Ekki er í lögum bein heimild fyrir börn til að óska eftir nýjum forsjáraðilum. Segja má að hugtakið forsjá sé þríþætt. Í fyrsta lagi felur það í sér rétt foreldra til að ráða persónulegum högum barns, sbr. 3. mgr. 29. gr. barnalaga, nr. 20/1992 og 25. og 31. gr. lögræðislaga, nr. 71/1997. Í öðru lagi felur það í sér það sem nefnt er foreldraskyldur í barnalögum, sbr. til dæmis VI. kafla og 29. gr. Í þriðja lagi felur það í sér rétt barnsins til forsjár foreldra, sbr. 2. mgr. Barnið á sem sagt rétt á forsjá foreldra sinna uns það verður sjálfráða og eru foreldrar forsjárskyldir við það. Foreldrum ber að gegna forsjár- og uppeldisskyldum sínum svo sem best hentar hag barns og þörfum. Þrátt fyrir þá lögmæltu skipan að forsjá sé hjá foreldrum (eða eftir atvikum öðrum forsjáraðilum), er sá möguleiki fyrir hendi, ef heilsu barns eða þroska er hætta búin vegna vanrækslu, vanhæfni eða framferðis foreldra, að barnaverndarnefnd svipti þá forræði yfir barninu með úrskurði, sbr. 25. gr. barnaverndarlaga nr. 58/1992. Úrskurður um forsjársviptingu skal því aðeins kveðinn upp að ekki sé unnt að beita öðrum vægari aðgerðum til úrbóta skv. 21. og 24. gr. barnaverndarlaga eða slíkar aðgerðir hafa verið fullreyndar án nægilegs árangurs. Þessar aðgerðir eru til dæmis eftirlit með heimili, taka barns af heimili, læknisskoðun, innlögn á sjúkrahús eða aðra stofnun og svo framvegis. Barn, er telur heilsu sinni eða þroska vera hætta búin, getur sjálft leitað til barnaverndarnefndar, sem leitar þá lausna á því máli með hagsmuni barnsins að leiðarljósi. Þegar foreldrar eru sviptir forsjá barns síns með úrskurði barnaverndarnefndar hverfur forsjá þess til barnaverndarnefndarinnar að svo stöddu. Síðan er barninu ráðstafað í fóstur til fósturforeldra og færist þá forsjáin yfir til þeirra. Barnaverndarnefnd ber að velja fósturforeldra af kostgæfni og með tilliti til aðstæðna þeirra, hæfni og reynslu sem heppilegra uppalenda. Enn fremur skal velja fósturforeldra sérstaklega út frá hagsmunum og þörfum viðkomandi barns.
Mynd: Úr kvikmyndinni Oliver! frá 1968. Sjá IMDB.