Sérhverjir tveir ólíkir punktar liggja á einhverri línu.Við getum því svarað fyrri spurningunni játandi: Á milli tveggja ólíkra punkta liggur alltaf lína, óháð því hvers konar rúmfræði við beitum. Vandamálið við að svara seinni spurningunni liggur í frumsendunni hér að ofan, en orðalagið þar er ekki nógu nákvæmt. Hún segir að á milli tveggja ólíkra punkta liggur að minnsta kosti ein lína, en er sú lína eina línan sem báðir punktarnir liggja á? Við getum ekki ályktað það, svo við þurfum að gera ráð fyrir sitt hvorum möguleikanum, og athuga hvað gerist.
Ef við gerum ráð fyrir að á milli tveggja ólíkra punkta liggi nákvæmlega ein lína, þá má svara seinni spurningunni neitandi, eins og sést af eftirfarandi röksemdafærslu: Látum l og m vera tvær ólíkar línur, og gerum ráð fyrir að þær skerist í tveimur ólíkum punktum, sem við köllum A og B. Samkvæmt frumsendu liggur nákvæmlega ein lína milli A og B, svo við ályktum að l og m séu sama línan. Þetta er í mótsögn við að línurnar séu ólíkar, svo við höfum séð að tvær ólíkar línur geti í mesta lagi skorist í einum punkti. Í evklíðskri rúmfræði sem er kennd í grunnskólum er gert ráð fyrir að á milli tveggja ólíkra punkta liggi nákvæmlega ein lína, svo þar geta línur í mesta lagi skorist í einum punkti. Þessi eiginleiki er þó ekki einskorðaður við evklíðska rúmfræði, því hann gildir til dæmis líka í varprúmfræði, en í henni er gert er ráð fyrir að allar línur skerist og samsíða línur eru því ekki til þar. Á hinn bóginn getum við gert ráð fyrir að á milli tveggja ólíkra punkta geti legið fleiri en ein lína. Þá fæst ein tegund óevklíðskrar rúmfræði sem er kölluð sporger rúmfræði, en það er til eitt annað afbrigði óevklíðskrar rúmfræði sem nefnist breiðger rúmfræði. Við fyrstu sýn virðist sporger rúmfræði vera heldur ótengd raunveruleikanum, en svo er alls ekki. Hægt er að sjá fyrir sér dæmi um hana með því að skoða yfirborð kúlu. Punktarnir sem við höfum áhuga á eru þá einfaldlega punktarnir á yfirborði kúlunnar, og línurnar eru stórbaugar á yfirborði hennar, en það eru stærstu hringirnir sem komast fyrir á kúlunni. Þetta líkan hefur til dæmis hagnýtingu við langflug, því stysta leiðin milli tveggja borga er eftir stórbaugi sem þær liggja báðar á.
Stórbaugar á kúlu sem mynda þríhyrning. Í sporgerri rúmfræði er línan milli punktanna A og B stórbaugurinn c.
Á kúlunni getur fleiri en einn stórbaugur legið á milli tveggja punkta; ef við veljum okkur punkt af handahófi og tökum svo punktinn sem er hinum megin á kúlunni, þá eru til óendanlega margir stórbaugar sem þeir liggja báðir á. Þetta svarar til þess að ef okkur langar að fljúga frá Íslandi til Nýja-Sjálands án þess að taka tillit til vinda, þá er nokkurn veginn sama í hvaða átt við fljúgum meðan við pössum okkur á því að beygja aldrei til hægri eða vinstri. Á rúmfræðimáli þýðir þetta að til eru tveir ólíkir punktar þannig að á milli þeirra liggur fleiri en ein lína. Enda sjáum við að sérhverjir tveir ólíkir stórbaugar skerast í tveimur punktum, sem þýðir að allar ólíkar línur eiga fleiri en einn skurðpunkt.
Meira efni um rúmfræði á Vísindavefnum:
- Hvað er rúmfræði? eftir Rögnvald G. Möller.
- Hvar bjó Evklíð, hvenær var hann uppi og hvað er hann þekktastur fyrir? eftir Kristínu Bjarnadóttur.
- Getiði sýnt mér hvernig regla Þalesar er notuð í stærðfræði? eftir Gunnar Þór Magnússon.
- W. Prenowitz og M. Jordan. Basic concepts of geometry. 1965. Blaisdell Publishing Company.
- Grein um rúmfræði á Wikipedia.
- Grein um kúlurúmfræði á Wikipedia.
- Mynd af síðu úr Frumþáttum Evklíðs fengin af Wikimedia Commons.
- Mynd af kúlu og stórbaugum fengin af Wikimedia Commons.
- Mynd af þoturákum fengin af Flickr.