði í skólanum og kirkjunni.
Myndir:
Árni Björnsson. „Hver var heilög Lúsía og hvenær var farið að halda Lúsíuhátíð?“ Vísindavefurinn, 12. desember 2014, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=23346.
Árni Björnsson. (2014, 12. desember). Hver var heilög Lúsía og hvenær var farið að halda Lúsíuhátíð? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=23346
Árni Björnsson. „Hver var heilög Lúsía og hvenær var farið að halda Lúsíuhátíð?“ Vísindavefurinn. 12. des. 2014. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=23346>.