Oftast er orðið samviska notað um tilhneigingu til geðshræringa af vissu tagi sem menn finna fyrir ef þeir brjóta af sér eða gjöra eitthvað sem talið er ámælisvert. Þessar geðshræringar fela jafnan í sér sjálfsásökun vegna einhvers athæfis og í flestum tilvikum líka eftirsjá eða ósk um að hafa látið það ógert. Stundum er orðið samviska líka notað um nokkurn veginn það sama og „betri vitund” eða „siðferðileg sannfæring”. Þegar menn segja til dæmis að þeir geti ekki gert þetta eða hitt samvisku sinnar vegna meina þeir oftast að þeir álíti það verk sem um ræðir ranglátt, ósiðlegt eða svívirðilegt. Í ljósi þessara stuttlegu athugasemda um merkingu orðsins „samviska” má svara spurningunni svo að maður hafi samvisku ef maður trúir því að sum verk séu siðferðilega röng eða einhver afbrot eða brot á siðareglum mundu valda manni geðshræringum af því tagi sem nefndar voru.
Mynd: Faith, Trust, & Fairy Dust ANIMATION ART and COLLECTIBLES