Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Ofurraunveruleiki eða ofurveruleiki er þýðing á hugtakinu hyperreality, en það er eitt af meginhugtökum franska menningarfræðingsins Jean Baudrillards. Samkvæmt kenningum Baudrillards einkennist nútíminn af ógreinilegum mörkum milli raunveruleika og blekkingar. Eftirmyndir raunveruleikans, svo sem í fjölmiðlum, beinum útsendingum og auglýsingum, verða raunverulegri en veruleikinn sjálfur. Þetta ástand nefnir hann ofurveruleika.
Í fræðum Baudrillards er Disneyland í Bandaríkjunum dæmi um heim ofurveruleikans. Það sem á að laða fólk að Disneylandi er blekkingarheimur skemmtigarðsins; þar ganga menn úr hinum raunverulega heimi inn í ímyndaða veröld. En Baudrillard heldur því fram að þetta sé ekki raunin. Hann fullyrðir að í Disneylandi sækist þorri fólks eftir því að halda inn í smækkaðan heim af hinni raunverulegu veröld. Í heimi Disneylands sækjast menn eftir raunveruleikanum en ekki blekkingunni.
Baudrillard telur að ímynduð veröld eins og Disneyland gegni fyrst og fremst því hlutverki að villa okkur sýn á hinn ytri heim. Hlutverk blekkingarheimsins er að telja okkur trú um að veröldin sem við lifum og hrærumst í dags daglega, sé raunveruleg í sjálfu sér, en ekki ímynduð.
Disneyland er því hvorki sönn né fölsk veröld. Skemmtigarðurinn viðheldur þeirri blekkingu að til sé raunveruleg veröld. Áhersla skemmtigarðsins á hið barnslega kjarnar þessa staðreynd fyrir Baudrillard. Í Disneylandi ríkir veröld bernskunnar. Það færir okkur heim sanninn um að heimur hinna fullorðnu sé annars staðar, eða í hinum raunverulega heimi. Hinir fullorðnu sem flykkjast í Disneyland til að leika börn, eru fyrst og fremst að viðhalda þeirri blekkingu að í hinum "raunverulega heimi" fyrir utan ríki alvara hinna fullorðnu.
Á sama hátt og Baudrillard greinir Disneyland túlkar hann athæfið að blekkja. Á tímum ofurveruleikans, þar sem raunveruleikinn er ekki til, er blekking ekki möguleg. Þessi andstæðu hugtök þrífast hvort á öðru, annað er óhugsandi án hins. Baudrillard heldur því fram að viðbrögð lögreglu og dómstóla við eftirlíkingu á vopnuðu ráni yrðu líklega öfgakenndari en ef um raunverulegt rán væri að ræða. Ástæðan fyrir þessu er sú að sviðsett rán kæmi í uppnám veruleikalögmálinu sjálfu en ekki þeim sem lentu í því, því athæfið væri jú bara blekking. Eftirlíking af vopnuðu ráni yrði miklu áhrifameiri en raunverulegt rán. Hið sviðsetta rán sem dregur veruleikalögmálið í efa, efast nefnilega einnig um að lög og reglur tilheyri raunveruleikanum.
Baudrillard fullyrðir að ekki sé hægt að líkja eftir ráni og komast upp með það án nokkurra eftirmála. Þrátt fyrir að ránið væri tilbúningur einn, yrðu viðbrögðin við því líkt og um "raunverulegan atburð" væri að ræða. Ef hið falska rán væri vel sviðsett mundi það óhjákvæmilega kalla á raunveruleg viðbrögð. Lögreglumaður myndi skjóta raunverlegum skotum, einn af gíslunum fengi raunverulegt hjartaslag, og vafalaust væri komið í raun og veru með falskt lausnargjald. Tilbúið rán myndi þannig flækjast í neti raunveruleikans sem fyrst og fremst miðar að því að hafna því að eftirlíking sé í raun og veru möguleg. Raunveruleikinn reynir þannig að gleypa í sig og útiloka allar tilraunir til eftirlíkinga. Hann reynir að fella allt undir lögmál raunveruleikans, ekki síst þau athæfi sem draga í efa lögmáls hans.
Hugmyndir Baudrillards um ofurveruleika ganga út á að benda á flókin tengsl raunveruleika og eftirlíkingar og einnig á firringu og fáránleika þessarar eftirlíkingaráráttu. Í einu rita Baudrillard segir hann um endurgerð draumaverksmiðjunnar Hollywood í Disneyworld:
Í Disneyworld í Flórída er verið að reisa gríðarstórt líkan af Hollywood með breiðgötunum, kvikmyndaverunum o.s.frv. Enn ein hringavitleysan í heimi líkneskisins. Einn daginn munu þeir endurreisa Disneyland í Disneyworld. (þýð. Þröstur Helgason)
Hugmyndafræðilega séð er kenning Baudrillard um ofurveruleika hluti af póstmódernískri veruleikasýn. Um póstmódernisma má nánar lesa um á Vísindavefnum í svari Birnu Bjarnadóttur við spurningunni Hvað er póstmódernismi?Heimildir
Jean Baudrillard, Frá eftirlíkingu til eyðimerkur (ritstj. Geir Svansson), Bjartur, Reykjavík, 2000.
Jean Baudrillard, Selected Writings (ritstj. Mark Poster), Polity Press, Cambridge, 1989.
Jón Gunnar Þorsteinsson. „Hvað er ofurraunveruleiki?“ Vísindavefurinn, 27. mars 2002, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=2241.
Jón Gunnar Þorsteinsson. (2002, 27. mars). Hvað er ofurraunveruleiki? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=2241
Jón Gunnar Þorsteinsson. „Hvað er ofurraunveruleiki?“ Vísindavefurinn. 27. mar. 2002. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=2241>.