Með þessum hætti leit Heidegger svo á að nútímamaðurinn væri á tiltekinn hátt í útlegð frá veruleikanum – eða, nánar tiltekið, frá verunni sjálfri. En hvað er þessi vera? Einfaldasta svarið við þeirri spurningu er að veran er það sem allt það sem er í heiminum – fólk, hlutir, fjöll, vindar, hugmyndir, hugarástönd, eða bara (einmitt!) hvað sem er – á sameiginlegt. Þetta minnir á eftirfarandi umræðu feðginanna Uglu og Fals í Atómstöðinni eftir Halldór Laxness
Ég held þú vitir ekki á hvað þú trúir faðir minn, sagði ég. Ojú telpa mín, ég trúi á mitt guð, við trúum á okkar guð, svaraði þessi ofstækislausi trúmaður og brosti að saklausu hjali okkar. [...] Okkar guð er það sem eftir er þegar öll guð hafa verið talin og sagt nei, ekki hann, ekki hann. (Atómstöðin k. 19 s. 211).Með þetta í huga má taka svo til orða að veran sé það sem verður eftir þegar við höfum bent á hvaðeina sem er í heiminum og sagt „nei, ekki þetta“. Og eins og ráða má af framansögðu er eitt lykilatriðið í hugsun Heideggers fólgið í þeirri skoðun að í sögu Vesturlanda hafi veran sjálf fallið í gleymsku. Með öðrum orðum hafa Vesturlandabúar smám saman glatað hæfninni til að undrast um veruna og spyrja spurningarinnar „hvað er að vera?“, eða „af hverju er eitthvað en ekki bara ekki neitt?“. Heidegger taldi heimspekina eiga mikla sök á því að svona fór; og hann lítur raunar á gjörvalla sögu frumspekinnar, frá dögum Platons, sem samfellda sögu af verugleymsku þar sem því sem er er hampað á kostnað verunnar sjálfrar. En eðli mannsins sem vitundarveru er einmitt í því fólgið að spyrja spurningarinnar um veruna, og það getur líka átt við um aðrar vitundarverur ef þær eru til – en sú spurning er reyndar afar umdeild meðal fræðimanna um Heidegger. Að mati Heideggers er allt samband mannsins við veruleikann í eðli sínu sprottið úr undruninni; hún er frumlæg og upprunaleg. En eftir því sem við fjarlægjumst veruna, eftir því sem gleymskan verður dýpri, fjarlægjumst við þennan uppruna með þeim afleiðingum að samfélag okkar verður tæknilegt og ómannlegt. Og þá hættum við líka að tala mannamál. Frekara lesefni:
- Hvað er mannamál? eftir Björn Þorsteinsson og Þorstein Vilhjálmsson
- Hvað er fyrirbærafræði? eftir Björn Þorsteinsson.
- Hver er meginmunurinn á hugtökunum verund og engu? eftir Val Brynjar Antonsson.
- Zahavi, Dan. Fyrirbærafræði. Björn Þorsteinsson þýddi. Reykjavík: Heimspekistofnun Háskóla Íslands 2008.
- Laxnesslykillinn