Upphaf 19. ættarveldisins
Áður en Ramses II. tók við völdum var hann um nokkurra ára skeið meðstjórnandi ásamt föður sínum. Snemma á valdatíð sinni lét hann reisa nýja borg sem bar nafnið Per-Ramses. Hún varð miðpunktur hervaldis Egypta til forna og gegndi lykilhlutverki í bardögum Ramsesar II. gegn Líbíumönnum og Hittítum, en höfuðvígi þeirra var í Anatólíu, þar sem Tyrkland er nú. Borgin er sögð hafa verið gríðarlega falleg og í henni voru fjölmargir garðar og vötn. Fyrstu fjögur ár Ramsesar II. við völd voru nýtt til að styrkja innviði Egyptalands, grafa brunn fyrir gullnámuna í Núbíu, sigra Sherden-sjóræningjana, bæla niður uppreisnir og ólæti á yfirráðasvæði Egypta í Palestínu og svæðinu þar um kring.Bardaginn við Kadesh
Á fjórða ári valdaskeiðs sína hóf Ramses II. innrás í veldi Hittíta, með það að markmiði að sigra virkisborgina Kadesh, sem var við landamæri þessara tveggja velda. Engum hafði tekist að halda völdum í Kadesh lengi og borgin hafði til skiptis verið undir yfirráðum Egypta og Hittíta. Mikilvægi hennar var fyrst og fremst táknrænt.
Á fjórða ári sínu við völd var Ramses II. reiðubúinn að ráðast gegn Hittítum. Markmið hans var í fyrstu að sigra virkisborgin Kadesh sem var við landamæri þessara tveggja velda.
Fyrsti varðveitti friðarsáttmálinn
Eftir 16 ára róstursama tíð skrifuðu bæði veldin undir fyrsta friðarsáttmálann í heiminum, líklega vegna þess að fylkingarnar tvær sáu að hvorug gat sigrað hina algjörlega. Friðarsáttmálinn innihélt loforð um að hvorug þjóð myndi ráðast á hina, að mikilvægir flóttamenn myndu vera framseldir og að báðar þjóðir myndu verja hvor aðra gegn uppreisnum eða utanaðkomandi árásum. Þetta var mjög mikilvægt þar sem það opnaði fyrir ábatasöm viðskipti á milli þjóðanna tveggja. Eitt eintak af friðarsáttmálanum er á egypskri myndletri, hoggið í stein í hofinu í Karnak. Annað eintak er skrifað á akkadísku á leirtöflu, það fannst í Tyrklandi árið 1906. Í dag er hægt að sjá eftirmynd af töflunni í höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna í New York. Það sýnir vel mikilvægi þessa sáttmála enda er þetta fyrsti friðarsáttmálinn þar sem upprunalegi textinn hefur varðveist. Árin eftir friðarsáttmálann einbeitti Ramses II. sér að byggingaframkvæmdum, að tryggja öryggi við landamærin, halda friði og styrkja egypska menningu.Byggingarlist
Í valdatíð Ramsesar II. komst mikill þróttur í byggingarlist og enginn faraó hafði áður látið reisa jafnmikið af byggingum, borgum, hofum, minnismerkjum og súlum. Hann endurbyggði líka gamlar og illa farnar byggingar, súlum var bætt við hofið í Karnak og einnig í Amenhotep III.-hofinu í Luxor. Ramses II. byggði annað hof í Abydos, sem var minna en það sem faðir hans lét reisa, en hofið var skreytt að utan með atburðum úr bardaganum í Kadesh. Á valdatíð Ramsear II. var höfuðborgin í Egyptalandi færð frá Þebu til Pi-Ramses. Ramses II. byggði sex hof í Núbíu og af þeim eru hofin tvö í Abu Simbel þau frægustu. Minna hofið er tileinkað fyrstu eiginkonu hans Nefertari og var þetta í fyrsta skipti í sögu Forn-Egyptalands sem hof var byggt til þess að heiðra drottningu. Hið stærra lét hann byggja til minningar um sjálfan sig og var það skreytt myndum af afrekum hans. Einnig er talið að Ramses II. hafi byggt bókasafn í Þebu þar sem geymd voru rúmlega 20.000 fornrit. Stærsta hofið sem hann byggði var Ramesseum en það er minnisvarði og sýnir herferðir og sigra hans í Núbíu. Nánast enginn staður tengdur Forn-Egyptalandi ber ekki einhverjar minjar sem tengjast nafni Ramsesar II. Dánarorsök Ramses II. er óljós en hann þjáðist af liðagigt, æðakölkun og tannpínu. Talið er að hann hafi dáið úr elli eða hjartaáfalli. Meðalaldur á þeim tíma sem Ramses II. var uppi var ekki hár og því er ekki skrýtið að konungur sem náði 96 ára aldri hafi verið talinn eilífur. Líkami hans var smurður og upprunalega grafinn í Konungadalnum. Árið 1881 fannst múmía hans nálægt Luxor og er nú til sýnis í Egypska safninu í Kaíró. Ramses II. á skilið titilinn mikli og var hann mikils metinn af arftökum sínum. Margir faraóar sem komu í kjölfar hans tóku upp nafnið Ramses til þess að heiðra hann. Heimildir:- Langdon, S. &. (1920). The Treaty of Alliance between Hattušili, King of the Hittites, and the Pharaoh Ramesses II of Egypt. The Journal of Egyptian Archaeology, 179-205. doi:doi:10.2307/3853914
- Mark, J. J. (2. september 2009). Ramesses II. Sótt frá Ancient History Encyclopedia: httpshttps://www.ancient.eu/Ramesses_II/
- Raymond Oliver Faulkner, P. F. (2019). Ramses II. Sótt frá Encyclopædia Britannica: https://academic.eb.com/levels/collegiate/article/Ramses-II/62620
- Gerván, H. H. (2016). Entre la historia y el mito: La figura de ramsés II ante los enemigos en relieves y textos de la batalla de kadesh. Sociedades Precapitalistas, 5 (2) Sótt af https://search.proquest.com/docview/1943997845?accountid=28822
- Faulkner, R. (1975). Egypt: From the Inception of the Nineteenth Dynasty to the Death of Ramesses III. Í I. Edwards, C. Gadd, N. Hammond, & E. Sollberger (Eds.), The Cambridge Ancient History (The Cambridge Ancient History, 217-251). Cambridge: Cambridge University Press. doi:10.1017/CHOL9780521086912.011
- Hutchinson's Story of the Nations. The Battle of Kadesh. 278 - Archive.org. (Sótt 02.01.2020).
- Ramesses II Colossus - Wikimedia Commons. (Sótt 20.12. 2019).
- Yasin Turkoglu. Treaty of Kadesh - Flickr. (Sótt 20.12.2019).
Þetta svar var unnið í námskeiðinu MAF101G Saga Miðausturlanda I haustið 2019. Kolbrún Lilja Kolbeinsdóttur hafði umsjón með námskeiðinu.