Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
ForsíðaÞverfræðilegt efniKynfræðiSýna þeir sem hafa verið misnotaðir kynferðislega í æsku einhver einkenni þess síðar í lífinu, til dæmis í kynlífi?
Rannsóknir á áhrifum kynferðisofbeldis á börn og afleiðingum þess síðar á ævinni, hafa hingað til einkum beinst að stúlkum og konum, sem beittar hafa verið slíku ofbeldi í bernsku. Ástæða þessa er væntanlega sú að stúlkubörn virðast oftar vera fórnarlömb kynferðisofbeldis en drengir. Svarið byggist því á rannsóknum á afleiðingum kynferðisofbeldis á stúlkur og konur.
Kynferðisofbeldi gegn börnum getur tekið á sig margs konar myndir. Það getur falist í káfi og þukli á kynfærum barns, að barnið sé neytt til að horfa á klámfengið efni, teknar séu af því klámfengnar myndir og/eða það sé látið horfa á ofbeldismanninn fróa sér eða að hann noti líkama barnsins þegar hann fróar sér. Samfarir við barn, ýmist í munn, endaþarm eða kynfæri eru einnig algengar. Oftast er ofbeldismaðurinn karl og úr nánasta umhverfi barnsins, einhver sem barnið þekkir og er því nákominn eða skyldur.
Án tillits til hversu lengi kynferðisofbeldið stendur, hve gamlar stúlkur eru þegar það hefst eða hvert form þess er, þá lýsa konur, sem beittar hafa verið slíku ofbeldi í bernsku, tilfinningum sínum þannig að þeim hafi fundist þær vera hjálparvana, valdalausar, hræddar og að þær gætu engum treyst eftir þessa reynslu. Þær lýsa einnig miklum breytingum á sjálfsmynd sinni. Ráðandi tilfinningar eftir kynferðisofbeldi eru sjálfsfyrirlitning, sektarkennd, skömm, sjálfsásökun og að þær séu öðruvísi en aðrir. Afleiðingar kynferðisofbeldis eru alltaf alvarlegar. Það er því huglæg upplifun barna á kynferðisofbeldinu sem ákvarðar skaðsemina, ekki form þess eða aðrir ytri þættir.
Að vera beitt kynferðisofbeldi í bernsku er að jafnaði slíkt áfall að óhjákvæmilegt er að það hafi varanleg og djúpstæð áhrif á líf þeirra sem það reyna. Almennt má segja að líf þolenda kynferðisofbeldis einkennist af stöðugri baráttu og tilraunum til að ráða við og bregðast við eftirköstum ofbeldisins og lifa þau af. Hið ytra er líf þolenda oftast fjarska venjulegt, þær eiga börn, stunda atvinnu, giftast og skilja ef svo ber undir. Það er oftast nær ekkert í ytra lífshlaupi þeirra sem bendir til að þær séu þolendur þessa ofbeldis.
Það er fyrst og fremst innri barátta við afleiðingarnar sem einkenna líf þeirra. Algengasta sjálfsmyndin sem þolendur lýsa, er að þær séu einskis virði, þær dugi ekki til neins og þær treysti engum. Léleg sjálfsmynd, sjálfsfyrirlitning, einsemd, depurð, tilfinningalegur doði, þunglyndi, vonleysi og stundum ótti við að vera að missa vitið eru ríkjandi tilfinningar.
Flestar konur sem eru þolendur kynferðisofbeldis glíma einnig við erfiðleika í kynlífi. Kynlífi síðar á ævinni fylgir oft það sem mætti nefna svipmyndir (e. flash-back). Um er að ræða að snerting, lykt og/eða aðstæður verða til þess að skyndimynd eða myndbrot frá ofbeldinu þrengja sér inn í vitund konunnar, án þess að hún geti haft stjórn á þeim. Skyndimyndirnar og oft óljósar minningar um kynferðisofbeldið og viðbjóðinn sem tengist því verða oft til þess að kynmök verða þolendum erfið og oft næstum óbærileg.
Heimildir
Finkelhor, D. Sourcebook on Child Sexual Abuse, útg. Sage Publications, London, 1986.
Guðrún Jónsdóttir. Surviving Incest: Icelandic and British incest survivors´ experiences og incestuous abuse, útg. Háskólaútgáfan, Háskóli Íslands, 1993.
Guðrún Jónsdóttir. „Sýna þeir sem hafa verið misnotaðir kynferðislega í æsku einhver einkenni þess síðar í lífinu, til dæmis í kynlífi?“ Vísindavefurinn, 17. apríl 2002, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=2310.
Guðrún Jónsdóttir. (2002, 17. apríl). Sýna þeir sem hafa verið misnotaðir kynferðislega í æsku einhver einkenni þess síðar í lífinu, til dæmis í kynlífi? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=2310
Guðrún Jónsdóttir. „Sýna þeir sem hafa verið misnotaðir kynferðislega í æsku einhver einkenni þess síðar í lífinu, til dæmis í kynlífi?“ Vísindavefurinn. 17. apr. 2002. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=2310>.