Sjóbirtingur er urriði (Salmo trutta) sem líkt og laxinn dvelst fyrstu ár ævi sinnar í fersku vatni en gengur síðan til sjávar. Venjulega eru slíkir urriðar orðnir 2-5 ára gamlir þegar þeir yfirgefa uppeldisstöðvar sínar og fara á haf út. Það gerist langoftast á vorin. Sjóbirtingar eru algengastir við vestur- og suðurströnd landsins og eru margar góðar sjóbirtingsár sem renna þar til sjávar. Má þar meðal annars nefna Brúará, Grenlæk, Hörgsá, Tunguá, Rangá og Hólsá. Á haustin (september/október) ganga þeir síðan aftur í árnar þar sem þeir ólust upp og hafa þar vetursetu en ganga á haf út á nýjan leik næst vor á eftir. Annað afbrigði af lífsferli urriðans þekkist í íslenskri náttúru. Þá gengur urriðinn úr á í nærliggjandi stöðuvatn. Hann dvelur fyrstu ár ævi sinnar í ánni og þegar hann stækkar gengur hann síðan í stöðuvatn. Þar verður urriðinn fram að kynþroska en fer þá í nærliggjandi á til að hrygna. Slík urriðavötn eru algeng í íslenskri náttúru og má þar helst nefna Þingvallarvatn og Veiðivötn.
Mynd: Cornell University