Nú er mikill snjór á húsþökum. Hvernig stendur á því að miklar snjóhengjur geta skagað heillangt niður af húsþökum án þess að slitna í sundur?Snjóþekjan hangir saman svo lengi sem innri styrkur hennar nær að halda í við togkraft lóðrétta bútsins sem skagar fram af þakbrúninni. Styrkur þekjunnar ræðst af því hvernig snjókornin tengjast hvert öðru; aðstæðum þegar snjórinn féll: lofthita, raka og vindhraða. Dæmigerður snjókristallur er sexstrendur að lögun. Í logni krækjast margstrengd snjókornin saman og mynda dúnmjúka breiðu, sem getur haldist óbreytt dögum saman í miklu frosti. Loftrými er mikið milli kornanna, snjórinn er laus í sér. Hreyfi vind brotna stinnar ísnálarnar og snjórinn pakkast saman í harðfenni. Hlýni klessast kornin saman í flyksur. Samfelld snjóþekja á landi hangir saman svipað og ullarteppi sem væri lagt yfir það. Við langvarandi snjókomu þykknar þekjan og aflagast undan eigin þunga vegna þess að snjókorn neðst í henni hafa ekki styrk til þess að bera uppi farg af þeim snjó sem hvílir ofan á þeim. Þá slútir snjókúfurinn fram yfir sig og minnir á blómkálshaus, en engin ógn virðist stafa af honum meðan kalt er í veðri. Sterkust eru snjókornin í miklu frosti. Þegar hins vegar hlýnar fer samfelld snjóþekjan að hníga fram og getur þá einnig skriðið eftir sleipum botni sínum, niður eftir þakinu. Snjóteppið fer þá að togast fram af þakskyggninu en hin samfellda snjóhella hefur þann innri styrk að sá hluti sem á þakinu er getur lengi haldið í við snjóinn sem farinn er fram af brúninni. En svo fer að lokum að togkrafur lóðrétta bútsins nær að slíta sundur helluna. Myndir:
- Snow - Wikimedia Commons. (Sótt 28.02.2017).
- Ritstjórn Vísindavefsins tók myndina af snjóþekjunni 28.2.2017.