Hverjir eru ráðherrarnir og hvað gera þeir (starfslýsing)?Ráðherrarnir fara með framkvæmdavald ríkisins, ásamt forseta Íslands, og hafa yfirumsjón með málum sem heyra undir þeirra ráðuneyti. Þannig er það í þeirra verkahring að setja í framkvæmd ýmis mál sem þarf að vinna, hvort sem það er bygging nýs framhaldsskóla eða virkjunar, eða almennur rekstur á sjúkrahúsum, þjóðgörðum og fleiri stofnunum sem undir ríkið falla. Meðal þess sem ráðherrar gera er að koma með frumvörp sem unnin eru í ráðuneyti þeirra og leggja fyrir þingið. Þegar lög eru svo samþykkt bera ráðherrar upp lögin fyrir forseta Íslands til staðfestingar. Þá skipa ráðherra æðstu yfirmenn stofnanna sem undir ráðuneyti þeirra heyrir. Í flestum tilfellum gefur það auga leið hvers konar mál hver ráðherra fæst við en sérstaklega má þó nefna að innanríkisráðherra fer með dómsmál og samgöngumál. Undir forsætisráðuneyti heyrir æðsta stjórn ríkisins alla jafna og er forsætisráðherra nokkurs konar verkstjóri ríkisstjórnarinnar.

Fjöldi ráðherra og ráðuneyta getur verið breytileg eftir því hverjir sitja í ríkisstjórn. Í ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur eru ellefu ráðherrar. Talið frá vinstri: Guðmundur Ingi Guðbrandsson, Lilja Dögg Alfreðsdóttir, Sigríður Á. Andersen, Svandís Svavarsdóttir, Sigurður Ingi Jóhannsson, Katrín Jakobsdóttir, Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands, Bjarni Benediktsson, Kristján Þór Júlíusson, Guðlaugur Þór Þórðarson, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir og Ásmundur Einar Daðason.
- Stjórnarskrá Íslenska lýðsveldisins. Skoðað 03.12.2018.
- Lög um stjórnarskrá Íslands. Skoðað 03.12.2018.
- Stjórnarráðið | Ráðuneyti Katrínar Jakobsdóttur. (Sótt 26. 11. 2018).