Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
BÚRHVALIR
Samkvæmt skáldsögu Herman Melville, Moby Dick (1851) var Moby Dick búrhvalur. Búrhvalir eru meðal stærstu spendýra sem þekkjast á jörðinni. Þeir flokkast sem tannhvalir (odontocete). Búrhvalir eru bæði ólíkir öllum öðrum hvalategundum í útliti og hegðun. Þeir lifa dýpst allra hvala og geta kafað dýpra en nokkur önnur hvalategund. Kýr og kálfar búrhvalsins ferðast milli staða í hópum, en karlarnir ferðast einir milli staða, leita að æti og dvalarstað fyrir fjölskylduna.
Höfuð búrhvalsins er nánast ferkantað, en kjálkinn er lítill og slútandi. Höfuðið er stórt, eða um þriðjungur af heildarstærð búrhvalsins. Það er jafnþungt og það er stórt, en vegur um þriðjung heildarþyngdar líkamans. Búrhvalurinn hefur eitt blástursgat framarlega á vinstri hlið höfuðsins, og hann blæs vatninu framávið frekar en beint upp, eins og flestir aðrir hvalir gera. Skrokkurinn á honum, fyrir utan höfuðið, virðist krumpaður og þurr við fyrstu sýn.
Yfirleitt er búrhvalurinn dökkgrár, með ljósar rendur eða doppur. Húðin kringum munn búrhvalsins er hvít. Bolurinn er ljósgrárri og stundum hvítur. En í sögu Melville um Moby Dick var stórhvelið alhvítt.
Fullorðnir karlhvalir verða allt að 15-18 metra langir og vega um 35-45 tonn (35.000 - 45.000 kílógrömm). Kýrnar eru aftur á móti smærri, en þær verða allt að 11 metrar að lengd og vega ekki nema um 12-13 tonn (12.000 - 13.000 kg).
Aðalfæða búrhvalsins er djúpsjávarsmokkfiskur, en hann nærist einnig á ýmsum fisktegundum og kolkrabba. Búrhvalurinn þarf um eitt tonn af fæðu á dag.
Hægt er að finna búrhvali í öllum heimshöfum. Þeir geta kafað á eins kílómetra dýpi og geta verið í kafi um klukkustund í senn. Um skeið var talið að um tvær milljónir búrhvala lifðu í hafinu. Nú er talið að fjöldinn sé um fimmhundruð þúsund. Deilt er um hvort leyfa eigi veiðar á búrhvölum, en slíkar veiðar hafa verið bannaðar í nokkur ár vegna ótta við útrýmingu tegundarinnar.
Búrhvalur
MOBY DICK
Í skáldsögunni Moby Dick kemur hvergi nákvæmlega fram hversu stór Moby sjálfur er. Hins vegar er lýst af mikilli nákvæmni stærð búrhvela og annarra hvalategunda, og sterklega gefið í skyn að Moby Dick sé stærstur þeirra. Minna er gert úr gífurlegri stærð hvalsins en hversu klókur hann er og grimmur. Ég leyfi mér að þýða brot úr sögunni sem ætti að gefa hæfilega mynd af stærð Moby Dick:
Ég vil leggja fyrir ykkur nákvæma, einfalda lýsingu, sem snertir lifandi umfang þessa stórhvelis, hvers höfuðkúpa er viðfang okkar. Slík lýsing gæti reynst gagnleg hér. Samkvæmt vandlegum útreikningum sem ég hef unnið úr, og sem ég hef að hluta til byggt á mati Scoresby skiptstjóra, eru stærstu Grænlandshvalirnir um átján metrar á lengd; samkvæmt vandfærnustu útreikningum mínum fullyrði ég að stærsti búrhvalurinn sé milli 26 og 28 metra á lengd, og eitthvað minni en tólf metrar að ummáli þar sem hann er breiðastur; slíkur hvalur mun vega að minnsta kosti níutíu tonn. Ef við hugsum okkar að þrettán menn vegi samanlagt eitt tonn, er einn slíkur hvalur þyngri en samanlagðir íbúar eitt þúsund manna bæjar." (Úr Moby Dic, eftir Herman Melville)
Heimildir:
American Cetacean Society
Herman Melville, Moby Dick, 1851.