Sólin Sólin Rís 09:06 • sest 17:16 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 06:24 • Sest 16:46 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 05:17 • Síðdegis: 17:24 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 11:24 • Síðdegis: 23:36 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 09:06 • sest 17:16 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 06:24 • Sest 16:46 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 05:17 • Síðdegis: 17:24 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 11:24 • Síðdegis: 23:36 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvað tóku siglingar á landnámsöld langan tíma?

Þorsteinn Vilhjálmsson

Tíminn sem það tók að sigla tiltekna leið á landnámsöld var mjög breytilegur. Menn hafa verið fljótastir þegar þeir höfðu hæfilegan meðbyr en mestan tíma tók ferðin ef mótvindur var eða svo hvasst að öldugangur knúði menn til að slá af ferðinni. Stundum tók ferðin þá mjög langan tíma, til dæmis nær allt sumarið. Einnig eru dæmi þess í Íslendingasögunum að menn lágu vikum saman inni á fjörðum til að bíða byrjar áður en þeir héldu til hafs.


Skipið Íslendingur.

Algengast var á þessum tíma að menn vildu ferðast milli Íslands og Noregs. Í meginatriðum var þá um tvær leiðir að velja, í fyrsta lagi svokallaða eyjaleið og í öðru lagi leið sem við getum kallað úthafsleið. Í fyrra tilvikinu fylgdu menn eyjum Atlantshafsins og fóru frá Noregi til Hjaltlands (Shetlandseyja) eða Orkneyja, síðan til Færeyja og þaðan til Íslands, en öfugu leiðina til baka. Þegar þessi leið er valin geta menn komist hjá því að sigla marga daga á rúmsjó þar sem ekki sér til lands. Úthafsleiðin fólst hins vegar í því að fara beina leið milli Noregs og Íslands. Á vesturleið þurftu menn þá að gæta vel að til þess að rata til Íslands eða „hitta“ á landið en á austurleið hefur það verið auðveldara vegna þess að Noregur er svo langur.

Af sögum má sjá að algengt var að menn komu að landi eða fengu landsýn á allt öðrum stað en ferðinni var heitið á. Þeir fylgdu þá oftast ströndinni á áfangastað en slík strandsigling gat tekið talsverðan tíma, til dæmis í Noregi vegna lengdarinnar sem áður var getið.

Fljótustu ferðir milli Íslands og Noregs voru farnar við bestu skilyrði og menn höfðu þá kannski líka heppnina með sér. Styst er milli landanna frá ströndinni fyrir norðan Björgvin (Staður) til suðausturstrandar Íslands (Horn) og má ætla að fljótustu ferðir þar á milli hafi tekið 3 sólarhringa eða svo. Ef menn voru að fara milli annarra staða bættust nokkrir sólarhringar við þá tölu.

Þessar tölur gilda við bestu skilyrði en algengt var í raun að ferðir milli landanna tækju nokkrar vikur og þótti til dæmis tiltökumál ef kaupmenn fóru tvisvar fram og til baka á sama sumri. Þá þarf að hafa í huga að menn sigldu helst ekki utan tímans frá maí fram í september.

Líklegur og algengur siglingahraði í ferðum á þessum tíma hefur verið 3-6 hnútar, en hnútur er sjómíla á klukkustund og sjómílan er um 1,8 km. Í þessum tölum er ekki átt við tímabundinn hraða miðað við vatnið heldur þann hraða sem birtist í raunverulegum ferðum milli tiltekinna staða. Fyrrnefndi hraðinn, sem miðaðist við vatnið og við skamman tíma, gat orðið talsvert meiri, en nauðsynlegt er að halda þessu tvennu aðskildu í umræðum.

Nánar má lesa um þessa hluti í greinum sem birtar eru á vefsetri höfundar og í prentuðum ritsmíðum sem þar eru skráðar. Búast má við að greinum á vefsetrinu fari fjölgandi á næstunni.

Myndir:
  • HB

Höfundur

Þorsteinn Vilhjálmsson

prófessor emeritus, ritstjóri Vísindavefsins 2000-2010 og ritstjóri Evrópuvefsins 2011

Útgáfudagur

2.11.2001

Spyrjandi

Birgir Steinþórsson, f. 1988

Tilvísun

Þorsteinn Vilhjálmsson. „Hvað tóku siglingar á landnámsöld langan tíma?“ Vísindavefurinn, 2. nóvember 2001, sótt 30. október 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=1935.

Þorsteinn Vilhjálmsson. (2001, 2. nóvember). Hvað tóku siglingar á landnámsöld langan tíma? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=1935

Þorsteinn Vilhjálmsson. „Hvað tóku siglingar á landnámsöld langan tíma?“ Vísindavefurinn. 2. nóv. 2001. Vefsíða. 30. okt. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=1935>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvað tóku siglingar á landnámsöld langan tíma?
Tíminn sem það tók að sigla tiltekna leið á landnámsöld var mjög breytilegur. Menn hafa verið fljótastir þegar þeir höfðu hæfilegan meðbyr en mestan tíma tók ferðin ef mótvindur var eða svo hvasst að öldugangur knúði menn til að slá af ferðinni. Stundum tók ferðin þá mjög langan tíma, til dæmis nær allt sumarið. Einnig eru dæmi þess í Íslendingasögunum að menn lágu vikum saman inni á fjörðum til að bíða byrjar áður en þeir héldu til hafs.


Skipið Íslendingur.

Algengast var á þessum tíma að menn vildu ferðast milli Íslands og Noregs. Í meginatriðum var þá um tvær leiðir að velja, í fyrsta lagi svokallaða eyjaleið og í öðru lagi leið sem við getum kallað úthafsleið. Í fyrra tilvikinu fylgdu menn eyjum Atlantshafsins og fóru frá Noregi til Hjaltlands (Shetlandseyja) eða Orkneyja, síðan til Færeyja og þaðan til Íslands, en öfugu leiðina til baka. Þegar þessi leið er valin geta menn komist hjá því að sigla marga daga á rúmsjó þar sem ekki sér til lands. Úthafsleiðin fólst hins vegar í því að fara beina leið milli Noregs og Íslands. Á vesturleið þurftu menn þá að gæta vel að til þess að rata til Íslands eða „hitta“ á landið en á austurleið hefur það verið auðveldara vegna þess að Noregur er svo langur.

Af sögum má sjá að algengt var að menn komu að landi eða fengu landsýn á allt öðrum stað en ferðinni var heitið á. Þeir fylgdu þá oftast ströndinni á áfangastað en slík strandsigling gat tekið talsverðan tíma, til dæmis í Noregi vegna lengdarinnar sem áður var getið.

Fljótustu ferðir milli Íslands og Noregs voru farnar við bestu skilyrði og menn höfðu þá kannski líka heppnina með sér. Styst er milli landanna frá ströndinni fyrir norðan Björgvin (Staður) til suðausturstrandar Íslands (Horn) og má ætla að fljótustu ferðir þar á milli hafi tekið 3 sólarhringa eða svo. Ef menn voru að fara milli annarra staða bættust nokkrir sólarhringar við þá tölu.

Þessar tölur gilda við bestu skilyrði en algengt var í raun að ferðir milli landanna tækju nokkrar vikur og þótti til dæmis tiltökumál ef kaupmenn fóru tvisvar fram og til baka á sama sumri. Þá þarf að hafa í huga að menn sigldu helst ekki utan tímans frá maí fram í september.

Líklegur og algengur siglingahraði í ferðum á þessum tíma hefur verið 3-6 hnútar, en hnútur er sjómíla á klukkustund og sjómílan er um 1,8 km. Í þessum tölum er ekki átt við tímabundinn hraða miðað við vatnið heldur þann hraða sem birtist í raunverulegum ferðum milli tiltekinna staða. Fyrrnefndi hraðinn, sem miðaðist við vatnið og við skamman tíma, gat orðið talsvert meiri, en nauðsynlegt er að halda þessu tvennu aðskildu í umræðum.

Nánar má lesa um þessa hluti í greinum sem birtar eru á vefsetri höfundar og í prentuðum ritsmíðum sem þar eru skráðar. Búast má við að greinum á vefsetrinu fari fjölgandi á næstunni.

Myndir:
  • HB
...