Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Svo virðist sem bæði konur og karlar hafi fengist við lækningar að fornu. Í Snorra-Eddu er sagt að gyðjan Eir sé „læknir bestur" og í fornsögum kemur víða fyrir að konur og karlar geri að sárum manna. Hildigunnur læknir er nefnd í Njálu, Hjalti Skeggjason læknar blástur í fæti Ingjalds frá Keldum í sömu sögu, Álfgerður læknir á Ekkjufelli bindur sár Gríms í Droplaugarsona sögu og í sömu sögu kemur fyrir kona sem „læst vera læknir", Gefjun hin fjölkunnuga. Snorri goði reynist besti græðari í Eyrbyggja sögu þegar hann græðir alla Þorbrandssyni, Bersi á Laugabóli bindur sár Þormóðar í Fóstbræðra sögu „því að hann var læknir góður", Helga í Geirshólmi er „góður læknir og græddi hún Geir að heilu“ í Harðar sögu og Hólmverja, í Ljósvetninga sögu situr Þorvarður læknir á Svalbarði, Þorvarður á Síreksstöðum var bestur læknir í Vopnafirði samkvæmt Vopnfirðinga sögu og Þorvaldur í Engihlíð í Langadal var læknir góður í Þórðar sögu hreðu þar sem skörungurinn Ólöf Hrolleifsdóttir er líka læknir góður.
Þá hefur vísi að spítala eða neyðarskýli verið komið upp í Stiklastaðaorustu árið 1030 eftir því sem segir í Ólafs sögu helga:
Þormóður gekk síðan í brott til skemmu nokkurrar, gekk þar inn. Var þar áður margir menn inni fyrir sárir mjög. Var þar að kona nokkur og batt um sár manna. Eldur var á gólfinu og vermdi hún vatn til að fægja sárin. En Þormóður settist niður við dyr utar. Þar gekk annar maður út en annar inn, þeir er störfuðu að sárum manna.
Önnur þekkt lýsing á læknum í fornsögum er látin gerast árið 1043 þegar Magnús konungur góði berst á Hlýrskógsheiði. Um það segir Snorri í Heimskringlu:
Eftir orustu lét Magnús konungur binda sár sinna manna en læknar voru ekki svo margir í herinum sem þá þurfti. Þá gekk konungur til þeirra manna er honum sýndist og þreifaði um hendur þeim. En er hann tók í lófana og strauk um þá nefndi hann til tólf menn, þá er honum sýndist sem mjúkhendastir mundu vera og segir að þeir skyldu binda sár manna en engi þeirra hafði fyrr sár bundið. En allir þessir urðu hinir mestu læknar. Þar voru tveir íslenskir menn. Var annar Þorkell Geirason af Lyngum, annar Atli faðir Bárðar svarta í Selárdal og komu frá þeim margir læknar síðan.
Í Eddukvæðum er vitnað til galdra og rúna sem að gagni gátu komið við lækningar, meðal annars er getið um bjargrúnir sem á að rista í lófa til að „leysa kind frá konum“ en einnig er mælt með að heita á dísir og Jón Steffensen hefur stungið upp á að kvæðið Oddrúnargrátur hafi beinlínis haft það hlutverk að lina þjáningar sængurkvenna - líkt og Margrétar saga síðar. Almennt er ekki ósennilegt að töfralækningar af ýmsu tagi hafi verið algengar og Grágás getur um blóðtökur í lækningaskyni.
Um lækningar að fornu má benda á skrif Jóns Steffensen í ritgerðasafni hans, Menning og Meinsemdir sem Sögufélagið gaf út 1975. Einnig skrifaði Jón um sama efni í 7. bindi ritraðarinnar Íslensk þjóðmenning árið 1990. Af eldri ritum má nefna verk Fredrik Grøn Altnordische Heilkunde frá 1908, skrif Reichborn-Kjennerud, til dæmis „Lægerådene í den eldre Edda“ í Maal og Minne 1923, og Vor gamle Trolddomsmedisin frá 1928. Þá er einnig vert að nefna nýlegt rit Charlotte Kaiser frá 1998, Krankheit und Krankheitsbewältigung in den Isländersagas: Medizinhistorischer Aspekt und erzähltechnische Funktion.
Frekara lesefni á Vísindavefnum:
Viðbót ritstjóra: Spyrjandi spurði einnig hvað þeir hafi verið nefndir sem stunduðu lækningar og svarið við því felst í því sem hér hefur verið sagt: Þeir voru kallaðir læknar rétt eins og nú.
Gísli Sigurðsson. „Hvert leituðu norrænir ásatrúarmenn til lækninga? Hver var guð lækninga?“ Vísindavefurinn, 1. október 2001, sótt 30. október 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=1886.
Gísli Sigurðsson. (2001, 1. október). Hvert leituðu norrænir ásatrúarmenn til lækninga? Hver var guð lækninga? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=1886
Gísli Sigurðsson. „Hvert leituðu norrænir ásatrúarmenn til lækninga? Hver var guð lækninga?“ Vísindavefurinn. 1. okt. 2001. Vefsíða. 30. okt. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=1886>.