Nú tapast tugir tonna af blýsökkum af handfærabátum í hafið á hverju ári. Er í þessu einhver efnafræðileg mengun? Spyrjandi bætir við að hann sé smábátasjómaður.Frumefnið blý (Pb) er náttúrlegt efni sem er í örlitlu magni í flestum bergtegundum, jarðvegi og í seti hafsins. Í sjó er blý einnig snefilefni, sem þýðir að styrkur þess í upplausn er sáralítill. Blý er einkum unnið úr steindinni galena sem er blýsúlfíð (PbS). Sumir snefilmálmar gegna ákveðnu hlutverki og eru nauðsynlegir í lágum styrk í lífefnafræðilegum ferlum; þeir eru til dæmis í ensímum. Blý hefur hins vegar ekki þekkt hlutverk af því tagi. Það hefur hins vegar eituráhrif sem fara vaxandi með auknum styrk og því getur blý verið skaðlegt lífríki, jafnvel við lágan styrk í umhverfinu. Líkt háttar til um kvikasilfur en það hefur þó enn meiri eiturvirkni en blý. Athafnir manna leiddu til útbreiddrar blýmengunar á síðustu öld. Helsta ástæða þess var notkun lífrænna blýsambanda í bensín sem varð til þess að mikið af blýi barst út í andrúmsloftið frá bílum. Blý sem berst út í andrúmsloftið hafði áður farið vaxandi vegna málmbræðslu og kolabrennslu. Um 1975 þegar notkun blýbætts bensíns var mest nálgaðist losun á blýi út í andrúmsloftið 400 þúsund tonn árlega sem er um 20 sinnum meira en náttúruleg ferli afkasta. Um það leyti, áður en notkun hófst á blýlausu bensíni hér á landi, má áætla að um 20 tonn af blýi hafi verið í bensíni sem notað var á hverju ári á höfuðborgarsvæðinu.
Vegna athafna manna hefur blý dreifst með loftstraumum og úrkomu um alla jörð og það hefur komið fram í auknum styrk í fönnum heimskautajökla, yfirborðslögum heimshafanna og í seti djúpt í Atlantshafi. Samt er styrkurinn í heimshöfunum ekki talinn nálægt því að valda skaðlegum áhrifum. Öðru máli kann að gegna um einstök strandsvæði nálægt þéttbyggðum iðnaðarsvæðum. Nú á tímum er blýbensín miklu minna notað en fyrr og styrkur blýs í umhverfinu fer víða lækkandi. Það eru því þær athafnir mannsins að binda málminn blý í reikul efnasambönd sem hafa valdið útbreiddri aukningu á styrk blýs. Það fer áreiðanlega mikið af blýi í sjó með glötuðum veiðarfærum eins og spyrjandi gerir ráð fyrir. Ekki er mér kunnugt um neina úttekt á því magni en líklega eru það fáir fremur en margir tugir tonna og breytilegt eftir miðum hvað mikið glatast. Blýið í sökkum sem tapast við handfæraveiðar getur sokkið niður á harðan botn og legið þar sveipað straumi ellegar fallið á set, sokkið í það og einangrast frá sjónum. Málmurinn blý þolir vel snertingu við sjó, hann tærist lítt eða leysist upp í sjó. Litlar líkur eru á að umtalsvert magn af blýi losni og dreifist frá sökkunni í setinu og það sem kann að losna frá sökkunni sem féll á harðan botn gerir það á löngum tíma. Vandinn er þá að meta hvort það magn skipti einhverju máli í samanburði við náttúrleg ferli sem flytja blý til sjávar og um hafið með straumum. Gera má ráð fyrir því að í sjónum hér við land sé styrkur blýs í upplausn um 40 ng/l (40 ng = 0,000.000.040 g). Ef við áætlum hvað mikið af blýi berst með straumum um íslenska landgrunnið árlega og berum það saman við það magn af blýi sem kann að leysast upp frá glötuðum veiðarfærum, þá bendir niðurstaðan til þess að mjög lítil mengun muni stafa frá glötuðum veiðarfærum. Þessi nálgun að svari er þó ekki sérlega vönduð því til dæmis er mest af blýinu sem fyrir er í sjónum, 40 ng/l, afleiðing hnattrænnar blýmengunar. Þá má líta á hvað komið hafi fram í rannsóknum á blýi í hafinu við landið og í sjávarfangi og hvort þar séu vísbendingar um mengun. Mælingar á styrk blýs í sjó og umhverfi eru mjög vandasamar en þó hefur safnast í sarpinn nokkuð af áreiðanlegum gögnum. Í fíngerðu nútíma seti utan hafna hefur blýstyrkur mælst að meðaltali um 10 mg/kg (0.010 g/kg) en í nokkrum tilfellum í meira en tvöfalt hærri styrk. Dýpra í setinu, þar sem ætla má að setið hafi myndast fyrir iðnvæðingu, er blýstyrkurinn talsvert lægri eða 2-5 mg/kg. Kræklingur er mikið notaður í rannsóknum á mengandi efnum á strandsvæðum því hann er harðger og í hann safnast efni, til dæmis blý, og því meira eftir því sem meira er af þeim í sjónum. Í rannsókn á kræklingi við Suðvesturland sem fram fór 1978 kom fram blýmengun allvíða á þéttbýlissvæðinu við innanverðan Faxaflóa og var hún tengd notkun blýbensíns og blýs í skipamálningu. Þó var styrkurinn talsvert lægri en viðmiðunarmörk. Í reglugerðum um matvæli, þar sem fjallað er um sjávarfang, eru mörk á blýstyrk sett 0,2-1,0 mg/kg, breytileg eftir afurðum og hæst liggja mörkin fyrir skelfisk. Rannsóknir hin síðari ár á kræklingi við Reykjavík sýna lægri blýstyrk, mun minni mengun, en þó hærri styrk en í kræklingi utan þéttbýlissvæðisins. Þar er styrkurinn langt undir reglugerðarmörkum og lægri en gerist víða við strendur meginlands Evrópu og Norður-Ameríku. Mælingar á blýi í sjávarfangi eru gerðar á Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins og styrkurinn í ýmsu sjávarfangi hefur mælst mjög lágur, mun lægri en er í fiski úr Norðursjó. Í sumum tegundum, til dæmis ýsu og rækju, hefur reynst illgerlegt að mæla blýstyrk, jafnvel með mjög næmum aðferðum, vegna þess hve lítill hann er. Það eru engin dæmi um að blý í sjávarafurðum okkar sé nálægt þeim mörkum sem sett eru fyrir matvæli. Stutt svar er því, að engar vísbendingar eru um að blý frá veiðarfærum valdi mengun á Íslandsmiðum. Aukning á blýi í umhverfinu hefur komið fram og er það annarsvegar vegna hnattrænnar blýmengunar og hins vegar vegna blýs sem berst til hafs frá þéttbýlissvæðinu við Faxaflóa. Blý í sjávarafurðum okkar er með því lægsta sem þekkist.
Mynd: HB