Í Íslensku orðsifjabókinni kemur fram að hal(l)elúja er hvorugkynsorð. Halelúja er sagt vera upphrópun og fagnaðarsöngur eða fagnaðarákall í kirkjumáli. Halelúja er tökuorð í íslensku sem er ættað úr hebresku. Orðið þýðir lofaður sé Drottinn og hebreski rithátturinn er hallelu Jah (Jah er stytting fyrir Jahve). Orðið halelúja kemur fyrir í nokkrum af Davíðssálmum Gamla testamentisins, oft bæði í byrjun og lok sálmanna. Í fornum gyðingdómi tónaði kór levíta sennilega halelúja í sálma eða víxlsöng við bænagjörð. Levítar voru þeir Ísraelsmenn kallaðir sem voru af ætt Leví og úr þeirra röðum voru valdir þjónar presta. Halelúja kemur eingöngu fyrir fjórum sinnum í Nýja testamentinu og í öll skiptin í Opinberunarbókinni. Halelúja stendur yfirleitt óþýtt í þýðingum Bíblíunnar. Elst þeirra er gríska þýðingin á Gamla testamentinu sem sagt er að hafi verið unnin af 70 (eða 72) fræðimönnum á 72 dögum að fyrirmælum gríska embættismannsins Ptólemaíosar Fíladelfosar sem var uppi 285 til 246 fyrir Krist. Þýðingin sem heitir Sjötíumannaþýðingin (á latínu Septuaginta sem þýðir 70) var sennilega ætluð grískumælandi gyðingum í Egyptalandi. Í latnesku bíblíuþýðingunni sem heitir Vulgata og er frá því um 400 eftir Krist var orðið ritað alleluia. Vulgata er bíblía rómversk-kaþólsku kirkjunnar. Fagnaðarákallið halelúja var notað í frumkristni. Halelúja kemur nú einnig fyrir í helgisiðum, messum og sálmum allra kristinna kirkjudeilda og er skemmst að minnast jólasálmsins kunna Í Betlehem er barn oss fætt.
Britannica Online
Ásgeir Blöndal Magnússon, Íslensk Orðsifjabók. Orðabók Háskólans, 1989. Bls. 301.
Ensk-íslensk orðabók. Örn og Örlygur. 1984.
Mynd: HB