Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvað er naívismi?

Benedikt Hjartarson



Hugtakið naívismi er komið úr umræðu um myndlist og er dregið af lýsingarorðinu naív sem kemur úr latínu nativus, sem merkir einfeldnislegur eða tilgerðarlaus. Naívismi eða naív list vísar til verka listamanna sem ekki hafa hlotið hefðbundna myndlistarmenntun og fylgja fremur eigin tilfinningu og sannfæringu en hefðbundnum listrænum stílum eða aðferðum. Slíkum verkum er oft talið til tekna að þau einkennist af barnslegri einlægni sem skili sér jafnt í óvæntri lita og frásagnargleði og sköpun staðfasts listræns stíl er brjóti upp ríkjandi reglur og viðmið.

Rætur naívisma í listum eru jafnan raktar til síðari hluta 19. aldar, þegar iðnvæðing og tæknilegar framfarir leiddu til gagngerra breytinga á aðstæðum handverkslistar á Vesturlöndum. Á þessum tíma tekur fjöldaframleiddur verksmiðjuvarningur við því hlutverki sem handverksmenn höfðu jafnan gegnt við að framleiða staðlaða listræna nytjamuni. Afleiðingarnar urðu þær að handverksmenn snéru sér í auknum mæli að gerð persónulegri verka, enda hafði eftirspurnin eftir slíkum verkum aukist til muna með tilkomu hins borgaralega listmarkaðar á 19. öld.

Fagurfræðilegar forsendur naívisma eru þó komnar fram nokkru fyrr og má í því tilliti einkum benda á ritgerð þýska skáldsins Friedrichs von Schiller um einfaldan og meðvitaðan skáldskap eða Über naïve und sentimentalische Dichtung frá síðasta áratug 18. aldar. Í þeim texta greinir Schiller á milli þeirrar ´naív´ ljóðlistar sem reyni að líkja eftir veruleikanum með sem nákvæmustum og ósviknustum hætti annars vegar (til þessarar hefðar telur hann verk Hómers, Shakespeares og Goethes) og meðvitaðra og tilfinningaþrunginna verka þeirra skálda er reyni að sigrast á aðgreiningu sinni frá náttúrunni með sköpun heildstæðrar veraldar er samanstandi af listrænum ímyndum (til þeirra telur Schiller meðal annars Evrípídes og Hóras sem og sjálfan sig og önnur nýrri ljóðskáld).

Það er þó í Frakklandi sem naívisminn í listum öðlast fyrst almenna viðurkenningu, en rætur slíkra hugmynda þar má meðal annars rekja til draumsýnar heimspekingsins Jean-Jacques Rousseaus af hinum ómenntaða manni sem enn væri óspilltur af borgarmenningu nútímans. Þekktasti ´naív´ listamaðurinn í Frakklandi var Henri Rousseau (1844-1910), sem naut mikillar aðdáunar nútímalistamanna og rithöfunda á borð við Guillaume Apollinaire, Pablo Picasso og Robert Delaunay, en ýmsir af frumherjum módernismans í myndlist (þeirra á meðal Vasilij Kandinskij, Paul Klee og Marc Chagall) sóttu til naívisma í niðurrifi sínu á hefðbundnum listrænum aðferðum.

Það var gagnrýnandinn og listaverkasafnarinn Wilhelm Uhde sem efndi til fyrstu stóru sýningarinnar á verkum naívista í París árið 1927, en auk verka Henri Rousseau voru þar sýnd verk eftir Louis Vivin, André Bauchant, Camille Bombois og Séraphine. Á komandi áratugum var efnt til fjölda yfirlitssýninga á verkum ´naívista´ undir ólíkum yfirskriftum, en það var fyrst undir lok sjötta áratugar 20. aldar sem ´naív list´ varð að því sem kalla mætti viðtekið listfræðilegt hugtak yfir það fyrirbæri sem hér um ræðir. Þótt naívismi hafi komið fram með mest áberandi hætti í Frakklandi gætir áhrifa hans innan listrænna hefða í fjölmörgum ólíkum löndum, en á meðal íslenskra myndlistarmanna sem kenndir hafa verið við naívisma má nefna Ísleif Konráðsson og Sigurlaugu Jónasdóttir.


Nokkrar heimildir um ´naív list´:

- W. Uhde. Fünf primitive Meister. Zürich, 1947.

- J. Pierre. Les Peintres naïfs. París, 1983.

- O. Bihalji-Merin og N.-B. Toma?evi? (ritstj.). World Encyclopedia of Naive Art. A Hundred Years of Naive Art. London, 1984.

- R. Cardinal. ?Naive art?. Jane Turner (ritstj.). The Dictionary of Art. Macmillan Publishers. London, 1996, 22. bindi, s. 439-442.



Myndin Sofandi sígauni: ARTCYCLOPEDIA - The Fine Art Search Engine

Mynd af Jean-Jaques Rousseau: Lucidcafé

Mynd af Schiller: Projeckt Gutenberg - DE

Málverk af Wilhelm Uhde: Lawrence University - Department of Art History

Höfundur

aðjúnkt í almennri bókmenntafræði við HÍ

Útgáfudagur

7.1.2002

Spyrjandi

Guðmundur Jóhannsson

Efnisorð

Tilvísun

Benedikt Hjartarson. „Hvað er naívismi?“ Vísindavefurinn, 7. janúar 2002, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=2035.

Benedikt Hjartarson. (2002, 7. janúar). Hvað er naívismi? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=2035

Benedikt Hjartarson. „Hvað er naívismi?“ Vísindavefurinn. 7. jan. 2002. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=2035>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvað er naívismi?


Hugtakið naívismi er komið úr umræðu um myndlist og er dregið af lýsingarorðinu naív sem kemur úr latínu nativus, sem merkir einfeldnislegur eða tilgerðarlaus. Naívismi eða naív list vísar til verka listamanna sem ekki hafa hlotið hefðbundna myndlistarmenntun og fylgja fremur eigin tilfinningu og sannfæringu en hefðbundnum listrænum stílum eða aðferðum. Slíkum verkum er oft talið til tekna að þau einkennist af barnslegri einlægni sem skili sér jafnt í óvæntri lita og frásagnargleði og sköpun staðfasts listræns stíl er brjóti upp ríkjandi reglur og viðmið.

Rætur naívisma í listum eru jafnan raktar til síðari hluta 19. aldar, þegar iðnvæðing og tæknilegar framfarir leiddu til gagngerra breytinga á aðstæðum handverkslistar á Vesturlöndum. Á þessum tíma tekur fjöldaframleiddur verksmiðjuvarningur við því hlutverki sem handverksmenn höfðu jafnan gegnt við að framleiða staðlaða listræna nytjamuni. Afleiðingarnar urðu þær að handverksmenn snéru sér í auknum mæli að gerð persónulegri verka, enda hafði eftirspurnin eftir slíkum verkum aukist til muna með tilkomu hins borgaralega listmarkaðar á 19. öld.

Fagurfræðilegar forsendur naívisma eru þó komnar fram nokkru fyrr og má í því tilliti einkum benda á ritgerð þýska skáldsins Friedrichs von Schiller um einfaldan og meðvitaðan skáldskap eða Über naïve und sentimentalische Dichtung frá síðasta áratug 18. aldar. Í þeim texta greinir Schiller á milli þeirrar ´naív´ ljóðlistar sem reyni að líkja eftir veruleikanum með sem nákvæmustum og ósviknustum hætti annars vegar (til þessarar hefðar telur hann verk Hómers, Shakespeares og Goethes) og meðvitaðra og tilfinningaþrunginna verka þeirra skálda er reyni að sigrast á aðgreiningu sinni frá náttúrunni með sköpun heildstæðrar veraldar er samanstandi af listrænum ímyndum (til þeirra telur Schiller meðal annars Evrípídes og Hóras sem og sjálfan sig og önnur nýrri ljóðskáld).

Það er þó í Frakklandi sem naívisminn í listum öðlast fyrst almenna viðurkenningu, en rætur slíkra hugmynda þar má meðal annars rekja til draumsýnar heimspekingsins Jean-Jacques Rousseaus af hinum ómenntaða manni sem enn væri óspilltur af borgarmenningu nútímans. Þekktasti ´naív´ listamaðurinn í Frakklandi var Henri Rousseau (1844-1910), sem naut mikillar aðdáunar nútímalistamanna og rithöfunda á borð við Guillaume Apollinaire, Pablo Picasso og Robert Delaunay, en ýmsir af frumherjum módernismans í myndlist (þeirra á meðal Vasilij Kandinskij, Paul Klee og Marc Chagall) sóttu til naívisma í niðurrifi sínu á hefðbundnum listrænum aðferðum.

Það var gagnrýnandinn og listaverkasafnarinn Wilhelm Uhde sem efndi til fyrstu stóru sýningarinnar á verkum naívista í París árið 1927, en auk verka Henri Rousseau voru þar sýnd verk eftir Louis Vivin, André Bauchant, Camille Bombois og Séraphine. Á komandi áratugum var efnt til fjölda yfirlitssýninga á verkum ´naívista´ undir ólíkum yfirskriftum, en það var fyrst undir lok sjötta áratugar 20. aldar sem ´naív list´ varð að því sem kalla mætti viðtekið listfræðilegt hugtak yfir það fyrirbæri sem hér um ræðir. Þótt naívismi hafi komið fram með mest áberandi hætti í Frakklandi gætir áhrifa hans innan listrænna hefða í fjölmörgum ólíkum löndum, en á meðal íslenskra myndlistarmanna sem kenndir hafa verið við naívisma má nefna Ísleif Konráðsson og Sigurlaugu Jónasdóttir.


Nokkrar heimildir um ´naív list´:

- W. Uhde. Fünf primitive Meister. Zürich, 1947.

- J. Pierre. Les Peintres naïfs. París, 1983.

- O. Bihalji-Merin og N.-B. Toma?evi? (ritstj.). World Encyclopedia of Naive Art. A Hundred Years of Naive Art. London, 1984.

- R. Cardinal. ?Naive art?. Jane Turner (ritstj.). The Dictionary of Art. Macmillan Publishers. London, 1996, 22. bindi, s. 439-442.



Myndin Sofandi sígauni: ARTCYCLOPEDIA - The Fine Art Search Engine

Mynd af Jean-Jaques Rousseau: Lucidcafé

Mynd af Schiller: Projeckt Gutenberg - DE

Málverk af Wilhelm Uhde: Lawrence University - Department of Art History...