Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Ekki er hægt að svara þessari spurningu með einföldum hætti. E-efni eða aukaefni eru notuð í matvælaiðnaði til að hafa áhrif á geymsluþol, lit, lykt, bragð eða aðra eiginleika matvæla. Þau eru því mjög ólík innbyrðis og áhrif þeirra á líkamann mjög mismunandi. Sem dæmi má nefna að askorbínsýra, öðru nafni C-vítamín, er stundum notuð sem þráavarnarefni og hefur þar af leiðandi sitt E-númer. Ekki er hún skaðleg líkamanum nema síður sé.
Öll E-efni eiga það sameiginlegt, hvort sem þau eru notuð sem rotvarnarefni, kekkjarar, bindiefni, litarefni eða bragðefni, að vera undir eftirliti og strangar reglur gilda um notkun þeirra. Almennt má því gera ráð fyrir að skaðsemi þeirra fyrir líkamann sé ekki mikil séu þau notuð í hófi og reglum fylgt. Sumir einstaklingar eru þó með óþol fyrir ákveðnum E-efnum og verða að varast þau.
Mest er af E-efnum í unnum matvælum og vilji fólk forðast þau er best að neyta fersks matar sem matreiddur er og geymdur við góð, heilnæm skilyrði.
Lesa má meira um E-efni á Vísindavefnum í svari Ingu Þórsdóttur og Björns S. Gunnarssonar við spurningunni Hvað eru E-efni sem notuð eru í matvæli og hvers vegna heita þau þessu nafni? og í svari Björns S. Gunnarssonar við spurningunni Hvar getur maður fundið nánari skilgreiningu á E-efnum?