Skattur Tobins er kenndur við Nóbelsverðlaunahafann James Tobin (5. mars 1918 [- lést 11. mars 2002]), prófessor í hagfræði við Yale-háskóla. Tobin setti hugmynd sína fram árið 1972 en þá hafði árum saman verið mikill órói á fjármálamörkuðum heims. Þessi órói leiddi meðal annars til þess að fastgengiskerfi helstu gjaldmiðla heims, sem kennt var við Bretton Woods, hrundi. Það kerfi byggði mjög á Bandaríkjadal og hornsteinn þess var fast gengi annarra gjaldmiðla gagnvart dalnum. Miklar sveiflur í gengi hinna ýmsu gjaldmiðla ollu þá, sem nú, talsverðum vandræðum. Fótunum gat til dæmis verið kippt undan samkeppnishæfni heilla atvinnugreina í einu landi fyrirvaralítið vegna breytts gengis gjaldmiðils landsins eða gjaldmiðils samkeppnisaðila. Erfitt var þá, sem nú, að skýra gengissveiflur með aðstæðum í efnahagslífi viðkomandi landa. Sveiflurnar virtust nánast eiga sér sjálfstætt líf. Oft voru gríðarlegar upphæðir færðar úr einum gjaldmiðli í annan af, að því er virtist, þeirri ástæðu einni að aðilar á fjármagnsmörkuðum voru að reyna að gera sér fé úr spám um breytingar á gengi til mjög skamms tíma og það jafnvel spám um mjög litlar breytingar. Þessi miklu viðskipti breyttu gengi gjaldmiðla ört og mikið og gera raunar enn. Í þessu samhengi má einnig geta þess að verð á ýmsum öðrum eignum, til dæmis hlutabréfum, sveiflast mun meira en hægt er með góðu móti að gefa skýringu á með því að skoða þær stærðir sem helst ráða verðmæti fyrirtækja, svo að vandinn er ekki einskorðaður við gjaldeyrismarkaði. Tobin lagði til að dregið yrði úr þessum sveiflum á gjaldeyrismörkuðum með því að leggja veltuskatt á breytingar úr einum gjaldmiðli í annan, til dæmis þegar jen eru keypt fyrir dollara. Röksemd hans var að jafnvel mjög lágur skattur myndi eyða möguleikum á að hagnast á litlum breytingum á gengi. Því myndu miklu minni viðskipti verða með gjaldmiðla og um leið yrði gengi þeirra stöðugra. Nú leggur Tobin til að skatthlutfallið verði á bilinu 0,1% til 0,25% en upphaflega miðaði hann við ívið hærra hlutfall. Hugmynd Tobins var tekið heldur fálega í fyrstu og raunar hefur hún aldrei komist nálægt því að vera hrint í framkvæmd. Engu að síður á hún sér ýmsa áhrifamikla stuðningsmenn og er enn til umræðu öðru hverju, þremur áratugum eftir að hún var fyrst sett fram. Ýmsar tillögur hafa verið settar fram um það hvert tekjurnar af skattinum ættu að renna, til dæmis í að kosta rekstur Sameinuðu þjóðanna eða styðja vanþróuð lönd. Eins og gefur að skilja er hugmyndin umdeild. Það má líkja henni við að henda sandi í tannhjól vélar til að hægja á henni; koma í veg fyrir að hún snúist jafnlipurlega og ella. Hagfræðingar eru yfirleitt mjög tortryggnir á tilraunir til að reka fleyga á milli kaupenda og seljenda á mörkuðum eða á annan hátt að reyna að draga úr skilvirkni markaða. Það hefur því gengið hægt að sannfæra þá um ágæti Tobin-skattsins þótt margir hagfræðingar og aðrir séu sammála um að ofsafengnar sveiflur á gjaldeyrismörkuðum og raunar ýmsum öðrum mörkuðum séu vandamál. Þá eru sumir hrifnir af hugmyndinni um skattinn en efast um að hún sé framkvæmanleg. Það er ekki skrýtið því að innheimtan og framkvæmdin almennt gæti orðið afar snúin svo að ekki sé minnst á fyrirsjáanlegar deilur um það hvert afraksturinn ætti að renna. Áhugaverðir tenglar:
- Heimasíða James Tobin
- Viðtal við Tobin úr Der Spiegel frá 2001, ensk þýðing.
- Grein úr Financial Times frá 2001.
- Heimasíða samtaka sem berjast fyrir skatti Tobins
- Nobelprize.org - James Tobin. Sótt 4.9.2010.