Fjármálaumhverfið á Íslandi hefur breyst á síðustu áratugum og um leið hafa skapast störf fyrir stærðfræðinga í fjármálafyrirtækjum, og það er til sérstök fjármálastærðfræði fyrir þá sem hafa áhuga á þeim geira. Stærðfræðingar vinna hjá flestum bönkunum, þar sinna þeir meðal annars störfum í eigna- og áhættustýringardeildunum. Tryggingarfyrirtæki hafa líka ráðið stærðfræðinga til sín, og það er hægt að sérhæfa sig í tryggingastærðfræði sem býr fólk undir að vinna í slíku umhverfi. Stærðfræðingar hafa einnig unnið hjá ýmsum fyrirtækjum í tæknigeiranum. Til dæmis hefur leikjafyrirtækið CCP verið með stærðfræðinga á sínum snærum og sömuleiðis hugbúnaðarfyrirtækið Friðrik Skúlason. Þar að auki hefur Íslensk erfðagreining ráðið til sín stærðfræðinga og íslenskur stærðfræðingur vann hjá kvikmyndafyrirtækinu Pixar um nokkurn tíma. Stærðfræðingar hafa líka látið að sér kveða á sviðum sem liggja ekki jafn beint við menntun þeirra; fyrrverandi orkumálastjóri er stærðfræðingur að mennt, og þegar þetta er skrifað sitja tveir stærðfræðingar á Alþingi. Þessi dæmi taka aðeins til þeirra starfa sem stærðfræðingar hafa gegnt á Íslandi, en stærðfræðin er í eðli sínu mjög alþjóðlegt fag. Henni er beitt um allan heim, og vegna þess að hún er nokkuð óháð tungumálum eiga stærðfræðingar frá mismunandi löndum auðvelt með samskipti sín á milli. Því takmarkar nám í stærðfræði alls ekki valkosti þess sem leggur hana fyrir sig, heldur opnar frekar hún leið að áhugaverðum störfum út um allan heim. Svör á Vísindavefnum um aðrar starfsstéttir:
- Við hvað geta heimspekingar unnið annað en heimspekikennslu? eftir Heiðu Maríu Sigurðardóttur.
- Í hverju felst starf tölvunarfræðinga? Hver er munurinn á því og starfi kerfisfræðinga? eftir Snorra Agnarsson.
- Vinna sálfræðingar eingöngu við meðferð? eftir Heiðu Maríu Sigurðardóttur, Andra Fannar Guðmundsson og Kjartan Smára Höskuldsson.
- Hvað gerir félagsmálafræðingur? eftir Sigrúnu Júlíusdóttur.