Margir af þeim sem eru með erfðasjúkdóm sem kallast á ensku Waardenburg Syndrome eru með mislit augu. Auk mislitra augna er þetta fólk oft með skaddaða heyrn, mislitt hár og stundum er húð þeirra mislit. Augu þeirra geta líka verið óvenju blá. Á grundvelli rannsókna sem vísindamenn hafa gert á þessum erfðasjúkdómi telja þeir sig hafa fundið sannanir fyrir því að til sé gen sem hafi áhrif bæði á lit augna og á heyrn. Kvillinn er erfðafræðilega ríkjandi og því eru um helmingslíkur á því að börn þeirra sem haldin eru sjúkdómnum erfi hann. Talið er að það séu aðallega tvö gen sem stjórna augnlitnum en hugsanlega geta 8-20 önnur komið þar við sögu. Rannsóknir sýna að eitt genið sem staðsett er á fimmtánda litningnum hefur þau áhrif að augun verða blá eða brún. Einnig hefur komið í ljós að gen á nítjánda litningnum hefur þau áhrif að augun verða græn eða blá. Fólk með mislit augu vekur oft mikla athygli og jafnvel aðdáun. En svo hefur það ekki alltaf verið. Á miðöldum gat það verið beinlínis hættulegt að vera með mislit augu því það fólk var oft bendlað við kukl og galdra og var ósjaldan brennt á báli. Enn er þó margt á huldu um ástæður þess að fólk fær mislit augu og fleiri rannsóknir þarf að gera til að komast til botns í því. Heimildir Britannica Online
Waardenburg Syndrom
Myndin og heimildir eru fráScientific American