Hæsti hiti sem mælst hefur á jörðinni er 57,7°C. Sá hiti var mældur í Líbýu í Afríku þann 13. september 1922. Lægsti hiti sem mældur hefur verið í Afríku var í Marokkó 11. febrúar 1935. Þá var hitinn –23,9 °C. Hæsti hiti sem mældur hefur verið á Suðurskautslandinu var á Vonarflóa (e. Hope Bay) og var hann 14,6°C, mældur 5. janúar 1957. Lægsti hiti sem mældur hefur verið þar er –89,2°C og er það lægsti hiti sem mældur hefur verið á jörðinni. Hitinn var mældur í Vostock II, 21. júlí 1983. Í Asíu er hitametið 53,9°C. Sá hiti var mældur í Ísrael 21. júní 1942. Í Asíu er lægsti hitinn sem mælst hefur –69,8°C. Hann var mældur í Síberíu 7. febrúar 1892. Ástralska hitametið mældist 50,7°C. Hitinn var mældur í Ooddnatta í Suður-Ástralíu 2. janúar 1960. Lægsti hitinn í Ástralíu var mældur í Charlotte Pass, New South Wales 29. júní 1994. Hitinn var –23°C. Hæsti hiti í Evrópu var mældur á Spáni 4. ágúst 1881 og var 50°C. Í Rússlandi hefur mælst lægsti hiti Evrópu og var hann -55°C. Ekki er víst hvenær sá hiti var mældur. Hitametið í Norður-Ameríku er 56,7°C. Sá hiti var mældur í Dauðadal (Death Valley) í Bandaríkjunum 10. júlí 1913. Lægsti hitinn í Norður-Ameríku var mældur í Kanada 3. febrúar 1947 og var hitinn –63°C. Í Suður-Ameríku var hitinn mestur í Argentínu 11. desember 1905. Hitinn mældist 48,9°C. Lægsti hiti Suður-Ameríku var einnig mældur í Argentínu og var hann mældur 1. júní 1907. Hitinn var – 33°C.
Á Íslandi er hæsti hiti sem mælst hefur 30,5°C og var sá hiti mældur á Teigarhorni í Berufirði 22. júní 1939. Hitinn 36°C var mældur á Teigarhorni árið 1940, en sú mæling er ekki talin vera trúverðug. Það hefur líka gerst erlendis að hitamælingar séu ekki taldar trúverðugar; til dæmis átti að hafa verið mældur 70°C hiti í Portúgal í júlí árið 1949. Heimildir:Myndin er af Teigarhorni og er fengin á vef Náttúruverndar
Mynd: HB