Sólin Sólin Rís 10:23 • sest 16:05 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 25:04 • Sest 15:29 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 12:18 • Síðdegis: 25:05 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 05:51 • Síðdegis: 18:50 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 10:23 • sest 16:05 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 25:04 • Sest 15:29 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 12:18 • Síðdegis: 25:05 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 05:51 • Síðdegis: 18:50 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvenær hófu menn að brugga bjór? Var bjór bruggaður á Íslandi fyrr á öldum?

Hallgerður Gísladóttir (1952-2007)

Bjór eða kornöl er ævagamall í sögunni. Til dæmis hafa leifar af slíkum drykk greinst í vel forvörðum mögum faraóanna. Síðar hvarf bjórinn af borðum helstu menningarþjóða fornaldar og drykkur Grikkja og Rómverja var, eins og kunnugt er, vín. Hins vegar var ölið aðaldrykkur hinna barbarísku germana og kelta en þeir lyftu því á þann virðingarsess sem það situr í nú.

Á fyrstu öldum Íslandsbyggðar og að minnsta kosti fram á 17. öld var kornöl aðalveisludrykkur manna hér á landi. Ölið var bruggað úr malti, sem er spírað bygg, og kallað mungát. Orðið bjór var notað um innflutt öl af þessu tagi framan af.

Til ölgerðar þurfti einungis malt, vatn og ger sem venjulega var tekið úr fyrri lögun. Ekki er ólíklegt að trjábörkur eða einiber hafi verið sett í öl hér á landi eins og talið er að Norðmenn hafi snemma gert.

Bjór eða kornöl er ævagamall drykkur.

Humlanotkun fer svo að breiðast út á Norðurlöndum á 12. öld. Þeir voru ekki eingöngu til bragðbætis heldur vörðu þeir einnig ölið skemmdum. -- Áhöld sem notuð voru til ölgerðar voru kölluð ölgögn eða hitugögn og voru á höfðingjasetrum sérstök hituhús til þessarar iðju í eldri tíð.

Ölgerð fór í stórum dráttum fram á eftirfarandi hátt. Ef menn notuðu bygg, þurfti fyrst að „melta” það, það er að segja, að gera úr því malt. Byggið var bleytt og látið spíra, en þá myndaðist sykur sem gerlarnir nýta seinna í alkóhól. Það var síðan þurrkað og malað í maltkvörn og þá gat hin eiginlega bruggun hafist. Maltið var látið liggja í bleyti og síðan hrært saman við sjóðandi vatn til að leysa út sykurinn. Síðan var hræran eða hrostinn síaður í sérstökum hrostastampi og humlaseyði sett í löginn, sem kallaðist virtur, eftir að farið var að nota humla. Næst var virturin soðin og látin í gangker til gerjunar og geri bætt í þegar hitastig varð mátulegt.

Eftir að gerjun lauk var ölinu tappað á tunnur og látið geymsluþroskast í nokkra daga. Meðan ölið var að gerjast settist ofan á það froða sem var veidd af, þurrkuð og geymd til að gerja næstu lögn. Þessi gerjunaraðferð er kölluð yfirgerjun og vísar nafnið til þess að gerinn flýtur upp en sekkur ekki eins og þegar um undirgerjun er að ræða. Þýskir klausturmunkar fundu upp undirgerjun um 1500 og er hún nú langalgengasta aðferð sem notuð er við ölgerð, þó að yfirgerjaðar tegundir séu enn á markaði eins og Porter og Ale. Undirgerjað öl þarf lengri tíma til að geymsluþroskast, um mánuð, en yfirgerjað öl er tilbúið nokkrum dögum eftir að gerjun lýkur.

Eftir að hætt var að rækta bygg hér á landi nálægt lokum miðalda dró úr innlendri bjórgerð en þó var töluvert um innflutning á malti til ölgerðar fram eftir öldum. Daglegur svaladrykkur Íslendinga var sýrublanda. Í nágrannalöndunum var bjór hins vegar víða daglegur drykkur manna en hér aðeins til hátíðabrigða vegna skorts á korni, og kann þetta að hafa átt sinn þátt í íslenskri áfengismenningu.

Bakarar hér á landi brugguðu og seldu bjór á 19. öldinni, meðal annars til að halda við ger til brauðgerðarinnar. Með lögum nr. 5 frá 12. janúar árið 1900 var svo bannað að brugga vínandadrykki og áfenga maltdrykki á Íslandi.

Nákvæmar lýsingar á ölgerð eru í bókunum Ný matreiðslubók eftir Þóru Andreu Nikólínu Jónsdóttur frá 1858 og í Lærdómslistafélagsritunum 1791 (Ólafur Ólafsson).

Mynd:

Höfundur

Útgáfudagur

4.12.2001

Síðast uppfært

7.3.2024

Spyrjandi

Finnbogi Óskarsson

Tilvísun

Hallgerður Gísladóttir (1952-2007). „Hvenær hófu menn að brugga bjór? Var bjór bruggaður á Íslandi fyrr á öldum?“ Vísindavefurinn, 4. desember 2001, sótt 23. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=1988.

Hallgerður Gísladóttir (1952-2007). (2001, 4. desember). Hvenær hófu menn að brugga bjór? Var bjór bruggaður á Íslandi fyrr á öldum? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=1988

Hallgerður Gísladóttir (1952-2007). „Hvenær hófu menn að brugga bjór? Var bjór bruggaður á Íslandi fyrr á öldum?“ Vísindavefurinn. 4. des. 2001. Vefsíða. 23. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=1988>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvenær hófu menn að brugga bjór? Var bjór bruggaður á Íslandi fyrr á öldum?
Bjór eða kornöl er ævagamall í sögunni. Til dæmis hafa leifar af slíkum drykk greinst í vel forvörðum mögum faraóanna. Síðar hvarf bjórinn af borðum helstu menningarþjóða fornaldar og drykkur Grikkja og Rómverja var, eins og kunnugt er, vín. Hins vegar var ölið aðaldrykkur hinna barbarísku germana og kelta en þeir lyftu því á þann virðingarsess sem það situr í nú.

Á fyrstu öldum Íslandsbyggðar og að minnsta kosti fram á 17. öld var kornöl aðalveisludrykkur manna hér á landi. Ölið var bruggað úr malti, sem er spírað bygg, og kallað mungát. Orðið bjór var notað um innflutt öl af þessu tagi framan af.

Til ölgerðar þurfti einungis malt, vatn og ger sem venjulega var tekið úr fyrri lögun. Ekki er ólíklegt að trjábörkur eða einiber hafi verið sett í öl hér á landi eins og talið er að Norðmenn hafi snemma gert.

Bjór eða kornöl er ævagamall drykkur.

Humlanotkun fer svo að breiðast út á Norðurlöndum á 12. öld. Þeir voru ekki eingöngu til bragðbætis heldur vörðu þeir einnig ölið skemmdum. -- Áhöld sem notuð voru til ölgerðar voru kölluð ölgögn eða hitugögn og voru á höfðingjasetrum sérstök hituhús til þessarar iðju í eldri tíð.

Ölgerð fór í stórum dráttum fram á eftirfarandi hátt. Ef menn notuðu bygg, þurfti fyrst að „melta” það, það er að segja, að gera úr því malt. Byggið var bleytt og látið spíra, en þá myndaðist sykur sem gerlarnir nýta seinna í alkóhól. Það var síðan þurrkað og malað í maltkvörn og þá gat hin eiginlega bruggun hafist. Maltið var látið liggja í bleyti og síðan hrært saman við sjóðandi vatn til að leysa út sykurinn. Síðan var hræran eða hrostinn síaður í sérstökum hrostastampi og humlaseyði sett í löginn, sem kallaðist virtur, eftir að farið var að nota humla. Næst var virturin soðin og látin í gangker til gerjunar og geri bætt í þegar hitastig varð mátulegt.

Eftir að gerjun lauk var ölinu tappað á tunnur og látið geymsluþroskast í nokkra daga. Meðan ölið var að gerjast settist ofan á það froða sem var veidd af, þurrkuð og geymd til að gerja næstu lögn. Þessi gerjunaraðferð er kölluð yfirgerjun og vísar nafnið til þess að gerinn flýtur upp en sekkur ekki eins og þegar um undirgerjun er að ræða. Þýskir klausturmunkar fundu upp undirgerjun um 1500 og er hún nú langalgengasta aðferð sem notuð er við ölgerð, þó að yfirgerjaðar tegundir séu enn á markaði eins og Porter og Ale. Undirgerjað öl þarf lengri tíma til að geymsluþroskast, um mánuð, en yfirgerjað öl er tilbúið nokkrum dögum eftir að gerjun lýkur.

Eftir að hætt var að rækta bygg hér á landi nálægt lokum miðalda dró úr innlendri bjórgerð en þó var töluvert um innflutning á malti til ölgerðar fram eftir öldum. Daglegur svaladrykkur Íslendinga var sýrublanda. Í nágrannalöndunum var bjór hins vegar víða daglegur drykkur manna en hér aðeins til hátíðabrigða vegna skorts á korni, og kann þetta að hafa átt sinn þátt í íslenskri áfengismenningu.

Bakarar hér á landi brugguðu og seldu bjór á 19. öldinni, meðal annars til að halda við ger til brauðgerðarinnar. Með lögum nr. 5 frá 12. janúar árið 1900 var svo bannað að brugga vínandadrykki og áfenga maltdrykki á Íslandi.

Nákvæmar lýsingar á ölgerð eru í bókunum Ný matreiðslubók eftir Þóru Andreu Nikólínu Jónsdóttur frá 1858 og í Lærdómslistafélagsritunum 1791 (Ólafur Ólafsson).

Mynd:...