Hér er einnig svarað spurningu Rósu Kristjánsdóttur um sama efni.Lengi hefur verið talið að alvarlegir geðsjúkdómar eins og geðklofi (enska schizophrenia) og geðhvarfasýki (manic-depressive illness), væru að einhverju eða öllu leyti arfgengir. Flestir eru löngu orðnir sammála um að geðhvarfasýki sé að verulegu leyti arfgengur sjúkdómur og eigi sér líffræðilegar orsakir. Fólki er mun hættara við að fá þennan sjúkdóm, ef hann hefur greinst hjá nánum ættingjum þeirra. Ekki hefur þó enn tekist að finna beint orsakasamband eða greina þau gen sem valda sjúkdómnum. Hið sama á við um geðklofa, þótt meiri ágreiningur hafi verið um arfgengi hans en geðhvarfasýki. Almennar líkur til að fá geðklofa eru um 1%, en hjá þeim sem eiga foreldri með geðklofa eru líkurnar 12% og ef eineggja tvíburi er haldinn geðklofa eru líkurnar á að hinn tvíburinn fái sjúkdóminn um 48%. Þótt líkur séu til þess að erfðir eigi verulegan þátt í meiri háttar geðsjúkdómum, er þó ljóst að umhverfið hefur einnig mikil áhrif og erfitt er að meta þátt hvors um sig. Einnig er mjög líklegt að mörg gen fremur en eitt einstakt liggi til grundvallar sjúkdómnum og áhrif þeirra og samspil gætu gefið mjög flókna mynd. Í hinum vægari geðsjúkdómum, hugsýki (neurosis) og persónuleikaröskun (personality disorder), eru erfðir greinilega mun veigaminni þáttur og umhverfisáhrif skipta þar meira máli. Skapferli og persónuleiki ganga vissulega í arf að vissu marki, en uppeldi og aðstæður allar móta þessa þætti í fari mannsins og ráða oftast meiru um aðlögun hans og hvort sú aðlögun verður farsæl eða sjúkleg. Maðurinn er mótaður af samspili erfða og umhverfis. Allt í fari okkar á sér arfrænan grunn að meira eða minna leyti. Þess vegna er sumum hættara en öðrum að fá tiltekna sjúkdóma, þar á meðal geðsjúkdóma. Það getur síðan ráðist af lífsskilyrðum, uppeldisaðstæðum eða öðrum þáttum í umhverfinu hvort sjúkdómur brýst fram eða hver framvinda hans verður. Takist að greina þau gen sem liggja að baki tilteknum geðsjúkdómum þarf það ekki að leiða til mikilla breytinga á meðhöndlun þeirra. Vissulega er hægt að hafa áhrif á barneignir eða beita fóstureyðingu þegar viðkomandi er í áhættuhópi. Slíkar ákvarðanir vekja hins vegar upp alvarlegar siðfræðilegar spurningar, ekki síst vegna þess að aðrir þættir en erfðir valda einnig sjúkdómnum og framgangi hans. Hugsanlegt er að hægt verði að ráðast gegn genunum sem valda þessum sjúkdómum með nýjum lyfjum eða öðru inngripi, en of snemmt er að fullyrða nokkuð enn sem komið er hvort slíkt kann að vera mögulegt. Lyfjameðferð sem beinist að einkennum þessara sjúkdóma ásamt sálfræðilegum stuðningi og félagsmótun verða vafalaust áfram ríkur þáttur í meðferð meiri háttar geðsjúkdóma. Ný þekking er þó forsenda allra framfara og uppgötvun erfðafræðilegra orsaka fyrir geðsjúkdómum kann að leiða til mikilla framfara í lækningum þeirra. Þetta svar er birt með góðfúslegu leyfi vefseturins persona.is en höfundur svarsins er látinn.
Eru geðsjúkdómar ættgengir?
Útgáfudagur
12.3.2002
Spyrjandi
Olga Guðmundsdóttir
Tilvísun
Gylfi Ásmundsson. „Eru geðsjúkdómar ættgengir?“ Vísindavefurinn, 12. mars 2002, sótt 30. október 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=2179.
Gylfi Ásmundsson. (2002, 12. mars). Eru geðsjúkdómar ættgengir? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=2179
Gylfi Ásmundsson. „Eru geðsjúkdómar ættgengir?“ Vísindavefurinn. 12. mar. 2002. Vefsíða. 30. okt. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=2179>.