Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Bandaríski sundmaðurinn Michael Phelps er sá sem hefur oftast allra staðið á verðlaunapalli á Ólympíuleikum, alls 28 sinnum. Hann keppti í fyrsta skipti á leikunum í Sidney árið 2000, þá aðeins 15 ára gamall. Hann komst í úrslit í 200 m flugsundi en hafnaði í fimmta sæti.
Michael Phelps er sigursælasti íþróttamaður allra tíma á Ólympíuleikum með alls 28 verðlaun, þar af 23 gull.
Fyrstu Ólympíuverðlaun sín vann Phelps á leikunum í Aþenu 2004 þar sem hann nældi sér í sex gullverðlaun og tvenn bronsverðlaun. Fjórum árum seinna stakk hann sér til sunds í Peking og að leikunum loknum hafði hann bætt átta Ólympíugullum við verðlaunasafn sitt. Á leikunum í London árið 2012 synti Phelps svo til sigurs í fjórum greinum og lenti tvisvar sinnum í öðru sæti. Þetta áttu að vera hans síðustu Ólympíuleikar. Tveimur árum seinna skipti hann um skoðun og sú ákvörðun skilaði honum fimm gullverðlaunum og einum silfurverðlaunum á leikunum í Ríó 2016. Í heild hefur hann unnið til 23 gullverðlauna, þriggja silfurverðlauna og tveggja bronsverðlauna. Það er afar ólíklegt að þetta met verði slegið fljótlega því enginn þeirra íþróttamanna sem eru að keppa nú um stundir komast nálægt Phelps í fjölda verðlauna.
Fimleikadrottingin Larissa Latynina frá Sovétríkjunum hefur unnið næst flest verðlaun á Ólympíuleikum, en hún komst samtals átján sinnum á verðlaunapall á þrennum leikum. Á leikunum í Melbourne í Ástralíu árið 1956 fékk hún fern gullverðlaun, ein silfurverðlaun og ein bronsverðlaun. Fjórum árum síðar tók hún þátt í leikunum í Róm þar sem hún vann þrenn gullverðlaun, tvenn silfurverðlaun og ein bronsverðlaun. Síðustu Ólympíuleikar hennar voru í Tókýó árið 1964 þar sem hún varð í fyrsta sæti í tveimur greinum, í öðru sæti í tveimur greinum og í þriðja sæti í tveimur. Alls fékk hún því á ferli sínum níu ólympíugull, fimm silfur og fjögur brons.
Larissa Latynina stóð 18 sinnum á verðlaunapalli á Ólympíuleikum.
Í þriðja sæti yfir þá sem hafa fengið flest verðlaun á Ólympíuleikum er sovéski fimleikamaðurinn Nikolai Andrianov (1952 –2011), en hann var fimmtán sinnum á verðlaunapalli. Hann fékk sjö sinnum gullverðlaun (ein í München 1972, fern í Montreal 1976 og tvenn í Moskvu 1980), fimm silfurverðlaun (ein í München og tvenn bæði í Montreal og Moskvu) og þrenn bronsverðlaun (ein á hverjum þessara leika).
Eins og fram kemur hér að ofan hefur Phelps unnið 23 gullverðlaun, fleiri en nokkur annar. Þar á eftir koma Latynina og þrír aðrir með níu gull. Fyrstan má þar nefna Paavo Nurmi (1897 – 1973), frjálsíþróttamann frá Finnlandi, sem keppti á leikunum 1920 í Antwerpen, 1924 í París og 1928 í Amsterdam. Hann fékk alls tólf verðlaun fyrir hlaup, níu gull og þrenn silfurverðlaun.
Í öðru lagi er það Mark Spitz, sundkappi frá Bandaríkjunum sem keppti á leikunum 1968 í Mexíkó og 1972 í München. Hann vann alls til ellefu Ólympíuverðlauna, níu þeirra voru gull, ein silfur og ein brons.
Í þriðja lagi er það bandaríski frjálsíþróttamaðurinn Carl Lewis, sem tók þátt í leikunum 1984 í Los Angeles, 1988 í Seúl, 1992 í Barcelona og 1996 í Atlanta. Á þessum fernum leikum komst hann tíu sinnum á verðlaunapall, í níu skipti hampaði hann gullverðlaunum og einu sinni lenti hann í öðru sæti.
Í þessu svari er aðeins verið að horfa til sumarólympíuleika en ef vetrarólympíuleikar eru teknir með þá er norska gönguskíðakonan Marit Bjørgen í þriðja sæti. Hún vann alls til 15 Ólympíuverðlauna á ferli sínum eins og Nikolai Andrianov en á fleiri gull en hann.
Heimildir og myndir:
Þetta svar er að hluta eftir nemanda í Háskóla unga fólksins, röð námskeiða á vegum Háskóla Íslands fyrir 12-16 ára ungmenni í júnímánuði 2007 og að hluta eftir starfsmann Vísindavefsins. Svarið var uppfært árið 2016.
Anna Karen Skúladóttir og Emilía Dagný Sveinbjörnsdóttir. „Hver hefur unnið til flestra verðlauna á Ólympíuleikunum og í hvaða greinum?“ Vísindavefurinn, 6. maí 2008, sótt 3. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=22103.
Anna Karen Skúladóttir og Emilía Dagný Sveinbjörnsdóttir. (2008, 6. maí). Hver hefur unnið til flestra verðlauna á Ólympíuleikunum og í hvaða greinum? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=22103
Anna Karen Skúladóttir og Emilía Dagný Sveinbjörnsdóttir. „Hver hefur unnið til flestra verðlauna á Ólympíuleikunum og í hvaða greinum?“ Vísindavefurinn. 6. maí. 2008. Vefsíða. 3. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=22103>.