Heimspekingar benda gjarnan á fyndni sem dæmigerðan eiginleika sem hlutir hafa aðeins í krafti þess sem er í auga sjáandans, sem má kannski líka kalla huglægan eiginleika. Þannig er oftast litið svo á að brandari sé fyndinn ef og aðeins ef einhverjum finnst hann fyndinn, alveg eins og matur er bragðgóður ef og aðeins ef einhverjum finnst hann bragðgóður. Flestum finnst okkur ofureðlilegt að það sem einum þyki fyndið þyki öðrum ekkert fyndið og við teljum það ekki merki þess að annar hafi rétt fyrir sér frekar en hinn um það hvað sé fyndið. Dæmi um annars konar eiginleika, svokallaðan hlutlægan eiginileika, er til dæmis það að vera 75 sentimetrar á lengd. Ef tveimur manneskjum ber ekki saman um það hvort tiltekinn hlutur sé 75 sentimetra langur er venjan að líta svo á að önnur þeirra (að minnsta kosti) hafi rangt fyrir sér. Við tölum um að mismunandi þjóðir hafi mismunandi skopskyn, að skopskyn sé mismunandi milli aldurshópa og og ýmissa annarra hópa og að einstaklingsmunur sé á skopskyni og þykir ekkert tiltökumál. Það þætti hins vegar öllu verra ef Svíum og Frökkum bæri ekki saman um það hvort hlutur væri 75 sentimetrar. Af ofansögðu má ráða að ekki sé hægt að halda því fram að eitt sé fyndið fremur en annað eða að hægt sé að hafa rangt fyrir sér í þeim efnum. En kannski er þetta ekki alveg svona einfalt. Lítum til dæmis á eftirfarandi staðhæfingu:
Rasistabrandarar eru ekki fyndnir. Þeir drepa fólk.Þetta sagði eitt sinn bandarískur heimspekingur. Hann átti auðvitað ekki við það að enginn hlæi að rasistabröndurum, enda vissi hann fullvel að margir gera það. Og það sem hann átti við með því að brandararnir dræpu fólk var auðvitað ekki það að þeir væru svo drepleiðinlegir að fólk hryndi niður við það eitt að heyra þá. Með því að segja brandarana drepa fólk átti hann ekki aðeins við það að þeir sem segðu eða heyrðu rasistabrandara yrðu þar með líklegri til að drepa fólk af þeim kynþætti sem brandarinn væri um, heldur hafði hann ekki síður í huga óbein áhrif. Kenning bandaríska heimspekingsins var sú að rasistabrandarar ættu þátt í að viðhalda fordómum gagnvart svörtu fólki í Bandaríkjunum og að fordómarnir viðhéldu aftur fátækt meðal svartra sem meðal annars skilaði sér í lélegri heilbrigðisþjónustu, auknum ungbarnadauða og aukinni glæpatíðni sem fjölgar auðvitað dauðsföllum. Tilgangurinn með þessu dæmi er ekki að leggja mat á félagslegar afleiðingar rasistabrandara (þótt undirrituð mæli að sjálfsögðu með að lesendur hugleiði þær), heldur að leiða í ljós að fólk hefur stundum skoðanir á því hvað geti eða geti ekki verið fyndið. Í þessu dæmi var maðurinn ekki bara að tilkynna að honum sjálfum þættu rasistabrandarar ekki fyndnir heldur var hann að gefa í skyn að þeir sem teldu þá fyndna hefðu hreinlega rangt fyrir sér. Ef við hugsum okkur almenna útgáfu af því sem þarna er staðhæft verður hún einhvern veginn svona: Það sem veldur fólki alvarlegum skaða getur ekki verið fyndið. Þetta er svo sem ekki óalgengt viðhorf. Stundum hlæjum við til dæmis þegar einhverjum skrikar fótur en hættum svo að hlæja um leið og okkur verður ljóst að viðkomandi hefur meitt sig. Okkur þykir ekki hæfa að hlæja við slíkar aðstæður. Sumt finnst okkur bara ekki vera viðeigandi að fólk álíti fyndið. Hugsum okkur til dæmis manneskju sem stekkur aldrei bros þegar aðrir hlæja en sem hlær gjarnan að óförum annarra og finnst bráðfyndið að missa náinn ástvin. Hefðum við ekki eitthvað við skopskyn hennar að athuga? Kannski þýðir þetta að við skiptum hlutum í tvö hólf: Annars vegar eru þeir hlutir eða atburðir sem má kalla fyndna og hins vegar er það sem ekki er viðeigandi að kalla fyndið. Það hvort eitthvað úr fyrra flokknum er fyndið eða ekki er háð smekk hvers og eins og þótt okkur beri ekki saman um það nákvæmlega hvað sé fyndið þá lítum við ekki svo á að neinn hafi rangt fyrir sér í þeim efnum. Ef einhverjum finnst hins vegar eitthvað úr seinna flokknum fyndið hlýtur honum að skjátlast. Stundum getur þó verið vandasamt að meta í hvorn flokkinn hlutir skuli falla. Væntanlega ber okkur öllum saman um það að manneskja sem segir það fyndið að missa ástvin hlýtur annað hvort að hafa misskilið hvað orðið fyndið þýðir eða þá að hafa stórskemmt tilfinningalíf. Jafnframt hefur varla neinn neitt við það að athuga að fólk hlæi að trúðum. Hins vegar liggur grátt svæði einhvers staðar þarna á milli; það sem sumir hlæja að getur verið eitthvað sem öðrum finnst með öllu óviðeigandi að hafa í flimtingum. En helsta einkenni þessarar skiptingar í tvo flokka virðist vera að þeir hlutir sem mögulega geta verið fyndnir eru álitnir meinlausir og þeir sem ekki geta talist fyndnir eru á einhvern hátt sorglegir eða skaðlegir. Þessi skipting virðist þó ekki einhlít. Til dæmis segjum við stundum að eitthvað sé grátbroslegt og tölum um skoplegu hliðarnar á því sem annars er sorglegt. Kannski þýðir það að gráa svæðið milli flokkanna tveggja sé nokkuð stórt enda eigum við þetta sérstaka og undarlega lýsingarorð um það: grátbroslegt. Eða kannski eru það aðeins mjög skaðlegir eða sorglegir hlutir sem lenda í seinni flokknum. Einhvers staðar liggja þá mörk og handan þeirra liggur það sem getur einfaldlega ekki verið fyndið. Ef þetta er rétt verður niðurstaðan sú að í sumum tilfellum getur verið hægt að fullyrða að eitthvað sé ekki fyndið. Á hinn bóginn er mun erfiðara að fullyrða að eitthvað sé fyndið í þeim skilningi að sá sem ekki kunni að meta fyndnina hafi rangt fyrir sér.
Mynd af þróun mannsins: ahajokes.com Mynd af lyklaborði: ahajokes.com Mynd af umferðarskilti: ahajokes.com