Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Ef spyrjandi hefði viljað vita hve margar tommur væru í kílómetra eða hve margar mínútur væru í viku hefðum við ekki átt í neinum vandræðum með að svara honum. En þar sem mílan er misjafnlega löng eftir því hvort maður er staddur á sjó eða landi, og jafnvel mislöng eftir því í hvaða landi maður er, reynist svarið aðeins flóknara.
Orðið míla er dregið af latneska orðinu mille sem þýðir þúsund, því upphaflega var míla skilgreind sem vegalengdin sem rómversk herdeild (latína legio, legíón í nútímamálum) gat marserað í 1000 skrefum. Sú vegalengd var um 1500 metrar.
Enska mílan er líklega sú míla sem flestir eiga við þegar talað er um mílur. Árið 1592 skilgreindi breska þingið hana þannig að hún varð 1609,344 metrar eftir að þeir komu til sögu. Áður en þingið greip til þessa ráðs hafði gætt ósamræmis í þessu milli landshluta í Bretlandi. Skoska mílan var til dæmis 1.814 m og sú írska 2.048 m.
Sænsku, dönsku og norsku mílurnar eru nokkru lengri en mílur annarra landa. Upphaflega var sænska mílan skilgreind sem 36.000 sænsk fet eða 10,687 km og sú danska 24.000 dönsk fet eða 7,5325 km. Nú til dags er yfirleitt talað um að þær sænsku og norsku séu nákvæmlega 10 km og sú danska nákvæmlega 7,5 km. Svíar nota sína mílu talsvert í daglegu tali og mundu til dæmis segja að það séu 39 mílur frá Reykjavík til Akureyrar þar sem okkur er tamast að segja að þetta séu 389 km.
Í þýskumælandi löndum eru mílurnar áþekkar þeirri dönsku, 7.586 m í Austurríki og 7.532,5 m í norðurhluta Þýskalands. Þá er franska mílan 4.267 m.
Sjómílan er mikið notuð, bæði á sjó og í lofti. Hún er tengd stærð jarðar og er skilgreind sem ein hornmínúta af miðbaug jarðar. Þetta má hugsa þannig að hringnum sem miðbaugurinn spannar væri skipt upp í 360 hluta eða gráður og hverri gráðu aftur upp í 60 mínútur. Sjómíla er því 1/21.600 hluti af ummáli jarðar um miðbaug. Metrinn er hins vegar upphaflega skilgreindur þannig að fjarlægðin frá pól til miðbaugs verði 10.000 km en það er fjórðungur af ummáli jarðar. Út frá þessu tvennu er fljótreiknað að sjómílan muni vera um 1850 metrar.
Ólíkt því sem gerist með mílur á landi er sjómílan sú sama hjá öllum þjóðum, 1.852 m.
Svarið við spurningunni fer því algjörlega eftir því hvernig mílur spyrjandi á við en vonandi höfum við meðal annars nefnt þá mílu sem hann hafði í huga!
Einar Örn Þorvaldsson og Þorsteinn Vilhjálmsson. „Hvað eru tíu mílur margir km?“ Vísindavefurinn, 26. febrúar 2002, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=2143.
Einar Örn Þorvaldsson og Þorsteinn Vilhjálmsson. (2002, 26. febrúar). Hvað eru tíu mílur margir km? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=2143
Einar Örn Þorvaldsson og Þorsteinn Vilhjálmsson. „Hvað eru tíu mílur margir km?“ Vísindavefurinn. 26. feb. 2002. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=2143>.