Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Ýmislegt er skylt með snobbi og smáborgarahætti en þó er munur á. Hvort tveggja ber vott um ákveðið ósjálfstæði í hugsun og gildismati. Snobbarinn lætur stjórnast af því sem þykir fínt, til dæmis af ákveðinni „elítu”, það er að segja einhvers konar úrvalshópi í samfélaginu, en smáborgarinn stjórnast hins vegar af almennum, ríkjandi viðhorfum. Hinn smáborgaralegi leggur áherslu á að hverfa í fjöldann eða þóknast fjöldanum en hinn snobbaði reynir að hefja sig yfir fjöldann með því að sýnast „fínni” en aðrir.
Þessir tveir eiginleikar geta stundum farið saman, til dæmis ef fólk snobbar fyrir hlutum sem almenningur er samdóma um að séu fínir. Í sumum tilfellum reynist það nefnilega fjöldanum þóknanlegt að ákveðnir einstaklingar séu hafnir yfir hann.
Sá sem er smáborgaralegur er, samkvæmt Íslenskri orðabók (Árni Böðvarsson 1983), „smámunalegur, þröngsýnn (og hégómlegur) í háttum og viðhorfum.” Þetta orð er gjarnan notað um þá sem óttast það mest að skera sig úr fjöldanum. Hinir smáborgaralegu eru yfirleitt gagnrýnislausir á viðtekin gildi eða viðhorf í umhverfi sínu og haga lífi sínu samkvæmt þeim. Á hinn bóginn geta þeir verið fljótir að dæma þá sem hafna þessum viðteknu gildum og skera sig úr hópnum.
Orðabókin segir hins vegar að snobbarinn sé „höfðingjasleikja, sá sem smjaðrar fyrir hærra settum; maður sem lætur mikið bera á áhuga sínum á því sem þykir fínt eða gerir sér upp slíkan áhuga”, að snobb sé „það að snobba, hégómaskapur, uppskafningsháttur” og að snobba sé „að smjaðra”. Höfðingjasleikjan smjaðrar fyrir höfðingjunum eingöngu vegna þess að þeir eru höfðingjar en ekki vegna þess að henni líki vel við þá sem manneskjur. Áhugi snobbarans á því sem þykir fínt ristir ekki djúpt heldur stafar hann eingöngu af því að viðkomandi hlutir þykja fínir.
Þannig getur hinn snobbaði sýnt, að minnsta kosti um tíma, svipaða hegðun og einhver sem ekki er snobbaður. Listasnobbarinn sækir til dæmis myndlistarsýningar og sinfóníutónleika í þeim tilgangi að láta sjá sig á viðkomandi stöðum án þess að hann hafi nokkurn raunverulegan áhuga á því sem þar fer fram. Aðrir geta svo sótt sömu listviðburði af einlægum áhuga á viðfangsefninu. Svo er þriðji möguleikinn til, að einhver sem hefur einlægan áhuga á listum sé líka haldinn listasnobbi þannig að hann telji sig yfir aðra hafinn vegna þessa áhuga síns og smjaðri fyrir listamönnum, listfræðingum og frægum listunnendum.
Hinn smáborgaralegi speglar sig í augum fjöldans og leggur metnað sinn í að þóknast fjöldanum. Snobbarinn speglar sig hins vegar í augum ákveðins hóps sem hann af einhverjum ástæðum telur merkilegan. Hann getur látið sig álit fjöldans litlu varða á þeim forsendum að almenningur kunni ekki gott að meta. Sjálfsmat hans veltur á því hvernig hann er (eða telur sig vera) í augum þeirra sem hann telur mega sín mikils, á hvaða sviði svo sem það er. Snobb getur birst á ólíkum sviðum; einn snobbar kannski fyrir kvikmyndaleikurum, annar fyrir stjórnmálamönnum og sá þriðji á sviði hönnunar og húsbúnaðar og leggur metnað sinn í að verða „annálaður fagurkeri”. Því getur sama manneskjan sjálfsagt verið smáborgaraleg á sumum sviðum en snobbuð á öðrum.
Dæmi um fræga snobbara eru þeir bræður Frasier og Niles Crane úr sjónvarpsþáttaröðinni Frasier. Þeir eru þó ekki miklir smáborgarar þar sem þeir hafa yfirleitt ekki áhyggjur af að skera sig úr fjöldanum. Þeir leggja metnað sinn í að vera álitnir fínni en fjöldinn, sérstaklega hvað snertir smekk, gáfur og tengsl við lista- og menningarspírur. Hins vegar má segja að faðir þeirra, Martin, sé að vissu leyti smáborgaralegur þar sem gildismat hans er að mörgu leyti gildismat fjöldans og frávik sona hans frá meðalmennskunni fara í taugarnar á honum.
Orðið snobb er tökuorð úr ensku, „snob”. Því heyrist oft haldið fram að orðið sé þannig til komið að í fínni skólum á Englandi hafi nemendur án aðalstignar verið skráðir sem „s. nob.” sem er stytting á „sine nobilitate” sem merkir „án aðalstignar”. Erfitt reynist þó að finna áreiðanlegar heimildir þessu til staðfestingar og víða er þessi kenning véfengd.
Samkvæmt traustari heimildum þýddi orðið snob upphaflega „skósmiður” og vitað er um notkun orðsins í þeirri merkingu á 18. öld. Síðar var farið að nota orðið um fólk af lægri stigum þjóðfélagsins, eins og skósmiðir voru yfirleitt. Árið 1840 skrifaði rithöfundurinn William Makepeace Thackeray greinaflokkinn The Snobs of England by One of Themselves. Þar er orðið snob notað nokkurn veginn í núverandi merkingu.
Þótt sagan um „sine nobilitate” sem uppruna orðsins snob sé ósennileg má benda á að hugsanlegt er að orðið hafi verið tekið í notkun í skólum Englands um nemendur af almúgaættum einmitt vegna þeirrar tilviljunar að það féll vel að styttingu á „sine nobilitate”. Einnig er talað um að nemendur við Cambridge hafi snemma tekið upp notkun á orðinu snob en ef til vill notað það um alla sem ekki voru nemendur við skólann, fremur en til að gera grein fyrir ætterni nemenda. Þannig er ekki óhugsandi að sannleikskorn leynist í kenningunni þótt smáatriðin kunni að vera röng.
Heimildir um uppruna enska orðsins snob:World Wide WordsAskOxford.comLatin Language Studies at Little VentureDictionary.com
Eyja Margrét Brynjarsdóttir. „Hver er munurinn á smáborgarahætti og snobbi?“ Vísindavefurinn, 13. júlí 2001, sótt 23. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=1787.
Eyja Margrét Brynjarsdóttir. (2001, 13. júlí). Hver er munurinn á smáborgarahætti og snobbi? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=1787
Eyja Margrét Brynjarsdóttir. „Hver er munurinn á smáborgarahætti og snobbi?“ Vísindavefurinn. 13. júl. 2001. Vefsíða. 23. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=1787>.