Sá siður að gefa mönnum nöfn sem sótt eru til náttúrunnar, einkum dýraríkisins, er ævaforn og á ef til vill rætur að rekja allt til indóevrópska frummálsins. Nöfn af þessu tagi koma fyrir í fornum íslenskum heimildum, allmörg þeirra eru notuð enn í dag, og ný hafa bæst við á síðustu áratugum. Mest er um samsett nöfn, þar sem annaðhvort forliður eða viðliður er sóttur til dýrsheitis, til dæmis Bjarndís, Hrafnkell, Hallbjörn, Björgúlfur. Stundum er dýrsheiti í báðum liðum, t.d. Örnólfur (-ólfur úr eldra -úlfur), Arnbjörn (fyrri liður = örn). Ósamsett nöfn voru þó vel þekkt eins og Hrefna og Björn. Talið er að til forna hafi sú ósk oft verið falin í nafninu að nafnberinn byggi yfir einstökum hæfileikum, krafti eða þori. Þess vegna verða algeng nöfn sótt til bjarnarins, úlfsins og arnarins. Ef litið er yfir nöfn sótt til dýraríkisins, sem finnast í þjóðskrá, sést að þeim hefur fjölgað mjög frá því í fornu máli, bæði samsettum nöfnum og ósamettum. Kvenmannsnöfn sótt til dýraríkis eru heldur færri en karla og þar er algengast að sækja nöfnin til fugla, til dæmis Arna, Dúfa, Erla, Hrefna, Lóa, Svala, Hrafnkatla, Svanhvít. Fá eru sótt til spendýra, húsdýra eða villtra spendýra. Ekkert kvenmannsnafn er sótt til fisksheitis og svo var heldur ekki í fornu máli. Flest karlmannsnöfnin eru sótt til villtra spendýra, til dæmis Bessi, Björn, Hjörtur, Húnn, Kópur, Mörður, Bjarnþór, Vébjörn, Björgúlfur. Allnokkur eru einnig sótt til fuglaríkisins, til dæmis Ari, Gaukur, Hrafn, Orri, Smyrill, Arngeir, Hrafnkell, Svanbjörn. Til fisksheitis eru fá nöfn sótt. Í eldra máli þekktust þó nöfnin Karfi og Hængur, en aðeins hið síðara er á þjóðskrá nú. Til skriðdýra eru aðeins sótt nöfnin Ormar og Ormur. Allmörg nöfn, leidd af dýrsheitum, koma fyrir í eldra máli sem ekki hafa náð fótfestu í íslenskum nafnaforða. Sum koma aðeins fyrir í fornum heimildum eins og til dæmis Rjúpa, Grís, Hafur, Lambi, Refur. Önnur lifðu eitthvað fram á aldir, til dæmis Kálfur, en eru nú horfin. Ekki er alltaf auðvelt að meta hvers vegna eitt nafn lifir um aldir en annað fellur í gleymsku. Stundum má skýra það með því að samnöfnin eru notuð í neikvæðri merkingu um fólk, til dæmis að einhver sé refur í fjármálum, óartagrís eða algjör kálfur. Húsdýraheiti hafa tiltölulega fá átt upp á pallborðið hjá nafngjöfum, hugsanlega vegna þess að þau eru mörg hver of nærri daglegum störfum. Ær, Hross, Kálfur eru nöfn sem ég hygg að seint verði valin. Sama er að segja um fisksheiti. Nöfn eins Þorskur, Ýsa, Lúða, Karfi, Síld eru ekkert verri en mörg önnur, sem notuð eru nú, en þau eru of tengd daglegum störfum til þess að þau verki jákvætt á þann sem er í leit að nýju nafni.
Mynd: HB