Í grunnástandinu er hverfiþungi rafeindarinnar núll og líkindadreifingin er kúlusamhverf. Til eru ástönd með hærri orku sem eru líka kúlusamhverf. Slík ástönd köllum við s-ástönd. Ástöndin sem koma næst grunnástandinu í orku og eru ekki kúlusamhverf eru kölluð p-ástönd. Þau eru þrjú og eru oft teiknuð sem tvær kúlur festar saman í miðju hnitakerfisins og með samhverfuás eftir einum af þremur höfuðásum hnitakerfisins í þrívíðu rúmi. Sú mynd af þessu er hins vegar ekki alls kostar rétt. Þegar jafna Schrödingers er leyst fást þrjú p-ástönd með líkindadreifingum eins og tvær næstu myndir sýna.
Fyrri myndin gildir fyrir eitt p-ástand en sú síðari fyrir tvö. Líkindadreifingin er eins fyrir þau bæði og það eru aðeins bylgjuföllin sjálf sem eru mismunandi. Dreifingin lýsir tveimur lausnum jöfnunnar. Þessar lausnir eru með sömu orku og í slíkum tilvikum er sagt að orkustigið sé margfalt (e. degenarate). Hægt er að útbúa úr þeim tvær nýjar lausnir (enn með sömu orku) sem líta út eins og fyrsta myndin en liggja lárétt, hornrétt á hvor aðra. Venja er að ganga þannig til verks þegar jafna Schrödingers er leyst að "hráar" lausnir á henni verða allar með "lóðréttan" samhverfuás. Næstu þrjár myndir sýna líkindadreifninguna fyrir öll 5 d-ástöndin, og ættu að koma minna á óvart. Hér gerast svipaðir hlutir og fyrir p-ástöndin, þannig að fyrsta myndin lýsir einu óháðu ástandi en hinar tvær samsvara tveimur ástöndum hvor.
Í kennslubókum er oft aðeins fyrsta myndin notuð til þess að sýna d-ástand. En f-ástöndin eru 7 og næstu 4 myndir sýna líkindadreifingar þeirra, aftur eitt ástand á fyrstu mynd en tvö á hverri hinna.
Nú má auðvitað spyrja hvernig svigrúmin eða líkindadreifingarnar líti út í raun og veru. Svarið er að vegna margfeldni lausnanna er ekki hægt að ákvarða það nánar. Við getum aðeins skoðað þá möguleika sem gætu komið fyrir. Í atómum með fleiri en einni rafeind víxlverka rafeindinar og svigrúmin geta breyst af þeim sökum, og þá verður erfitt að tala um ástand einnar rafeindar án þess að hafa öll hin í huga. Hvort sem við gerum þá nálgun að rafeindirnar víxlverki ekki innbyrðis eða við tökum víxlverkunina með þegar við erum að skoða grunnástand rafeindadreifningarinnar finnum við að öll einangruð atóm í grunnástandi eru kúlusamhverf, þó svo að einhver hvel eða skeljar séu ekki fylltar. Þetta breytist síðan í segulsviði.