Hitastig á þeirri hlið Merkúríusar sem snýr að sólinni er um 350-400°C en hinum megin getur verið allt að -170°C. Merkúríus er sú reikistjarna í sólkerfinu sem næst er sólu. Af öllum reikistjörnunum er braut Merkúríusar mest sporbaugslaga eða fjærst hringlögun, fyrir utan braut Plútós. Vegna þessa er mikill munur á mestu og minnstu fjarlægð Merkúríusar frá sól og dálítil hitabreyting af þeirri ástæðu bætist við hina sem fylgir ljósi og skugga. Það tekur Merkúríus um 58,9 daga að snúast um möndul sinn en einungis um 87,9 daga að fara umhverfis sól. Það er um það bil fjórum sinnum minni tími en það tekur jörðina að fara kringum sólina. Því má segja að áramót séu á Merkúríusi á eins og hálfs sólarhrings fresti. (Þá er miðað við sólarhring á Merkúríusi.) Hitamunur sólar- og skuggamegin á Merkúríusi er sá mesti í sólkerfinu, bæði vegna nálægðarinnar við sól og af því að lofthjúpurinn er mjög þunnur. Hann er samsettur úr natríni og kalíni. Engin tungl fylgja Merkúríusi. Merkúríus er 4879 km í þvermál eða 1/3 af þvermáli jarðar og hann er minnsta reikistjarna sólkerfisins fyrir utan Plútó. Ef jörðin er 1 einingar frá sól þá er Merkúríus aðeins 0,39 slíkar einingar frá sólu. Eðlismassinn er svipaður og í jörðinni eða 5,4 kg/l (talan fyrir jörð er 5,5). Talið er að í Merkúríusi sé gríðarlegur járnkjarni sem sé um 75% af þvermáli hennar. Merkúríus hefur segulsvið og er það skýr vísbending um að ytri kjarni Merkúríusar sé fljótandi eins og er. Yfirborð Merkúríusar er áþekkt yfirborði tunglsins okkar, alsett gígum, að mestu hálent en allstórar lágsléttur eru líka inni á milli. Um yfirborðið ganga klettabelti sem líklega hafa risið þegar Merkúríus kólnaði og skrapp saman. Eina geimfarið sem hefur verið notuð til að rannsaka Merkúríus var Mariner 10 sem ljósmyndaði um 45% af yfirborði hans á árunum 1974-1975. Heimildir: Efni um stjörnufræði á vef Verzlunarskólans. Kaufmann III, William J., og Freeman, Roger A., 1998. Universe.
Myndir: Ice on Mercury, NASA