
Í gamla daga voru hestar notaðir til þess að bera hey í hlöðu á Íslandi enda voru engar nútíma landbúnaðarvélar til og nánast engir vegir. Lítið var notast við hestvagna og þá helst litla tvíhjóla vagna. Heyið var slegið og þurrkað úti á túni eða á engjum. Heyinu var svo rakað saman í sátur og þær bundnar í bagga sem vógu á bilinu 40 til 50 kíló. Einn hestur bar tvo bagga, hvorn á sinni hlið, og kallaðist það hestburður. Hestburður er því um 100 kíló eða 1 hektókíló.


Þegar heyið var komið á hestana voru þeir bundnir hver í annan. Við það myndaðist löng röð af hestum, svonefnd heybandslest. Hestarnir sem báru hey voru aðallega notaðir til burðar en ekki til reiðar og kölluðust klyfjahestar. Þessir hestar gátu oft borið mun þyngri byrðar en sem nemur einum hestburði. Klyjahestar voru til dæmis oft notaðir á löngum ferðalögum og þá var algengt að þeir bæru allt að 150 kg á bakinu. Þessi aðferð við að koma heyi í hús var algeng fram yfir aldamótin 1900 en þá tóku vagnar víða við því hlutverki. Hross gat dregið rúmlega 300 kíló af heyi í vagni. Heimildir: Daniel Bruun, Íslenskt þjóðlíf í þúsund ár. Örn og Örlygur, 1987. Ásgeir Blöndal Magnússon, Íslensk orðsifjabók. Orðabók Háskólans, 1989.
Myndir: Úr bókinni Iceland for 1000 years eftir Daniel Bruun, fengnar af vefsetrinu Icelandic Horse Connection Síðasta myndin er úr bók Jónasar Jónassonar frá Hrafnagili, Íslenskir þjóðhættir. Önnur útg. Reykjavík: Jónas og Halldór Rafnar, 1945. Bls. 82. -- Í sömu bók er einnig mynd af klyfbera og reiðingi, bls. 71.