Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Getið þið sagt mér eitthvað um uppvakninga?

Gunnar Þór Magnússon

Í þjóðtrú ýmissa landa og í kvikmyndum og skáldsögum finnast verur sem við köllum yfirleitt uppvakninga á íslensku. Mörg þessara furðuvera eiga lítið annað sameiginlegt en að erlend heiti þeirra eru þýdd með sama orðinu á íslensku; til dæmis eru norrænu draugarnir sem vinna verk fyrir illa galdramenn ekki sömu fyrirbærin og viljalausu þrælarnir sem finnast á Haítí.

Erfitt væri að gera öllum þessum fyrirbærum skil í einu svari, og hér munum við takmarka okkur að mestu við það sem enska orðið zombie nær yfir, en það eru áðurnefndir þrælar í þjóðtrú Haítí, auk þeirra uppvakninga sem hafa notið vinsælda í kvikmyndum frá síðari hluta 20. aldar.

Uppvakningar í þjóðtrú

Hugmyndin um manneskju sem rís upp frá dauðum hefur verið til næstum jafnlengi og siðmenning manna; í söguljóðinu Gilgamesarkviðu frá tímum Súmera (6000-2000 f.K.) segist gyðjan Ístar ætla að brjóta upp hliðin að ríki hinna dauðu svo þeir geti étið hina lifandi. Þessi lýsing minnir mjög á það sem er talið til uppvakninga í dag, þó hugtakið uppvakningur hafi sennilega ekki verið þekkt meðal Súmera. Hægt er að rekja uppruna orðsins á erlendum tungumálum til Vestur-Indía og Mið-Afríku, en siðmenning reis ekki á þeim slóðum fyrr en eftir tíma Súmera.

Teikning af uppvakningi

Best þekktu dæmin um uppvakninga í þjóðtrú koma sennilega frá vúdútrúnni sem er iðkuð í Karabíska hafinu. Í henni er uppvakningur maður sem er í álögum, hann er algerlega viljalaus og hægt er að nota hann sem þræl. Þessir uppvakningar þurfa ekki að vera látnir, því samkvæmt sögunum má losa uppvakningana undan álögunum og þeir geta þá snúið aftur til venjulegs lífs. Dauðinn kemur þó við sögu í athöfnunum þegar álögin eru lögð á uppvakningana, því þeir sem verða fyrir göldrunum eru annað hvort nýlátnir eða færðir að dauðans dyrum í athöfninni sjálfri.

Rannsóknir Wade Davis

Þessar athafnir eru ennþá iðkaðar að takmörkuðu leyti í löndum eins og Haítí, þó að þær séu ólöglegar þar, og fræðimenn hafa rannsakaðar þær. Viðamestu rannsóknina gerði kanadíski mannfræðingurinn Wade Davis (f. 1953) á árunum 1982 til 1984. Á þessu tímabili fékk Davis að fylgjast með töframönnum á Haítí iðka athafnir sínar, og hann fékk að taka sýni af hinum og þessum efnum sem voru notuð af töframönnunum. Samkvæmt Davis snýst athöfnin um að blekkja fórnarlömbin, sem eru án undantekninga lifandi fyrir athöfnina, þannig að þau og fjölskylda þeirra trúi því að þau hafi risið frá dauðum og séu nú uppvakningar.

Lykilatriðið í þessu ferli fólst í dufti sem var kastað á fórnarlömbin. Í duftinu fann Davis leifar af taugaeitri sem er unnið úr blöðrufiskum, sem eru baneitraðir ef þeir eru ekki meðhöndlaðir rétt, en þykja meðal annars lostæti í Japan. Í nógu litlum skömmtum veldur taugaeitrið þó ekki dauða, heldur bælir niður hjartslátt og öndun og veldur lömun. Þegar það gerist getur einungis vanur læknir séð að fórnarlambið er ekki látið.

Wade Davis.

Davis segir frá því, að í athöfninni kastar töframaður duftinu á fórnarlamb sitt og það fellur í dá. Síðan er fjölskyldu fórnarlambsins sagt frá láti þess og hún kemur því til hinstu hvílu. Seinna grefur töfralæknirinn líkkistu fórnarlambsins upp og þegar það rankar við sér er því sagt að það sé orðið uppvakningur. Í einhverjum tilvikum heppnast blekkingin og þá er hér kominn viljalaus þræll sem gerir allt sem töfralæknirinn biður um.

Niðurstöður Davis hafa verið harðlega gagnrýndar í vísindasamfélaginu. Til dæmis hafa menn átt í erfiðleikum með að finna taugaeitrið sem Davis lýsir í dufti töframanna og ekki hefur tekist að endurtaka tilraunir Davis með taugaeitrið. Einnig hafa menn fundið að siðferði Davis, þar sem hann var meðal annars vitni að því við rannsóknir sínar að grafir voru vanhelgaðar. Að lokum hefur svo verið bent á að stór þáttur í ferlinu er að fórnarlambinu þyki líklegt að það sé uppvakningur þegar það vaknar. Því er ólíklegt að aðferðir töframannanna verki á stöðum þar sem þjóðsagnahefðin fyrir uppvakningum er ekki jafn sterk og á Haítí.

Í dag ríkir ekki almenn sátt um niðurstöður Davis og ekki einu sinni um það hvort uppvakningar eins og hann lýsir séu til eða ekki. Ef uppvakningar eru til, telja sumir að útskýring Davis á uppruna þeirra sé sú eina sem getur staðist. Aðrir gagnrýna aðferðir Davis fyrir að vera óvísindalegar, og telja jafnvel að niðurstöður hans séu falsanir.

Arfleið Georges Romeros

Hægt er að rekja ímynd uppvakninga í dægurmenningu nútímans til kvikmyndarinnar Night of the Living Dead eftir George Romero frá árinu 1968. Þar koma fram þau atriði sem allir nútíma uppvakningar eiga sameiginlegt; fyrst ber að nefna að þeir voru einu sinni manneskjur, í öðru lagi geta þeir smitað annað fólk af ástandi sínu, og í þriðja lagi eru þeir mjög einfaldar verur sem eru nær eingöngu reknar áfram af löngun í mannakjöt.

Þar að auki birtast í Night of the Living Dead mörg af minnum uppvakningamynda svo sem áherslan á bit uppvakninga, því sá sem er bitinn verður sjálfur uppvakningur, að uppvakningar eru fólk sem hefur risið frá dauðum, og að þeir hreyfa sig hægar en venjulegt fólk. Höfundur þessa svars þorir ekki að segja til um hvort þessi atriði birtust í fyrsta skipti á hvíta tjaldinu í mynd Romeros, en hún er óumdeildur guðfaðir allra kvikmynda og skáldsagna um sama efni sem á eftir henni komu.

George Romero.

Frá því að Night of the Living Dead kom út hafa uppvakningar komið fyrir í þó nokkrum skáldverkum, og ýmis smáatriði í háttalagi þeirra hafa breyst á milli mismunandi útfærslna. Til dæmis geta uppvakningar Romeros notað einföld verkfæri, svo sem steina og barefli, og virðast enn búa yfir einhverri vitneskju um fyrra líf sitt, en í öðrum útfærslum hafa þeir oft aðeins greind á við skordýr.

Annað atriði sem er háð útfærslunni hverju sinni er hversu hratt uppvakningar komast yfir; klassíski uppvakningurinn staulast aðeins hægt áfram en í nýrri kvikmyndum, svo sem 28 Days Later, geta þeir oft hlaupið hratt og jafnvel klifrað. Þar er einnig slakað á kröfunni um að uppvakningarnir hafi dáið. Margir hryllingsmyndaaðdáendur mótmæla því að fyrirbærin í 28 Days Later og öðrum myndum af sama tagi séu talin til uppvakninga, því þau brjóta svo mjög í bága við kvikmyndir Romeros. Það ber samt að hafa í huga að hugmyndin um uppvakninga hefur verið í stöðugri þróun frá því að þeir komu fyrst fram í skáldskap og er engin ástæða til að ætla að þeirri þróun sé lokið.

Þriðja einkenni uppvakninga sem er háð duttlungum manna er hvað orsakar tilvist þeirra. Oft er þessi orsök aðeins útskýrð að hluta, og þá óljóst, því áhorfendur eru yfirleitt hræddari við það sem þeir þekkja ekki. Í Night of the Living Dead er aðeins sagt að upprisa hinna látnu sé af völdum geimgeislunar frá reikistjörnunni Venus og allir þeir sem deyja verða að uppvakningum, sama hver dánarorsökin var. Í öðrum kvikmyndum, svo sem í 28 Days Later, er orsök þeirra veirusýking og fólk verður að hafa komist í beina snertingu við uppvakningana til að eiga von á að verða fyrir sömu örlögum.

Uppvakningar og veirusýkingar

Þau fyrirbæri sem við teljum til uppvakninga í kvikmyndum eru hreinn skáldskapur frá upphafi til enda og eiga ekki við nein vísindaleg rök að styðjast. Þannig hafa ekki fundist neinar veirur eða bakteríur sem geta valdið einhverju í líkingu við það sem sjá má í uppvakningamyndum og óhugsandi er að eitthvað geti náð stjórn á líkama fólks eftir andlát þess. Einnig er rétt að hafa í huga að ef uppvakningar af því tagi sem þekkist á Haítí eru til, þá koma veirur eða bakteríur hvergi nálægt uppruna þeirra.

Þátttakendur í uppvakningagöngu í Washington.

Til er einn möguleiki á að verða fyrir uppvakningum sem hefur ekki verið minnst á. Á síðustu árum hafa uppvakningagöngur notið vinsælda í ýmsum borgum heimsins, en slíkar göngur hafa meðal annars verið haldnar í Auckland, Berlín og Toronto. Þessar göngur snúast um að fólk klæðir sig sem uppvakninga og ráfar einhverja ákveðna leið á meðal óbreyttra borgara. Oft er tilgangurinn aðeins að hafa gaman af göngunni en einhverjar þeirra hafa verið haldnar til að hvetja fólk til að gefa blóð eða taka þátt í öðrum góðgerðarmálum. Ef slík ganga verður á vegi lesenda þurfa þeir þó ekki að hafa meiri áhyggjur af veirusmiti en gengur og gerist, því líklegra er að þeir verði fyrir áreiti frá þessum uppvakningum vegna gerviblóðs og notaðra fata.

Tengt efni á Vísindavefnum:

Heimildir:

Myndir:

  • Teikning af uppvakningi á Haítí fengin af Wikimedia Commons, birt undir Freeart 1.3 skírteini.
  • Mynd af Wade Davis fengin á Flickr síðu LollyKnit, birt undir Creative Commons 2.0 by-nc skírteini.
  • Mynd af George Romero fengin af Wikimedia Commons, birt undir Creative Commons 2.0 by-nc-nd skírteini.
  • Mynd af uppvakningagöngu fengin af Flickr síðu James Calder, birt undir Creative Commons 2.0 by-nc skírteini.

Hér er einnig svarað spurningunni:

Er til vírus sem gerir mann að uppvakningi?

Höfundur

Gunnar Þór Magnússon

stærðfræðingur

Útgáfudagur

19.6.2008

Síðast uppfært

15.6.2018

Spyrjandi

Arna Norðdahl
Gunnar Freyr Benediktsson

Tilvísun

Gunnar Þór Magnússon. „Getið þið sagt mér eitthvað um uppvakninga?“ Vísindavefurinn, 19. júní 2008, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=22814.

Gunnar Þór Magnússon. (2008, 19. júní). Getið þið sagt mér eitthvað um uppvakninga? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=22814

Gunnar Þór Magnússon. „Getið þið sagt mér eitthvað um uppvakninga?“ Vísindavefurinn. 19. jún. 2008. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=22814>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Getið þið sagt mér eitthvað um uppvakninga?
Í þjóðtrú ýmissa landa og í kvikmyndum og skáldsögum finnast verur sem við köllum yfirleitt uppvakninga á íslensku. Mörg þessara furðuvera eiga lítið annað sameiginlegt en að erlend heiti þeirra eru þýdd með sama orðinu á íslensku; til dæmis eru norrænu draugarnir sem vinna verk fyrir illa galdramenn ekki sömu fyrirbærin og viljalausu þrælarnir sem finnast á Haítí.

Erfitt væri að gera öllum þessum fyrirbærum skil í einu svari, og hér munum við takmarka okkur að mestu við það sem enska orðið zombie nær yfir, en það eru áðurnefndir þrælar í þjóðtrú Haítí, auk þeirra uppvakninga sem hafa notið vinsælda í kvikmyndum frá síðari hluta 20. aldar.

Uppvakningar í þjóðtrú

Hugmyndin um manneskju sem rís upp frá dauðum hefur verið til næstum jafnlengi og siðmenning manna; í söguljóðinu Gilgamesarkviðu frá tímum Súmera (6000-2000 f.K.) segist gyðjan Ístar ætla að brjóta upp hliðin að ríki hinna dauðu svo þeir geti étið hina lifandi. Þessi lýsing minnir mjög á það sem er talið til uppvakninga í dag, þó hugtakið uppvakningur hafi sennilega ekki verið þekkt meðal Súmera. Hægt er að rekja uppruna orðsins á erlendum tungumálum til Vestur-Indía og Mið-Afríku, en siðmenning reis ekki á þeim slóðum fyrr en eftir tíma Súmera.

Teikning af uppvakningi

Best þekktu dæmin um uppvakninga í þjóðtrú koma sennilega frá vúdútrúnni sem er iðkuð í Karabíska hafinu. Í henni er uppvakningur maður sem er í álögum, hann er algerlega viljalaus og hægt er að nota hann sem þræl. Þessir uppvakningar þurfa ekki að vera látnir, því samkvæmt sögunum má losa uppvakningana undan álögunum og þeir geta þá snúið aftur til venjulegs lífs. Dauðinn kemur þó við sögu í athöfnunum þegar álögin eru lögð á uppvakningana, því þeir sem verða fyrir göldrunum eru annað hvort nýlátnir eða færðir að dauðans dyrum í athöfninni sjálfri.

Rannsóknir Wade Davis

Þessar athafnir eru ennþá iðkaðar að takmörkuðu leyti í löndum eins og Haítí, þó að þær séu ólöglegar þar, og fræðimenn hafa rannsakaðar þær. Viðamestu rannsóknina gerði kanadíski mannfræðingurinn Wade Davis (f. 1953) á árunum 1982 til 1984. Á þessu tímabili fékk Davis að fylgjast með töframönnum á Haítí iðka athafnir sínar, og hann fékk að taka sýni af hinum og þessum efnum sem voru notuð af töframönnunum. Samkvæmt Davis snýst athöfnin um að blekkja fórnarlömbin, sem eru án undantekninga lifandi fyrir athöfnina, þannig að þau og fjölskylda þeirra trúi því að þau hafi risið frá dauðum og séu nú uppvakningar.

Lykilatriðið í þessu ferli fólst í dufti sem var kastað á fórnarlömbin. Í duftinu fann Davis leifar af taugaeitri sem er unnið úr blöðrufiskum, sem eru baneitraðir ef þeir eru ekki meðhöndlaðir rétt, en þykja meðal annars lostæti í Japan. Í nógu litlum skömmtum veldur taugaeitrið þó ekki dauða, heldur bælir niður hjartslátt og öndun og veldur lömun. Þegar það gerist getur einungis vanur læknir séð að fórnarlambið er ekki látið.

Wade Davis.

Davis segir frá því, að í athöfninni kastar töframaður duftinu á fórnarlamb sitt og það fellur í dá. Síðan er fjölskyldu fórnarlambsins sagt frá láti þess og hún kemur því til hinstu hvílu. Seinna grefur töfralæknirinn líkkistu fórnarlambsins upp og þegar það rankar við sér er því sagt að það sé orðið uppvakningur. Í einhverjum tilvikum heppnast blekkingin og þá er hér kominn viljalaus þræll sem gerir allt sem töfralæknirinn biður um.

Niðurstöður Davis hafa verið harðlega gagnrýndar í vísindasamfélaginu. Til dæmis hafa menn átt í erfiðleikum með að finna taugaeitrið sem Davis lýsir í dufti töframanna og ekki hefur tekist að endurtaka tilraunir Davis með taugaeitrið. Einnig hafa menn fundið að siðferði Davis, þar sem hann var meðal annars vitni að því við rannsóknir sínar að grafir voru vanhelgaðar. Að lokum hefur svo verið bent á að stór þáttur í ferlinu er að fórnarlambinu þyki líklegt að það sé uppvakningur þegar það vaknar. Því er ólíklegt að aðferðir töframannanna verki á stöðum þar sem þjóðsagnahefðin fyrir uppvakningum er ekki jafn sterk og á Haítí.

Í dag ríkir ekki almenn sátt um niðurstöður Davis og ekki einu sinni um það hvort uppvakningar eins og hann lýsir séu til eða ekki. Ef uppvakningar eru til, telja sumir að útskýring Davis á uppruna þeirra sé sú eina sem getur staðist. Aðrir gagnrýna aðferðir Davis fyrir að vera óvísindalegar, og telja jafnvel að niðurstöður hans séu falsanir.

Arfleið Georges Romeros

Hægt er að rekja ímynd uppvakninga í dægurmenningu nútímans til kvikmyndarinnar Night of the Living Dead eftir George Romero frá árinu 1968. Þar koma fram þau atriði sem allir nútíma uppvakningar eiga sameiginlegt; fyrst ber að nefna að þeir voru einu sinni manneskjur, í öðru lagi geta þeir smitað annað fólk af ástandi sínu, og í þriðja lagi eru þeir mjög einfaldar verur sem eru nær eingöngu reknar áfram af löngun í mannakjöt.

Þar að auki birtast í Night of the Living Dead mörg af minnum uppvakningamynda svo sem áherslan á bit uppvakninga, því sá sem er bitinn verður sjálfur uppvakningur, að uppvakningar eru fólk sem hefur risið frá dauðum, og að þeir hreyfa sig hægar en venjulegt fólk. Höfundur þessa svars þorir ekki að segja til um hvort þessi atriði birtust í fyrsta skipti á hvíta tjaldinu í mynd Romeros, en hún er óumdeildur guðfaðir allra kvikmynda og skáldsagna um sama efni sem á eftir henni komu.

George Romero.

Frá því að Night of the Living Dead kom út hafa uppvakningar komið fyrir í þó nokkrum skáldverkum, og ýmis smáatriði í háttalagi þeirra hafa breyst á milli mismunandi útfærslna. Til dæmis geta uppvakningar Romeros notað einföld verkfæri, svo sem steina og barefli, og virðast enn búa yfir einhverri vitneskju um fyrra líf sitt, en í öðrum útfærslum hafa þeir oft aðeins greind á við skordýr.

Annað atriði sem er háð útfærslunni hverju sinni er hversu hratt uppvakningar komast yfir; klassíski uppvakningurinn staulast aðeins hægt áfram en í nýrri kvikmyndum, svo sem 28 Days Later, geta þeir oft hlaupið hratt og jafnvel klifrað. Þar er einnig slakað á kröfunni um að uppvakningarnir hafi dáið. Margir hryllingsmyndaaðdáendur mótmæla því að fyrirbærin í 28 Days Later og öðrum myndum af sama tagi séu talin til uppvakninga, því þau brjóta svo mjög í bága við kvikmyndir Romeros. Það ber samt að hafa í huga að hugmyndin um uppvakninga hefur verið í stöðugri þróun frá því að þeir komu fyrst fram í skáldskap og er engin ástæða til að ætla að þeirri þróun sé lokið.

Þriðja einkenni uppvakninga sem er háð duttlungum manna er hvað orsakar tilvist þeirra. Oft er þessi orsök aðeins útskýrð að hluta, og þá óljóst, því áhorfendur eru yfirleitt hræddari við það sem þeir þekkja ekki. Í Night of the Living Dead er aðeins sagt að upprisa hinna látnu sé af völdum geimgeislunar frá reikistjörnunni Venus og allir þeir sem deyja verða að uppvakningum, sama hver dánarorsökin var. Í öðrum kvikmyndum, svo sem í 28 Days Later, er orsök þeirra veirusýking og fólk verður að hafa komist í beina snertingu við uppvakningana til að eiga von á að verða fyrir sömu örlögum.

Uppvakningar og veirusýkingar

Þau fyrirbæri sem við teljum til uppvakninga í kvikmyndum eru hreinn skáldskapur frá upphafi til enda og eiga ekki við nein vísindaleg rök að styðjast. Þannig hafa ekki fundist neinar veirur eða bakteríur sem geta valdið einhverju í líkingu við það sem sjá má í uppvakningamyndum og óhugsandi er að eitthvað geti náð stjórn á líkama fólks eftir andlát þess. Einnig er rétt að hafa í huga að ef uppvakningar af því tagi sem þekkist á Haítí eru til, þá koma veirur eða bakteríur hvergi nálægt uppruna þeirra.

Þátttakendur í uppvakningagöngu í Washington.

Til er einn möguleiki á að verða fyrir uppvakningum sem hefur ekki verið minnst á. Á síðustu árum hafa uppvakningagöngur notið vinsælda í ýmsum borgum heimsins, en slíkar göngur hafa meðal annars verið haldnar í Auckland, Berlín og Toronto. Þessar göngur snúast um að fólk klæðir sig sem uppvakninga og ráfar einhverja ákveðna leið á meðal óbreyttra borgara. Oft er tilgangurinn aðeins að hafa gaman af göngunni en einhverjar þeirra hafa verið haldnar til að hvetja fólk til að gefa blóð eða taka þátt í öðrum góðgerðarmálum. Ef slík ganga verður á vegi lesenda þurfa þeir þó ekki að hafa meiri áhyggjur af veirusmiti en gengur og gerist, því líklegra er að þeir verði fyrir áreiti frá þessum uppvakningum vegna gerviblóðs og notaðra fata.

Tengt efni á Vísindavefnum:

Heimildir:

Myndir:

  • Teikning af uppvakningi á Haítí fengin af Wikimedia Commons, birt undir Freeart 1.3 skírteini.
  • Mynd af Wade Davis fengin á Flickr síðu LollyKnit, birt undir Creative Commons 2.0 by-nc skírteini.
  • Mynd af George Romero fengin af Wikimedia Commons, birt undir Creative Commons 2.0 by-nc-nd skírteini.
  • Mynd af uppvakningagöngu fengin af Flickr síðu James Calder, birt undir Creative Commons 2.0 by-nc skírteini.

Hér er einnig svarað spurningunni:

Er til vírus sem gerir mann að uppvakningi?
...