Maurar gegna þýðingarmiklu hlutverki í ýmsum vistkerfum, til dæmis í hitabeltinu. Ein leið til að meta mikilvægi tegundahóps í tilteknu vistkerfi er að finna út hver hlutfallsleg þyngd hennar er af heildarlífþyngd dýra í vistkerfinu. Í hitabeltinu er heildarlífþyngd maura nærri 25% af heildarlífþyngdinni og er það til að mynda mun hærra hlutfall en samanlögð lífþyngd allra hryggdýra í hitabeltinu. Auk þess að vera svo fyrirferðarmiklir á sumum svæðum jarðar hafa maurar aðlagast ýmsum vistum í lífkerfinu. Nokkrar tegundir eru skæðar plöntuætur, aðrar eru rándýr, enn aðrar hræætur og svo eru til tegundir sem eru allt þar á milli. Maurar geta einnig verið skæð meindýr, meðal annars viðarmaurar (Camponotus spp.) sem naga sig í gegnum timbur og svonefndir eldmaurar (Solenopsis spp.) sem geta bitið fólk og valdið talsverðum óþægindum. Til eru um 200 tegundir eldmaura. Flestar tegundir maura hafa fundist í Afríku eða 28% allra tegunda og þá aðallega á regnskógasvæðum álfunnar. Ein af hverjum fjórum maurategundum hefur fundist í Suður-Ameríku og hlutfallið er mjög svipað fyrir Asíu þar sem um 24% allra maurategunda lifa. Mikill meirihluti allra maurategunda heimsins lifir í hitabeltinu. Frekari fróðleikur á Vísindavefnum: Heimildir og mynd:
- Hölldobler & Wilson. (1990) The Ants. Springer. USA.
- Mynd: Ant á Wikipedia. Höfundur myndar: Fir0002, flagstaffotos.com.au. Birt undir GNU Free Documentation leyfi. Sótt 21. 9. 2009.