Skýra má hárpípukraftinn á einfaldan hátt út frá yfirborðsspennu vökvans. Þegar mjóu röri er stungið ofan í vökva er yfirborð vökvans slitið í sundur og yfirborðsorka hans þar með aukin. Ef vatn dregst að efninu við snertingu eins og fyrr er sagt verður yfirborðsorkan hins vegar lægst þegar vökvinn hylur eins mikið af rörinu og hægt er og vökvinn reynir að lágmarka orku sína. Sé rörið nægilega mjótt skríður vatnið upp með innanverðu rörinu og dregur með sér vatnsameindir í grenndinni sem loða hver við aðra. Þyngdarkrafturinn vinnur hinsvegar á móti þessu og þar kemur að vökvasúlan í rörinu verður of þung til að komast hærra. Sé rörið hinsvegar svert verður engin breyting sjáanleg, eins og við þekkjum, enda vatnssúlan þá strax orðin allt of þung. Í venjulegum þerripappír er mikið af örfínum þráðum sem liggja þétt hver utan í öðrum. Það myndast því mikið af mjóum rásum milli þráðanna sem haga sér eins og áðurnefndar hárpípur. Þegar borðtuska er mjög þurr (og kannski oft búið að vinda hana og þurrka) geta rásirnar á hinn bóginn verið aflagaðar, legið of þétt saman, og væting erfið. Vatnið nær því illa að væta þræðina, sem er skilyrði fyrir því að hárpípukraftarnir verði virkir. Ef tuskan er hinsvegar bleytt vel (dýft ofan í vatnsfötu) er búið að þröngva vatninu til að umlykja alla þræði í henni. Síðan, eftir að tuskan hefur verið undin vel, fer megnið af vatninu burt en eftir verður þunn himna á öllum þráðum. Tuskan getur nú mjög auðveldlega drukkið vatn í sig til viðbótar því rásirnar eru að mestu tómar eftir vindinguna og vætingin ekki lengur vandamál; vatn loðir jú vel við vatn! Mynd:
- Mirror.co.uk. Sótt 23.9.2009.
Hér er einnig svarað spurningu Einars Sigurjónssonar „Hver er skýringin á hárpípukraftinum?”