- Heimaey 13,4 km2
- Hrísey á Eyjafirði 8 km2
- Hjörsey í Faxaflóa 5,5 km2
- Grímsey 5,3 km2
Einn þekktasti atburður í sögu Vestmannaeyja er Tyrkjaránið árið 1627. Þá komu sjóræningjar frá Alsír til eyjanna á þremur skipum, tóku þeir um 240 manns höndum og fluttu í skip en drápu 34 aðra. Fangarnir voru seldir á þrælamarkaði í Alsír, en tíu árum síðar voru nokkrir þeirra leystir úr ánauð. Af þeim náðu 27 að komast aftur heim til Íslands. Í gegnum aldirnar hefur sjósókn skipt miklu máli fyrir íbúa Vestmannaeyja. Fyrr á tímum var útræði stundað samhliða búskap en seinna urðu veiðar og fiskvinnsla aðal atvinnugreinarnar. Eftir að vélbátavæðing hófst snemma á síðustu öld og fram undir 1930 fjölgaði fólki ört í Vestmannaeyjum. Um tíma var bærinn annar fjölmennasti kaupstaður landsins á eftir Reykjavík og stærsta verstöð landsins. Gróskumikið mannlíf hefur löngum verið í Vestmannaeyjum og íbúar þar staðið framarlega í ýmsum málum. Fyrsti barnaskóli á Íslandi var stofnaður í Vestmannaeyjum árið 1745 og þar er þriðja elsta steinkirkja landsins. Ein þekktasta útisamkoma á Íslandi er þjóðhátíðin í Vestmannaeyjum sem haldin hefur verið nánast árlega allt frá 1874. Þann 23. janúar 1973 hófst eldgos á Heimaey sem hafði í för með sér mikla eyðileggingu og röskun á högum Vestmannaeyinga. Um þriðjungur húsa í bænum fór undir hraun og ösku og annar þriðjungur skemmdist að meira eða minna leyti. Gosið stóð í rúma fimm mánuði en að því loknu hófst uppbygging af miklum krafti. Þegar eldgosið hófst voru íbúar Heimaeyjar, um 5.300 talsins, fluttir yfir á fastalandið. Talið er að allt að 1.700 hafi ekki snúið til baka að gosi loknu. Íbúum hefur fjölgað síðan en þó ekki upp í þann fjölda sem áður var. Samkvæmt heimildum Hagstofu Íslands voru íbúar Vestmannaeyja 4.282 þann 1. janúar 2016. Viðbót við svarið Glöggur lesandi benti okkur á að með aðeins annarri nálgun mætti segja að Hegranes í Skagafirði sé stærsta eyjan við Íslands. Máli sínu til stuðnings benti hann á að íslenskar eyjar væru ekki bara eyjar í sjó heldur einnig eyjar og hólmar í ferskvötnum og straumvatni, til dæmis Sandey í Þingvallavatni og Hrútey í Blöndu. Ef slíkar eyjar eru taldar með þá hefur Hegranes vinninginn, en það er til hálfs út í sjó og til hálfs afmarkað af eystri og vestari kvíslum Héraðsvatna. Í þessu svari er hins vegar kosið að fylgja þeirri hefð sem skapast hefur, til dæmis hjá Hagstofunni, og miða við eyjar í sjó. Vísindavefurinn þakkar Hjörvari Péturssyni fyrir þessa ábendingu. Heimildir og mynd:
- Hagstofa Íslands - Mannfjöldi eftir þéttbýlisstöðum
- Hagstofa Íslands - Landshagir 2015
- Vestmannaeyjar.is
- Guðjón Ármann Eyjólfsson, 1984. „Vestmannaeyjar“, bls. 58-93 í Landið þitt Ísland, ritstjórar Þorsteinn Jósepsson og Steindór Steindórsson. Örn og Örlygur, Reykjavík.
- Íslenska alfræðiorðabókin. Örn og Örlygur, Reykjavík. 1990.
- Mynd: HB